Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Þetta var bara sólarhrings  vakt og það var stundum eins og Baldvin þyrfti aldrei að sofa“
Föstudagur 24. desember 2021 kl. 10:34

„Þetta var bara sólarhrings vakt og það var stundum eins og Baldvin þyrfti aldrei að sofa“

Þorbjörg Bergsdóttir hóf útgerð og fiskvinnslu með eiginmanni sínum, Baldvini Njálssyni, árið 1965. Fyrstu árin var útgerðin smá í sniðum en hófst af fullri alvöru 1973. Allt hófst þetta með því að Baldvin keypti bát með föður sínum, Njáli Benediktssyni, og Sveini Björnssyni. Sá bátur var gerður út í þrjú ár og þá seldur. Þá var gert hlé á útgerð til ársins 1973 þegar Baldvin Njálsson fór í rekstur með Kjartani Mássyni. Það samstarf var í tvö ár. Þá var stofnuð Fiskverkun Baldvins Njálssonar. Frá árinu 1986 hefur fyrirtækið verið rekið undir nafni Nesfisks með um 400 manns í vinnu. Fyrirtækið á um tug skipa og það nýjasta, hátækni frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400, bættist í flotann á dögum. Þorbjörg, eða Bobba eins og hún er alltaf kölluð, fór út til Spánar og tók á móti skipinu hjá skipasmíðastöðinni og sigldi með því heim. Bobba kom í land í Keflavíkurhöfn en hún býr í háhýsi við höfnina og það var því stutt heim eftir fimm sólarhringa siglingu um 1400 sjómílna leið. Útsendarar Víkurfrétta hittu Bobbu á heimili hennar og ræddu við hana um gamla tíma, nútímann og framtíðina.

Fiskverkun í öðru hverju húsi við ströndina

Hvernig voru aðstæður í Garðinum þá, það snerist allt um fisk, var það ekki?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Strandlengjan var öllsömul með fiskverkun í öðru hverju húsi. Það voru allir í þessu.“

Var eitthvað sem ýtti ykkur út í þetta?

„Þetta er bara einhver þráhyggja. Baldvin vildi þetta og hafði áhuga fyrir þessu, hafði verið alinn upp við þetta og Njáll faðir hans var í þessu. Hann var bara vanur þessu og þegar Njáll hættir tók Baldvin bara við, kaupir af honum og það var bara eðlilegt.“

Hvernig var að vera ung kona í Garðinum á þessum tíma?

„Það var mjög gott að vera í Garðinum. En ég verð að viðurkenna það og segi enn og aftur: ég var ekki hrifinn af þessu, að vera í þessum rekstri, það var ekki eitthvað sem ég ætlaði mér. Ég ætlaði bara hafa það notalegt um ævina. Ég vildi bara að við myndum vinna bæði frá níu til fimm og hefðum bara gaman af lífinu. Það var víst ekkert svoleiðis í boði. En ég er ekkert óánægð með þetta, alls ekki. Nei, alls ekki.

Það myndi enginn trúa því  hvernig þetta var, það er ekki hægt. Þegar við vorum að byrja var tekinn bátur á leigu. Þar var beitt í Hafnarfirði og aflanum var landað í Grindavík og honum keyrt út í Garð. Þetta var bara sólarhrings vakt og það var stundum eins og Baldvin þyrfti aldrei að sofa. Svo byrjar Bergþór sonur okkar að keyra um leið og hann fær bílpróf og þá róast aðeins vinnan hjá Baldvin en þetta var alls ekki hægt. Það mundi engum detta í hug þessi vitleysa í dag.“

Sjómönnum smalað um helgar

Þú ert að ala upp börn á þessum tíma og ert með annan fótinn í fyrirtækinu líka?

„Já, ég keyrði sjómennina og hafði mikið gaman að því að keyra þá til borðs. Það þurfti að smala þeim saman um helgarnar. Ég gerði það og hafði gaman af. Ég sat líka alltaf í þegar farið var í Hafnarfjörð að sækja bjóði. Ég var alltaf með og ég hugsaði alltaf þegar við komum til baka; andskotinn, ég ætla ekki að fara með næst. Svo kom eitthvað upp tveimur tímum seinna og ég hljóp til eins og rófulaus hundur. Ég hafði gaman af og hef það eiginlega enn.“

Þið byrjið með fiskvinnslu og útgerð 1973 og kvótakerfið kemur skömmu síðar.

„Við byrjuðum smátt en það var alltaf verið að kaupa nokkur kíló. Ég verð að segja frá því sem fór í taugarnar á mér þegar við vorum skítblönk, nýbúin að kaupa kvóta. Þá mættum við öllum kvótaeigendunum sem við vorum búin að vera að kaupa af. Það var ekki alltaf gaman. Og þeir þurftu ekki einu sinni að vakna á morgnana eða gera nokkurn skapaðan hlut. Eftir smá stund voru þeir komnir með einhverja trillu og að næla sér í smá kvóta. Lífið var bara svona.“

Þetta hefur verið að stækka hjá ykkur smá saman í hálfa öld?

„Já, það var byrjað á því að kaupa gamlan bát frá Ólafsfirði. Svo vorum við líka í samkeppni við Samherja. Þeir voru svo sniðugir og voru ekkert að veiða þann kvóta sem þeir voru að kaupa. Þeir leigðu hann bara áfram gátu svo keypt nýtt skip og annað skip og við vorum alltaf að basla með þetta gamla. Þannig að mér fannst þetta ekki alltaf sanngjarnt.

Mér fannst alltaf inn á milli við vera dálítið hæg og bara svona gömul og ekki ekki alveg skilja þetta rétt. Við keyptum kvóta og hann var unninn í frystihúsinu og það var minna út úr því að hafa heldur en að leigja kvótann. Það var ekki sniðugt en svona var þetta.“

Hvernig gekk að fá fólk í vinnu í fisk eftir 1970 þegar þið voruð nýbyrjuð?

„Það gekk ekki neitt. Einu sinni var ég búin að fara fimm ferðir til  Keflavíkur og sækja fólk um hádegi og aldrei mætti neinn sem ég var að sækja. Svo loksins náði ég að koma með eina. Svo var hringt; „Æji, ég svaf yfir mig“. Ég fór og sótti og hún kemur. Mig minnir að klukkan hafi verið um níu eða eitthvað nálægt því. Klukkan ellefu átti hún að fara til tannlæknis og ég er náttúrulega bara dreif mig með hana til tannlæknis og hún fór svo heim aftur. Þetta er búið að vera einn sirkus frá byrjun.

Það var bara ekkert hægt að fá fólk á þessum tíma. Það voru alls staðar vinnslur og allir með sitt fólk. Það var prinsippmál að vera ekki að næla í fólki frá hinum. Það endaði með því árið 1973 að við erum með stelpur sem komu hingað og þangað frá að það var útbúin aðstaða fyrir þær í bílskúrnum hjá okkur. Þetta er eitthvert besta og skemmtilegasta tímabil sem ég man eftir þegar þær eru þarna. Svo fóru þær allar í skóla um haustið og þá sátum við uppi með ekki neitt. Þetta heldur bara áfram að vera svona mannahallæri þangað til að það fæst leyfi fyrir Pólverja.“

Samkeppni við flugvöllinn

Það var mikil fiskvinnsla á Suðurnesjum og fjölmargar vinnslustöðvar með sitt fólk. En svo var Keflavíkurflugvöllur í samkeppni við fiskvinnsluna um starfsfólk.

„Mér var alltaf meinilla við flugvöllinn og er það bara eiginlega enn. Við vorum alltaf í samkeppni við völlinn vegna þess að hann þurfti á þessu að fólki að halda frá vori og fram á haust. Þá máttum við fá fólkið aftur en þá var enginn fiskur. Þetta voru aðallega konur sem við vorum að fá frá hausti og fram í mars, þá vildi völlurinn fá sitt fólk aftur. Þá vorum við allslaus. Það hefur alltaf verið barningur að fá fólk,“ segir Bobba.

Þið eruð með þeim fyrstu sem farið að nýta ykkur útlendinga til vinnu?

„Já og eftir það fer allt að breytast. Það er sumt af þessu fólki sem kom til okkar 1991 enn hjá okkur.“

Þið fenguð til ykkar Pólverja. Var það til að fá stöðugleika í starfsemina?

„Það var ekkert fólk til innanlands og þar af leiðandi hefði ekkert verið hægt að vinna þennan fisk. Eitthvernvegin þurfti að bjarga sér. Það kom til okkar fjölskylda frá Póllandi. Þetta voru hjón og fólkið hans kom í Garðinn og hennar fólk settist að á Stokkseyri.“

Þetta hefur gengið vel?

„Við höfum alla tíð verið mjög ánægð með okkar fólk. Okkar Pólverjar, eins og ég segi alltaf, eru margir búnir að vera lengi og eru sumir ennþá.“

Misstu tvo menn í sjóslysi

Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum?

„Við höfum lent í áföllum. Við lentum í áfalli þegar Steindór GK fór upp í Krýsuvík en þar var mannbjörg. Svo misstum við annað skip, Unu í Garði GK, og tvo menn með því. Það er það erfiðasta.“

Svo varð hjá ykkur stórbruni.

„Einhvern veginn gleymi ég honum. Það voru bara dauðir hlutir sem fóru þar og ekkert í húfi. Auðvitað þurfti að byggja það upp aftur. Ég hef alltaf sagt að þetta væri bara þannig að við værum stjórnlaus. Það væri einhver annar sem réði þessu,“ segir Bobba og vísar til almættisins.

Bobba vildi ekki flytja starfsemi fyrirtækisins á sínum tíma í Gerðar, heldur byggja áfram upp á fyrri stað. „Svo brennur og það var ekki til skófla til að róta í rústunum. Það er bara fyrir þrá og dugnað að þetta er byggt upp aftur. Ég tók ekki mikinn þátt í því og var ábyggilega oft erfið í því tilfelli. Og skammast mín ekkert fyrir það“.

Vildir þú draga saman seglin?

„Ég vildi bara í burtu. Ég vildi ekki búa við þetta, vildi fara í rólegheitin og flytja starfsemina annað. En það var bara ekkert húsnæði að fá og því ráðist í endurbyggingu í Gerðum“.

Bobba er hógvær þegar hún lýsir starfi sínu innan fyrirtækisins. Fyrstu árin sá hún um útreikning launa en segir að síðan hafi hún bara verið að snúast í kringum reksturinn. „Ég hef bara verið að hnýsast í kringum þetta, forvitnast og reyna að sperra eyrun,“ segir hún.

Ekki alltaf verið þjál

Er ekki eitthvað skemmtilegt sem kemur íh ugann þegar þú rifjar upp þennan langan tíma í rekstri?

„Þetta eru ekki fimmtíu ár sem verða leiðinleg út í gegn út í gegn, það er ekki svoleiðis. Ég hef alltaf verið með en ég hef ekki alltaf verið þjál. Ég hef alveg haft mína skoðun.“

Hún segist ekki alltaf hafa verið sátt við sveitarfélagið og fundist það vera þungt í vöfum þegar kom að málefnum fyrirtækisins.

Daglegur pönnukökubakstur

Bobba kann margar góðar sögur frá tíma sínum hjá fyrirtækinu.

„Á sínum tíma þegar við létum byggja gamla Benedikt var ég búin að heita því ef hann fengi tuttugu tonn þá skildi ég baka pönnukökur og setja á þær rjóma. Hann var heila viku eða meira með tuttugu tonn á hverjum degi og ég var alltaf að baka pönnukökurnar og setja rjómann og þetta var handa allri bryggjunni eins og hún lagði sig. En það fiskaðist mest á Benna og við sögðum alltaf Benni af því að hann hét Benedikt Sæmundsson.“

Fiskurinn betri eftir að kvótakerfinu var komið á

Hvað finnst þér um kvótakerfið?

„Ég held að fiskurinn sé miklu betri eftir kvótakerfið. Það var verið að geyma keiluna til dæmis. Hún var stundum orðin dálítið lúin þegar hún var verkuð en hún var unnin í skreið þá, en það er auðvitað matur líka. Ég vil ekki vera að tala um kvótakerfið. Við keyptum okkar kvóta og höfum ekkert fengið gefins og það er bara eina sem ég veit.“

Það eru flestir á því að kvótakerfið sé gott þó það séu margir gallar á því?

„Já, Það eru miklir peningar í kvótakerfinu og auðvitað finnst þeim sem engan kvóta eiga og jafnvel búa til sveita að þeir eigi að fá þetta. Við greiðum auðlindagjald og það er bara töluvert. Við gerum það og allir halda að við séum bara gratís. Það er bara töluvert sem þetta kostar. Það er ekkert gefins. Við kæmumst yfir að vinna mikið meiri afla heldur en við fáum úthlutað. Við höfum verið að leigja kvóta á hverju einasta ári. Við borgum líka auðlindagjald af því sem við leigjum. Fólk er bara með ranghugmyndir í sambandi við þetta kerfi.“

Bobbu er alveg sama þó fólk sé að argast í henni út af kvótanum, því hún veit að fyrirtæki hennar hefur borgað fyrir hann og ekki fengið upp í hendurnar.

Hvað hafið þið lagt áherslu á í starfseminni?

„Við höfum verið með frystinguna númer eitt og höfum reynt að hafa fiskinn góðan. Baldvin lagði alltaf áherslu á að vera með allt fyrsta flokks og meira en það.“

Enginn saltfiskur?

„Ekki núna í seinni tíð. Þetta er að breytast svo mikið.“

Nýr Baldvin Njálsson GK 400 fallegasta skipið í flotanum

Til hamingju með nýja skipið. Það er glæsilegt.

„Takk fyrir það. Já, það er glæsilegt. Það er með skipið eins og með krakkana. Manni finnst alltaf sýnir krakkar skástir, mér finnst hann líka fallegastur. Það er bara svoleiðis. Þetta er fallegasta skipið í flotanum.“

Bobba segir að undirbúningur og vinna við nýjan Baldvin Njálsson GK hafi tekið um þrjú ár. Hún hafi ákveðið strax í upphafi að fara út og taka á móti skipinu og sigla með því heim. „Þetta orðinn veruleiki að skipið er komið og það er fallegt, mjög svo fallegt. Það gekk allt vel frá fyrsta degi. Það er frábær mannskapur eins og hann Willum Andersen verkefnisstjóri sem er búinn að vera þarna alveg frá byrjun og talar þeirra tungumál. Það er ótrúlegt að það skuli standast allar dagsetningar og samt er Covid. Það er alveg ótrúlegt.“

Ég frétti að þið hefðuð lent í smá brælu á leiðinni heim frá Spáni, hvernig var það?

„Strákarnir sögðu að það væri bræla. Ég þekki það ekkert. En nei, ég veit ekkert hvað bræla er en ég gat ekki staðið ölduna. Ég fékk nú alltaf góða hjálp og ég fór með aðstoðarkonu með mér, hana Vigdísi. Hún var bæði sjómaður og hjúkrunarkona, þannig að hún var með mér og strákarnir frábærir allir sem einn og hjálpuðu mér að komast í gegnum þetta. Ég gat ekki gengið um skipið en eina ferðina sem ég fór í koju setti  ég bara rassgatið í stigann og renndi mér niður. Ég gat ekki gengið stigann, hann kom bara á móti mér,“  segir þegar hún lýsti ferðinni heim. Hún segist hafa verið komin vel á fætur þegar komið var upp að Íslandsströndum og heimahöfn nálgaðist.

Það var einn af ykkar skipverjum sem sagði mér að það væri frábært að vinna fyrir ykkur. Er þetta rétt hjá honum?

„Ég veit það ekki en ég vona það, því að margir af þessum mönnum eru búnir að vera lengi. Nema að þetta þýði að þangað sækir kötturinn sem hann er kvalinn. Spurning hvorum megin það er. Ég vona að það sé hinum megin. Það er mikið af fólki búið að vera lengi hjá okkur og mér þykir afskaplega vænt um allt þetta fólk, því ég veit það að við hefðum ekki gert þetta ein. Þetta á við alla tíð. Við segjum stundum að „hann var keyptur með“ þegar við erum að tala um þennan og hinn á bátunum. Til dæmis er mannskapur á Sóley Sigurjóns GK sem var um borð þegar skipið var keypt, meira að segja af gömlu Sóley. Skipstjórinn á Benna Sæm er búinn að vera hjá okkur frá því hann kom út úr sjómannaskólanum. Svona er þetta með fleiri menn sjá okkur sem hafa verið lengi eða komið með bátum til okkar.“

Stolt af nýja skipinu

Bobba er stolt af nýja frystitogaranum og á heimleiðinni með skipinu frá Spáni fannst henni vænt um að heyra sjómennina vera að bera saman gæðin á nýja og gamla skipinu. Það er líka mikið af tækninýjungum í nýja skipinu og hún er nýtt til hins ýtrasta. Hugað var að hagkvæmni við smíðina.

Bobba segir að það hafi verið skrítin tilfinning að sigla inn á Faxaflóann. „Þegar við vorum á heimsiglingunni fyrir utan Nesfisk, það var mjög skrítin tilfinning. Ég hefði viljað vera með stelpunum út í glugga í Nesfiski og sjá skipið sigla framhjá. Ég var eiginlega ekki réttu megin. Maður hljóp svo oft út í glugga þegar bátarnir voru að veiða skammt undan landi til að sjá hvaða bátur það væri. Mig vantaði þessa tilfinningu því ég var um borð í skipinu en ekki að horfa á það frá landi. Ég fékk sömu tilfinningu þegar við sigldum framhjá Sandgerði. Ég er vanari því að horfa til hafs en ekki úr skipi til lands. Ég var ekki á réttum stað.“

Nú þegar skipið er komið heim til Íslands hefst alvaran. Það þarf að fara að veiða upp í kostnað. Þorbjörg er spurð að því hvort hún sé búin að safna fyrir skipinu.

„Ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég er að fara. Það er annara að standa skil á þessu. Ég er búin að standa skil á mínu,“ segir Bobba og hlær.

Ætlar að fylgjast með af hliðarlínunni

Bobba er að verða 82 ára og heilsan er góð. „Þess vegna ætla ég að fylgjast með þeim af hliðarlínunni að spjara sig.“

Ferðu í Nesfisk alla daga?

„Ég fer þangað hálf átta á morgnana og fæ mér kaffi með verkstjórunum svo ég tapi ekki af neinu sem er að gerast. Það er ég búin að gera í langan tíma. Ég spyr, heyri og veit, það er bara nauðsynlegt.“

Verður breyting á því?

„Kannski ekki alveg strax. Kannski er bara hundleiðinlegt að vera heima og horfa hér út. Ég læt bara reyna á það.“

Hver er mesta byltingin á þeim árum sem þú hefur verið í þessu?

„Mesta byltingin er eftir, því það hefur enginn farið eftir því sem ég er að segja. Það er nefnilega vandamálið. Ég vil láta taka allt úr húsunum og skipuleggja allt upp á nýtt. Þar er hægt að hagræða. Við erum algjörlega stöðnuð í þessu og langt á eftir okkar samtíð. Það er búið að kaupa róbót en þessar kornungu stelpur vilja ekki nota hann og eru sjálfar að lyfta kössum langt upp fyrir sig. Það væri hægt að tæknivæða mun meira í vinnslunni en þegar hefur verið gert.

Við gætum líka bara gert út á nýja togarann og lokað frystihúsinu í landi. Þar mætti geyma hjólhýsi og breyta hluta hússins í hótel. Það eru bara lausnir, ekki vandamál. Ef ég væri þrítug á ný gæti ég alveg hugsað mér þetta.“

Gott starfsfólk skapar góðan árangur

Bobba segir árin í rekstrinum hafa bæði verið skemmtileg og leiðinleg. „Lífið er bara svoleiðis. Það er sleppur enginn við það. Stundum er gaman og stundum er leiðinlegt en þar hefur alltaf verið árangur.“

Hverju þakkar þú árangurinn?

„Það er mannskapnum að þakka. Við höfum alltaf verið með mjög góðan mannskap, mannskapur sem er búinn að vera lengi hjá fyrirtækinu.“

Þegar maður er í rekstri í svona mörg ár, verður vinnan þá að áhugamáli? Áttu þér önnur áhugamál?

„Ég hef ekki misst af neinu. Það fór reyndar í taugarnar á mér að ég komst ekki í leikhús fyrstu árin. Þú verður bara að sætta þig við það sem þú hefur. En ég sagði nú lengi vel þegar verið var að spyrja hvernig gengi að ég sagði alltaf að ég hef engar áhyggjur af því. Þetta eru allt rekið héðan,“ segir Bobba og bendir upp til skaparans.

Vendipunktur í starfseminni

Nesfiskur er í dag með þrjú- til fjögurhundruð starfsmenn í vinnslunni í landi og á skipunum sem telja um einn tug. Bobba segir að nú sé vendipunktur í starfseminni.

Málfríður dóttir hennar og Ingibergur hennar maður séu farin út úr fyrirtækinu. Hún sé sjálf að segja skilið við fyrirtækið þannig að eftir verða Bergþór sonur hennar og hans innsti kjarni og svo Bergur, sem er uppeldissonur Bobbu.

„Þeir verða að hafa þetta fyrir sig og ég ætla bara að horfa á. Ég ætla að hafa skoðun á því sem er að gerast í fyrirtækinu og hlakka til að sjá hvernig gengur með nýja skipið. Í mars ætti að vera komin reynsla á skipið. Ég ætla ekki að loka augum og eyrum,“ segir Þorbjörg Bergsdóttir, Bobba, að lokum.