„Það þurfa allir einhvern eins og Katrínu kennara í líf sitt“
Útskriftarnemendur textílbrautar FS sýna lokaverkefni sín í Landsbankanum
Útskriftarnemendur textílbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa síðustu daga sýnt lokaverkefni sín í Landsbankanum í Reykjanesbæ en lokaverkefnin eru flíkur hannaðar af þeim sjálfum. Víkurfréttir náðu tali af útskriftarnemendunum og fræddust nánar um hönnunina þeirra en hönnuðirnir eru þau Helgi Líndal, Kristín María Ingibjargardóttir og Natalía Nótt Árnadóttir. Þau tala fallega um námið og kennarann sinn, Katrínu, og stefna öll á áframhaldandi nám en þó með ólíkum hætti.
„Ég fékk að sauma jakkaföt þar sem það er mjög erfitt og krefjandi. Innblásturinn fékk ég frá jakkafötum sem Childish Gambino, eða Donald Glover, var í á Met Gala árið 2018 en litasamsetningin mín er allt öðruvísi,“ segir Helgi en jakkafötin hans voru gerð úr hans uppáhaldslitasamsetningu, rauðum og svörtum.
Hann segist sáttur með textílnámið í FS, það hafi kennt sér heilmargt og verið krefjandi. „Kata er svo góður kennari og hún hefur hjálpað okkur öllum í lokaáfanganum mikið í gegnum námið. Það mikilvægasta sem ég lærði í náminu er agi og þolinmæði. Ég hef hannað rosalega krefjandi flíkur þar sem það er ekkert hægt að flýta sér. Það var rosalega erfitt fyrst, að vinna flíkurnar hægt, en svo venst það.“
Eftir útskrift stefnir Helgi á nám erlendis. „Ég ætla núna að fara að vinna og safna mér pening þar sem mig langar að halda áfram að læra fatahönnun.“
Natalía Nótt saumaði tvo kjóla, bol og pils úr svörtum og hvítum. Hún lítur mikið til einstakra kjóla sem birtast okkur reglulega á rauða dreglinum sem fræga fólkið hefur látið sérsauma fyrir sig. „Það besta við textílhönnun er það að við fáum tækifæri til þess að hanna eftir okkar eigin ímyndunarafli. Ég horfi á litina sem ég notaðist við sem tákn. Það svarta tilheyrir Íslendingunum og hið hvíta er snjórinn sem við sjáum úti.“
Natalía stefnir svo á meistaranám í kjólasaum eftir útskrift, enda heilluð af textíl eftir námið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Enginn tími var eins og ég lærði alltaf eitthvað nýtt undir leiðsögn frábærs kennara. Allt frá því að teikna flík á blað, búa hana til, auglýsa vöruna með módelum og koma henni á markað.“
Kristín María hannaði sumarlega barnalínu í útskriftarverkefni sínu en hugmyndina fékk hún eftir fjölskyldufrí á Spáni. Þar þótti dóttur hennar þægilegast að klæðast „túnic“ og Kristín vildi hanna flíkur sem hentuðu henni. Línan inniheldur buxur, kjól og topp. „Buxurnar anda vel í hita og eru pokalegar þannig hún verður frjálsari í þeim en öðrum buxum.“
Eftir FS stefnir Kristín á kennaranám við Háskóla Íslands þar sem hún vill leggja áherslu á kennslu við textíl. „Planið var alltaf að halda áfram að læra fatahönnun en Katrín, sem kennir textíl í FS, er svo yndislegur kennari og hefur hjálpað mér mikið í skólanum og mig langar að feta í fótspor hennar sem kennari. Allir þurfa einhvern eins og Katrínu kennara í líf sitt. Ég mun samt halda áfram að hanna og sauma.“
Að læra textíl í FS segir Kristín hafa breytt lífi sínu þar sem námið hafi hjálpað henni að kljást við kvíðaröskun. „Ég komst fljótt að því að kvíðinn hjá mér hvarf um leið og ég gekk inn í textílstofuna. Það mikilvægasta sem ég lærði var að það væri allt í lagi að vera ófullkomin og rétt eins og Katrín sagði svo oft í gegnum skólagönguna þá er gaman að rekja upp.“
Það mikilvægasta sem ég lærði í náminu er agi og þolinmæði, segir Helgi sem er hér með útskriftarfötin sín sem hann hannaði og saumaði. Svo bætti hann við mögnuðum skóm sem eru ekki á þessari mynd.
Það besta við textílhönnun er það að við fáum tækifæri til þess að hanna eftir okkar eigin ímyndunarafli, segir Natalía.