„Margt gott fólk í kringum mig sem gaman er að gleðja með jólagjöf“
Atli Geir Júlíusson er sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs hjá Grindavíkurbær. Hann er giftur Gígju Eyjólfsdóttur og saman eiga þau tvö börn. Atli er Njarðvíkingur, búsettur í Grindvík, sem hefur áhuga á samverustundum með fjölskyldu og vinum, körfubolta og enska boltanum.
– Fyrsta jólaminningin?
„Man sérstaklega vel eftir aðfangadagskvöldi á mínum yngri árum þar sem við vorum heima hjá ömmu og afa í Hafnarfirði og bróðir hennar mömmu kom í heimsókn frá USA. Einhverra hluta vegna situr þessi jólaminning fast í huga mér enda virkilega skemmtileg minning.“
– Jólahefðir hjá þér?
„Það er þó nokkuð um jólahefðir hjá fjölskyldunni og má þar nefna skötuveislur á Þorláksmessu, möndlugrautur á aðfangadag, hamborgarhryggur á aðfangadagskvöld og jólaboð á jóladag.“
– Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
„Já, ég er duglegur í eldhúsinu yfir hátíðarnar enda mikil áhugamaður um að elda góðan mat – sér í lagi ef grillið er tekið fram, sem er yfirleitt á gamlársdag.“
– Uppáhaldsjólamyndin?
„National Lampoon's Christmas Vacation.“
– Uppáhaldsjólatónlistin?
„Íslensku jólalögin eru í uppáhaldi. Það er mikið hlustað á jólalög á mínu heimili og sungið með. Jólin hafa undanfarin ár litast af tónleikahaldi og viðburðum með Vox Felix þar sem við hjónin erum bæði meðlimir. Við söknum þess mikið að geta ekki æft og sungið jólalög með kórnum.“
– Hvar verslaðir þú jólagjafirnar?
„Þessi jólin voru nánast allar jólagjafir keyptar á netinu og sendar heim.“
– Gefurðu margar jólagjafir?
„Já, við gefum margar jólagjafir, enda margt gott fólk í kringum mig sem gaman er að gleðja með jólagjöf.“
– Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Jólin eru í nokkuð föstum skorðum en það má kannski segja að hefðir sem voru áður séu að einhverju leyti að detta út, má þar nefna útburð jólakorta, fjölmenn jólaboð o.s.frv. Möndlugrautur hjá tengdaforeldrum mínum í hádeginu á aðfangadag er fastur punktur í jólahaldinu, ekki verra að ég fæ yfirleitt möndluna. Þá er haldið til fjölskyldunnar í Njarðvík í hangikjöt á jóladag.“
– Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Úff, þegar stórt er spurt. Það sem ég man best eftir er Stiga-sleði sem ég fékk frá mömmu og pabba þegar ég var polli. Fjölmargar ferðir í Grænásbrekku á þeim ágæta sleða.“
– Hvað langar þig í jólagjöf?
„Ekkert sérstakt á jólagjafalistanum hjá mér. Besta jólagjöfin er einfaldlega að eyða góðum og verðmætum tíma með mínum nánustu.“
– Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Blómkálssúpa, hamborgarhryggur og einhver stórkostlegur eftirréttur sem á eftir að ákveða.“
– Eftirminnilegustu jólin?
„Fyrstu jólin þar sem við vorum ein saman fjölskyldan og strákurinn okkar á þriðja aldursári. Vorum með steinasteik sem er svo sem ekki frásögu færandi nema hvað drengurinn fékkst ekki frá matarborðinu þar sem kjötið var svo gott, þetta er líka í fyrsta og eina skiptið sem Bearnaise-sósan hefur klikkað hjá okkur.“