„Lífið er of dýrmætt ferðalag til að standa í skugga þennan dag“
gæti verið lífsmottó Más Gunnarssonar.
Það hlýtur að vera sérstakt að sjá ekki umhverfi sitt og þurfa að kortleggja það með huganum. Svo ef eitthvað óvænt kemur í umhverfið, sem þú átt ekki von á, getur það verið afdrifaríkt fyrir þig og jafnvel valdið slysi.
Hljóðlausir rafbílar eru til dæmis ný ógn fyrir blinda sem treysta á heyrn sína þegar farið er yfir götu. Það er hollt að setja sig í spor þeirra sem sjá ekki eins og við hin.
Már Gunnarsson, tónlistarmaður og sundkappi, er blindur í dag en hann fæddist með sjúkdóm í augnbotnum sem gerði það að verkum að sjónin minnkaði með árunum.
Maður finnur fljótt að Már er einstaklega jákvæður og lætur ekkert stoppa sig, að tala um fötlun í tilfelli hans er því algjör óþarfi. Marta Eiríksdóttir, blaðamaður á Víkurfréttum ræddi við Má Gunnarsson, Mann ársins á Suðurnesjum 2019. Sjónvarpsviðtal við Má sem Páll Ketilsson og Hilmar Bragi tóku fylgir einnig með. Það dugði ekki annað en tvö viðtöl við Suðurnesjamann ársins 2019.
Gömul sál með fallegt hjarta
„Ég er dálítið í mörgu en læt aldrei draga úr mér. Stundum held ég að fólk hugsi að ég sé að taka of stóra bita þegar ég tilkynni markmið mín en mér finnst það ekki sjálfum. Allir í kringum mig styðja það sem ég er að gera. Mér finnst gaman að spila tónlist og mér finnst gaman að synda á góðum tíma og mér finnst gaman að ferðast til útlanda. Mér finnst gaman að hlusta á hljóðbækur á ensku, þýsku og íslensku. Allt sem er skemmtilegt finnst mér gaman að gera. Að vera lifandi og ferskur í öllu sem ég geri er mottó mitt,“ segir Már stutt og laggott og þar höfum við þá lífsreglu á tæru frá þessum unga manni sem er aðeins tvítugur en gæti verið mun eldri miðað við hvernig hann talar.
Metnaðarfullur og hugrakkur
„Allt sem ég geri, vil ég gera vel og hef alltaf lagt mig fram en það verður að vera gaman, ég vil uppskera. Ef eitthvað er leiðinlegt þá sleppi ég því, það er bara svoleiðis. Ég æfi tvisvar á dag, alla daga vikunnar nema á sunnudögum en þá tek ég mér frí. Á morgnana tek ég allskonar styrktaræfingar og svo syndi ég iðulega tvisvar á dag. Ég stefni að því að komast á Ólympíuleika fatlaðra í Tókýó árið 2020 en þar stefni ég á gullið. Það er mjög erfitt að komast inn, alls konar síur en ég er samt líklegur kandídat að komast á pall í Tokyo.“
Már er ekki aðeins metnaðarfullur á íþróttasviðinu heldur hefur hann einnig metnað fyrir tónlistarsköpun sinni.
„Ég hef alltaf haft gaman af því að syngja en þegar ég var sjö ára þá lærði ég fyrst á píanó hjá rússneskum píanómeistara í Luxemburg, þar sem við bjuggum. Mamma og pabbi komu með þessa hugmynd um að læra á píanó. Svo þróaðist það í að ég fór að semja mína eigin tónlist. Í dag er ég bæði tónleikahaldari og lagaútgefandi. Söngur fuglsins er geisladiskur sem ég gaf út og hefur selst vel, einhver þessara laga eru á Spotify en annars sel ég geisladiskinn á gamla mátann og hægt er að nálgast þá hjá mér. Ég hef gaman af því að búa til stóra viðburði og 13. mars næstkomandi ætla ég að halda tónleika í Hljómahöll. Þá koma fram, ásamt mér og fleirum, níu bestu hljóðfæraleikarar Póllands. Við verðum svona þrettán til fjórtán manns á sviðinu. Þarna verður tónlist mín flutt með öllu þessu flotta tónlistarfólki, ég hlakka mikið til,“ segir Már sem vílar ekki fyrir sér að framkvæma hluti sem aðrir veigra sér við. Már er ekki bara hæfileikaríkur heldur er hann einnig ótrúlega hugrakkur.
Alinn upp í jákvæðu umhverfi
„Til þess að afreka og ná árangri þá er ég viss um að jákvæðni sé rauði þráðurinn. Ég er svo heppinn að hafa alltaf verið alinn upp í jákvæðu umhverfi og hugsa: „Ég get, ég skal, ég ætla.“ Til þess að ná að halda svona stóra og mikla tónleika og stefna á Ólympíuleikana í Tokyo 2020 þá verð ég að vera jákvæður og hafa trú á sjálfum mér. Hugurinn þarf að vera jákvæður. Ég sá miklu betur þegar ég var yngri og það hefur hjálpað mér í dag að ég hafði sjón í upphafi. Sjóninni hrakaði þegar augnbotnasjúkdómurinn versnaði. En það gerist oft að fólk í kringum mig gleymir því hvað ég sé illa og það er alveg stundum fyndið,“ segir Már og skælbrosir en svo fer hann yfir í aðra alvarlegri umræðu sem honum finnst ekkert sérstaklega fyndin.
Gangstéttir og hljóðlausir rafbílar
„Almennt er ég rosagóður í umferli, að koma mér á milli staða án þess að slasa mig. Spurningin er hvað þú þjálfar upp þegar þú sérð illa eða ert blindur. Ég kortlegg umhverfið og þá getur verið erfitt þegar eitthvað nýtt kemur allt í einu upp þar sem ég var vanur að ganga áður. Eins og til dæmis á Hafnargötunni við Skóbúðina en þar fyrir utan var allt í einu búið að setja upp stillansa og einhver þykk spýta var þar í mittishæð. Hvíti stafurinn sem ég geng alltaf með nær ekki að aðvara mig ef hindrunin liggur ekki á jörðunni fyrir framan mig. Rétt áður en ég skall á þessari þykku spýtu heyrði ég að þarna var hindrun, þegar ég rúllaði hvíta stafnum á jörðunni en það geri ég, því hann sendir mér ákveðinn titringshljóð. Það er einnig vont fyrir okkur sem erum að kortleggja svæðið, þegar fólk er að leggja bílnum sínum á gangstéttina. Við erum ekki vön því að þurfa að taka sveig út á götu en það þurfum við að gera ef bíl er lagt á gangstéttina. Stærsta vandamálið verður þó þegar rafbílar eru orðnir algengari því þeir gefa ekki hljóð frá sér eins og venjulegir bílar gera. Bílhljóðin nýtast okkur sem erum blind og höfum heyrn. Vindur eða rok getur þó truflað þetta, hljóðin frá bílunum. Rafbílar verða því stórhættulegir fyrir okkur ef þeir setja ekki eitthvað aukahljóð í þessa bíla fyrir blinda vegfarendur, eins nytsamlegir og þeir eru,“ segir Már í alvarlegum tón.
Gott fólk í Keflavík
Már hefur búið víða, bæði hér á landi og erlendis. Foreldrar hans eru Lína Rut Wilberg og Gunnar Már Másson. Már hefur undanfarin ár búið í gamla bænum í Keflavík.
„Mér finnst flott að búa í Keflavík, þetta er sá staður sem ég vil búa á hér á Íslandi. Akureyri og Mosfellsbær koma einnig til greina en ég er mikill sveitakall. Það eru engin geimvísindi að það er betra að eiga heima þar sem umferðin er minni. Mér finnst stemningin góð í Keflavík. Samheldni bæjarbúa er mikil og hér er gott samfélag. Mér var mjög vel tekið þegar ég flutti hingað tólf ára gamall,“ segir Már.
Mjúkt að ganga í snjó
„Ég dýrka jólin og jólagiggin eru með þeim skemmtilegri. Þessi árstími og snjór. Mér finnst kósý að fá snjó en snjórinn gefur þessa skemmtilegu tilfinningu þegar maður gengur úti, allt verður svo mjúkt undir fæti. Það er samt ekkert gott þegar það er klaki úti og hált. Snjókoma, snjór sem fellur til jarðar, það er svona með því skemmtilegra. Það hljóta allir að setja andlitið upp í snjókomuna og leyfa henni að snerta andlitið á sér,“ segir Már í einlægni.
Íþróttamaður ársins sem sigraði jólalagakeppni
Tónlistin skiptir miklu máli í lífi Más. Nýverið unnu hann og Ísold, systir hans, jólalagakeppni Rásar tvö og stórtónleikar verða í vor á vegum hans.
„Ég er næstyngstur systkina minna, Ísold er eldri en við syngjum oft saman. Við náum mjög vel saman í tónlistinni og gengur vel að spila saman. Við erum að hafa gaman en söngferill okkar er samtvinnaður. Það var því ótrúlega gaman þegar við unnum jólalagakeppnina hjá Rás tvö fyrir þessi jól, alveg frábært. Við Ísold gáfum út Jólaóskina, sem fór inn í keppnina og svo gaf ég sjálfur út Christmas Comes with You. Lögin eru bæði komin á Spotify. Jólaósk hefur verið vinsælasta lagið á Rás tvö. Það er ákveðinn áhugi fyrir enska jólalaginu í Póllandi en það var frumflutt þar af mér fyrir um mánuði. Samstarf mitt við tónlistarfólk í Póllandi hófst fyrir tveimur árum þegar ég tók þátt í Lions World Song Festival for the Blind. Þá kynntist ég hinum þekkta Hadriani þar í landi og einnig kynntist ég Natalie en þau eru hvorug blind. Ég hef fengið að gera magnaða hluti í Póllandi en þar er ótrúlega fært tónlistarfólk. Pólverjar eru svo kröfuharðir og æfa mikið því samkeppnin er svo mikil hjá þeim. Í vor þegar ég verð með tónleikana í Hljómahöll þá koma og spila með mér tónlistarmenn í háum gæðaflokki frá Póllandi.“
Viðburðaríkur dagur hjá Má
„Það var náttúrlega frábært að vinna jólalagakeppnina ásamt systur minni, þarna voru fjörutíu önnur jólalög og það að vera valinn er auðvitað bara heiður sem ég er mjög stoltur af. Það að vera valinn íþróttamaður ársins í röðum fatlaðra hjá Íþróttasambandi fatlaðra er sömuleiðis afskaplega mikill heiður því íþróttahreyfing okkar er mjög öflug. Að fá þessar tilnefningar, segir mér að það sem við systkinin erum að gera saman í tónlist er afskaplega gott og að fá tilnefningu sem íþróttamaður ársins er það einnig, það er bara að halda þessu áfram. Dagurinn var svolítið krefjandi því ég átti að mæta á báðum stöðum klukkan þrjú sama dag en ég tók fyrst á móti tilnefningu íþróttamanns og RUV var á staðnum svo ég stökk úr miðri ræðu að tala við þá og þetta kom bara skemmtilega út,“ segir Már léttur og glaður með þessar viðurkenningar sem skipta hann miklu máli.
Fær að æfa með landsliði Búlgaríu í sundi
Næstu vikurnar eru vel skipulagðar hjá Má en framundan eru sundæfingabúðir og ferðalög.
„Það er gott að búa nálægt Leifsstöð en í janúar er ég að fara til Lux að æfa sund og hitta gamla vini. Svo fer ég til Búlgaríu og fæ að æfa með búlgarska landsliði ófatlaðra í sundi en ég hef æft með þeim tvisvar áður. Það er mjög merkilegt að þeir taki við mér en þeim líkar jákvætt viðhorf mitt og vilja styðja mig. Eftir Búlgaríu fer ég að keppa í Noregi og verð burtu allan janúar 2020. Pabbi kemur með mér og það er algjörlega frábært. Það er bara svoleiðis,“ segir Már sem hlakkar greinilega til nýs árs en þetta er ekki allt því Már sem kemur fram í félögum og hjá klúbbum með söngatriði á sér nýjan draum; hann langar til að hafa áhrif á fólk með fyrirlestrum um jákvæðni og hvatningu. Hann segist vel geta hugsað sér að halda fyrirlestur fyrir námsmenn á öllum skólastigum um þessi mál, hvetja krakka til að nýta tíma sinn vel í náminu og eyða honum ekki í vitleysu. Þetta eru dýrmæt ár.
Langar að hvetja fólk til dáða
„Ég kem oft fram og spila tónlist mína hjá félögum og klúbbum og hef meira að segja spilað fyrir forseta Íslands. Það er mjög skemmtilegt en ég hef einnig verið að halda fyrirlestra um markmiðasetningu og jákvætt viðhorf, um hvernig á að ná árangri. Mér þætti mjög gaman að koma með fyrirlestur fyrir nemendur á öllum aldri í skólum, tala um hvað það skiptir miklu máli að nýta tíma sinn vel, stefna að einhverju í framtíðinni. Við höfum öll hæfileika en þurfum að virkja metnaðinn í okkur til að ná árangri,“ segir þessi líflegi og efnilegi ungi maður, Már Gunnarsson, Maður ársins á Suðurnesjum 2019.
„Við erum teymi“
– Gunnar Már, faðir Más, er hægri hönd sonarins
„Þetta hefur gengið mjög vel og við erum bara teymi. Már hefur alla tíð sett sér háleit markmið og náð þeim flestum með miklum metnaði og ástundun en auðvitað líka með aðstoð margra aðila,“ segir Gunnar Már Másson, faðir Más, en hann er svo sannarlega hægri hönd sonarins. Gunnar er eiginlega framkvæmdastjórinn í þessu liði Más sem nýtur einnig liðsinnis margra þjálfara, m.a. Steindórs Gunnarssonar, sundþjálfara, sem segir að það hafi verið og sé lærdómsríkt að þjálfa blindan sundmann. „Már er mjög hæfileikaríkur og duglegur og svo er hann með gott keppnisskap. Andlegi þátturinn í íþróttum er mikilvægur og hann er mjög góður hjá Má. En það er auðvitað flóknara að þjálfa blindan sundmann og áskoranir hér og þar.“
„Við erum bara teymi og vinnum þannig. Við feðgar erum mjög þakklátir fyrir alla þá aðstoð sem Már hefur fengið hér í Reykjanesbæ. Aðstaðan er frábær í sundmiðstöðinni og í Sporthúsinu en á þessum stöðum æfir Már. Við stefnum auðvitað hátt og leggjum hart að okkur til að ná markmiðunum, sem eru háleit,“ segir Gunnar Már sem tekur virkan þátt í æfingum sonarins og öllu lífi hans. Gunnar gengur sömu vegalengd og Már syndir því hann er á báðum sundlaugarbökkunum með sérstaka stöng með bolta á endanum sem hann notar til að láta sundkappann vita þegar hann nálgast sundlaugarbakkann. Boltinn fer í koll Más rétt áður en hann á að snúa.
Gunnar Már verður með syni sínum í byrjun árs við æfingar og keppni í útlöndum en þeir feðgar fóru utan á nýársdag. Gunnar Már kemur einnig mikið að ýmsu í tónlistinni hjá syninum. Samstarf þeirra er náið og skemmtilegt.