Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Himinn og haf á milli strangra reglna hér og þeirra aðgerða sem maður fylgist með heima á Íslandi“
Ingvar Gissurarson hefur, ásamt eiginkonu sinni, Margréti Hallgrímsdóttur, verið búsettur um tíma í strandbænum Jávea á Costa Blanca á Spáni.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 18. apríl 2020 kl. 13:37

„Himinn og haf á milli strangra reglna hér og þeirra aðgerða sem maður fylgist með heima á Íslandi“

Ingvar Gissurarson hefur, ásamt eiginkonu sinni, Margréti Hallgrímsdóttur, verið búsettur um tíma í strandbænum Jávea á Costa Blanca á Spáni en það er um 27000 manna bær u.þ.b. 35 km norðaustur af Benidorm.

HÉR MÁ SJÁ VIÐTALIÐ Í VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR.

„Eftir langvarandi húsnæðisóöryggi, ótíð og dýrtíð á Íslandi þá var niðurstaðan að reyna að gera það besta úr stöðunni, láta gamlan draum rætast og prófa að búa erlendis. Hér njótum við góðs veðurfars, dásamlegs umhverfis og viðráðanlegs verðlags sem hjálpar til við að viðhalda líkama og sál,“ segir Ingvar um ástæður þess að hann settist að á Spáni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hvernig ert þú að upplifa ástandið í kringum COVID-19?

Þetta er svolítið súrrealískt ástand. Skrítið en lærdómsríkt að búa við útgöngubann sem er líklega það strangasta í Evrópu um þessar mundir. Vissulega íþyngjandi, sérstaklega fyrir Íslending sem hefur búið við óskert ferðafrelsi alla tíð, en maður var fljótur að aðlagast og tekur þessu með jafnaðargeði. Eins er athyglisvert að upplifa samstöðu bæjarbúa en rúmlega helmingur þeirra er af erlendu bergi brotinn og frá rúmlega 80 löndum. Hér ríkir almenn jákvæðni og staðfesta við að fylgja reglum og klára þetta með sóma. Flestir fara út á svalir klukkan átta á kvöldin, klappa og hafa hátt. Þakka þannig þeim sem standa í framlínunni og peppa hvert annað upp. Einnig fara hér stöku sinnum á sama tíma um í hópum neyðarökutæki með ljósum og sírenum sem allt er til að byggja upp baráttuþrek og undirstrika að við erum öll í þessu saman.

– Hefurðu áhyggjur?

Er vissulega vel meðvitaður um mögulega hættu af COVID-19 en reyni að taka jákvæðnina og bjartsýnina á þetta og leyfi mér ekki að hafa miklar áhyggjur af faraldrinum sem slíkum hvað mig og mína varðar, enda tel ég okkur öll í nokkuð öruggu skjóli og hef trú á að þetta gangi fljótlega yfir en afleiðingarnar í framhaldinu eru sannarlega áhyggjuefni.

Hér í Valencia-héraði hefur okkar svæði sloppið einna best frá faraldrinum með tiltölulega fá greind smit og spítalinn hér hefur ekki verið undir miklu álagi í samanburði við önnur svæði.

En ástandið er vissulega áhyggjuefni fyrir marga sem sitja eftir tekjulitlir og jafnvel tekjulausir og ekki útséð um hvernig fjölda fyrirtækja og einstaklinga reiðir af í framhaldinu.

– Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf? Hvernig eru dagarnir hjá þér núna? Hefur þú gert miklar breytingar í daglegu lífi?

Dagarnir eru vissulega einhæfir og það að fara út með ruslið er orðið tilhlökkunarefni. Maður fer ekki út úr húsi nema hafa lögmæta ástæðu til og getur átt von á að vera stöðvaður af lögreglu hvenær sem er og þurfa að gera grein fyrir ferðum sínum.

Verslunarferð þýðir undantekningarlítið að maður ekur fram á vegatálma lögreglu og þarf þar að gera grein fyrir sínum ferðum og sýna fram á búsetu nálægt versluninni en einungis má fara í næsta stórmarkað til að versla helstu nauðsynjar.

Sem betur fer erum við með hund og að fara með hann út í stuttar gönguferðir til að sinna nauðsynlegum þörfum er ein af fáum undantekningum frá útgöngubanninu þannig að við hjónin skiptumst á að kíkja aðeins út fyrir girðinguna.

– Hefur þú þurft að gera miklar breytingar varðandi vinnu eða daglegt líf?

Hef ekki getað stundað fasta vinnu vegna heilsufarsaðstæðna um árabil þannig að þar er engin breyting á, en vissulega hefur þetta áhrif, og það sem ég finn helst fyrir er að geta ekki farið í lengri göngur og nauðsynlega hreyfingu sem hefur verið lykilatriði til að halda biluðu baki í sæmilegu ástandi. Annars hefur þetta aðallega áhrif á félagslega þáttinn. Maður sinnir ekki áhugamálum utan heimilis, hittir ekki vini og kunningja, fer út að borða eða á kaffihús sem reyndar eru smámunir og létt í vasa í samanburði við þau áhrif sem þetta hefur og mun hafa á líf og framtíð margra annara.

– Hvenær fórstu að taka COVID-19 alvarlega? Hvað varð til þess?

Held að maður hafi farið að gera sér grein fyrir því fyrripartinn í mars að „flensan“ eins og maður kallaði þetta væri líklega eitthvað alvarlegri en maður gerði sér grein fyrir fram að því. Svo þróuðust málin hratt hér um miðjan mars og fyrr en varði var skollið á útgöngubann og ekkert annað í stöðunni en að taka þetta alvarlega.

– Hvernig ert þú að fara varlega í þessu ástandi?

Reyni að fara eftir reglum og leiðbeiningum eins og kostur er og þá fyrst og fremst með tilliti til annara í kringum mig. En vissulega er maður meðvitaður um mögulegan ósýnilegan óvin í umhverfinu og hagar sér samkvæmt því.

– Hvernig finnst þér yfirvöld á þínum stað vera að standa sig?

Yfirvöld hér á Spáni taka þetta mjög alvarlega og útgöngubanninu fylgt hart eftir frá fyrsta degi. Að auki var öllum leiðum í flesta bæi hér við ströndina lokað fyrir páskana til að koma í veg fyrir ferðalög en mikið af húseignum hér eru frístundaeignir, margar hverjar í eigu Madrídarbúa, þar sem faraldurinn hefur verið hvað skæðastur og margir þeirra freistað þess að komast hingað yfir páskana. Þeim sem reyndu að komast voru miskunarlaust sektaðir og sendir til baka og að auki vaktar lögregla matvöruverslanir og þar má fólk eiga von á að þurfa að sýna fram á búsetu í bænum en sæta sektum ella.

Þessar aðgerðir eru augljóslega að virka en hér eru tölur hratt að breytast í samræmi við það og flest ný smit sögð vera innan heimilis eða hjá heilbrigðisstarfsfólki þannig að við förum vonandi að sjá fyrir endann á þessu hér.

– Hefur þú fylgst með aðgerðum heima á Íslandi og borið þær saman við það sem er verið að gera á þínu svæði?

Það er himinn og haf á milli strangra reglna hér og þeirra aðgerða sem maður fylgist með heima á Íslandi og ég er efins um að væri mögulegt að framfylgja eins stífum reglum þar eins og við búum við hér. Hvort er að virka betur ætla ég ekki að dæma um og kannski fullsnemmt að gera sér grein fyrir því.

– Hvað finnst þér mikilvægast á þessum tímum?

Í mínum huga er mikilvægast að fylgja þeim reglum sem maður býr við á hverjum stað, passa upp á þá sem eru í áhættuhóp og síðast en ekki síst að huga að andlegri heilsu sinni og annarra. Svona aðgerðir eru vissulega íþyngjandi og ástandið streituvaldandi og alls ekkert allir sem höndla aðstæður vel. Og höfum í huga að þetta ástand líður hjá fljótlega og flest komumst við sem betur fer aftur út í sumarið áður en langt um líður, reynslunni ríkari og kannski meðvitaðri um hversu frelsið og heilsan eru mikilvæg.

– Hefur eitthvað komið til tals að yfirgefa svæðið og koma heim til Íslands?

Nei, það kom aldrei til tals.

– Ertu í miklum samskiptum við þitt fólk og vini heima á Íslandi núna? Meira en vanalega?

Það hefur lítið breyst nema að ekki verður af fyrirhuguðum heimsóknum til okkar í sumar en að öðru leyti þá er auðvelt að halda uppi samskiptum á tækniöld. Allir eru með netið og millilandasímtöl kosta ekki meira en milli húsa.

– Hvernig hagar þú innkaupum í dag?

Innkaup eru lítið breytt nema hvað það má bara einn fara í bíl og í búðina en áður sinntum við hjónin yfirleitt innkaupum saman. Auk þess reynum við að versla bara einu sinni í viku í stað þess að vera stöðugt að skjótast í búðina eftir smáatriðum eins og maður gerði áður enda alls ekki vel liðið ef maður er að skreppa einungis eftir rauðvínsflösku og kexpakka þessa dagana.

Netinnkaup hef ég ekki notað en flestar verslanir hér hafa, vegna álags, takmarkað þá þjónustu við þá sem eru í áhættuhópum, aldraða og/eða eiga illa heimangengt.

– Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?

Eins og er þá er núverandi neyðarástand sett til 26. apríl en þá eru komnar sex vikur frá því það var fyrst sett á. Samkvæmt fréttum þá er viðbúið að óskað verði eftir framlengingu á því fram til 10. maí en mögulega þá með einhverjum tilslökunum sem þá eru fyrsta skrefið til að færa landið til baka í eðlilegt horf en það verður væntanlega gert í nokkrum skrefum.

Hef nú trú á að maður verði orðinn sæmilega frjáls ferða sinna hér um svæðið undir lok næsta mánaðar og milli landa þegar líður nær haustinu.

– Hvernig eru aðrir fjölskyldumeðlimir að upplifa ástandið? Er ótti?

Sýnist flestir taka þessu með jafnaðargeði en auðvitað hafa íþyngjandi aðgerðir eins og þessar alltaf áhrif á fólk en ótta hef ég ekki skynjað.

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR