„Hér gekk allt sinn vanagang og svo á einni nóttu varð þetta draugabær“
– Elva Sif Grétarsdóttir býr með fjölskyldu sinni hálft árið á Malaga á Spáni.
Elva Sif Grétarsdóttir býr með fjölskyldu sinni á Malaga á Spáni og á Íslandi þar sem þau reyna að skipta sér jafnt á milli landa. Elva Sif er gift spænskum listamanni sem heitir Victor og þau eiga þrjár stelpur, Klöru Sif sem er þrettán ára, Grétu Líf tíu ára og Bríeti Erlu sem er þriggja ára.
Hér má lesa umfjöllunina í síðasta tölublaði Víkurfrétta - smellið hér!
„Sú stutta heldur uppi lífi og fjöri alla daga,“ segir Elva Sif í samtali við Víkurfréttir.
Fjölskyldan býr á Benalmadena á Costa del Sol, sem er um tuttugu mínútur frá flugvellinum á Malaga. Fallegur og rólegur bær miðað við Spán.
„Maðurinn minn rekur fyrirtæki með systkinum sínum en þau eru með leiguhúsnæði til leigu hér. Ég vinn heima við þýðingar og þegar ég er á Íslandi reyni ég að vera í forfallakennslu í Heiðarskóla. Ég er með B.ED próf frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og finnst gaman að hoppa inn í skólann.“
Snilldarhugmynd mömmu
– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?
„Ég reyndi að komast inn í leiklistaskóla á Íslandi og erlendis sem gekk ekki og þá fékk mamma mín þessa líka snilldarhugmynd að ég ætti nú bara að fara til Malaga í þriggja mánaða spænskunám, taka mér smá pásu. Sú pása varð ansi löng.“
– Var erfið ákvörðun að söðla um og flytja í annað land?
„Ég ákvað eiginlega aldrei að vera á Spáni, þetta bara gerðist. Eins og ég segi þá var ég alltaf að fara í stuttan tíma í senn sem varð alltaf lengri og lengri. Svo bara allt í einu er komið 2020 og ég gift, þriggja barna móðir á Spáni. En síðustu þrettán ár höfum við stelpurnar alla vega verið mjög mikið á Íslandi og núna til seinni ára er maðurinn minn yfirleitt með okkur þar sem hann er með aðstöðu hjá Íslensk Grafík í Reykjavík og hefur haldið ýmis námskeið í grafískri list og þrykkingu.
– Saknarðu einhvers frá Íslandi?
„Já, ég sakna alltaf Íslands þegar ég er ekki þar. Öll mín fjölskylda á heima á Íslandi og öryggið sem maður finnur á Íslandi er mjög sjaldgæft, held ég. Sérstaklega þegar maður er búin að eignast börn þá sér maður hvað það er gott að vera á Íslandi, öryggi og utanumhald er mjög gott. Til dæmis þegar við erum að fara til Íslands þá erum við að „FARA HEIM“ en þegar við förum aftur til Spánar þá erum við að „FARA TIL SPÁNAR“. Dætur mínar una sér mjög vel á Íslandi, eiga frábærar vinkonur og elska íslenskt sumar og íslensk jól. Þetta frelsi sem börn hafa til dæmis á sumrin á Íslandi er ekki til staðar á Spáni. Hér fara þær ekki einu sinni einar labbandi í skólann eða til vinkonu. Á Íslandi eru þær úti allan daginn á hjóli eða hjá vinkonum.“
– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?
„Fyrst fór margt alveg svakalega í taugarnar á mér á Spáni. Þetta er mikil karlrembuþjóð þó svo það hafi breyst alveg svakalega síðan ég kom hingað fyrst. Mér fannst til dæmis alltaf mjög óþægilegt að labba fram hjá byggingarlóðum, þá var allt leyfilegt og alltaf kallað á eftir manni einhverskonar „hrósyrði“ sem voru kannski ekki alltaf við hæfi. Þetta hefur breyst mjög mikið og eiginlega bara hætt.
Fleira sem mér finnst furðulegt hér er að það er ekki móðgun að einhver segi þér að þú hafir fitnað, það er bara eðlilegur hlutur. Í dag er ég nú samt orðin ansi sjóuð í þessari menningu en ég viðurkenni það alveg að ég er mikill Íslendingur og þarf oft að bíta í tunguna á mér þegar kemur að menntun, uppeldi og öðru. Annars reynir maður bara að halda sig á mottunni, maður breytir svo sem engu með því að vera að ergja sig.“
Þriggja mánaða námskeið orðið að 22 árum
Elva Sif fór fyrst út í þetta þriggja mánaða spænskunámskeið í september 1998 og hefur svo komið heim á milli. Síðustu þrettán ár hefur fjölskyldan verið helming árs á Spáni og helming árs á Íslandi, nokkurn veginn. „En jú, þetta er orðinn ansi langur tími, 22 ár.“
– Hefurðu alltaf búið á sömu slóðum?
„Ég bjó fyrst í Malaga-borg, svo flutti ég til Benalmadena og fór að vinna á fasteignaskrifstofu og hef verið hér síðan, kynntist manninum mínum hér og eignaðist frábæra vini. Enda er þessi bær mjög ljúfur og góður. Gott að vera hérna.“
– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?
„Veðrið er nú yfirleitt gott hérna og maður setur nú lítið út á það, þótt svo ég sé ábyggilega eina mamman í skólanum sem elskar rigninguna. Spánverjinn virkar ekki vel í rigningu. Ég, Íslendingurinn, hef stundum ekki skilið það. Þegar ég kom hingað út þá var hætt við heilu afmælin og kvöldverðina ef það fór að rigna. Annar kostur við að vera hérna er kostnaður við að lifa, ég sé svakalegan mun á matarkörfunni á Íslandi og á Spáni.
– Hvernig er að vera með fjölskyldu og börn þarna?
„Það er fínt en allt er einhvern veginn á meiri hraða hérna. Kannski lærum við það í þessu útgöngubanni að það þarf ekki að fara alltaf svona hratt. Stelpurnar eru í skólanum til 17:00 og þá er dans, leiklist, tennis og svo heim að læra ... þannig að það er ekki mikið eftir af deginum. En jú, það er gott að vera hérna með börn myndi ég segja.“
– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?
„Ég vakna um átta og rek alla á fætur, eiginmanninn líka. Hann fer með skrudduna á leikskólann og ég fer með stóru stelpurnar í skólann, við búum á móti skólanum en þær labba samt ekki einar, annar kostur við Ísland. Síðan fer ég yfirleitt í ræktina og svo heim að elda mat því þær koma heim að borða klukkan 13:30 og fara aftur í skólann 15:30.
Suma daga þarf ég að útréttast fyrir leiguhúsnæðin eða þýða, reyni að skipta þessu svolítið á dagana. Einn dagur í útréttingar og annar í húsið, það tekur allt hérna mikinn tíma. Klukkan 15:30 fara þær aftur í skólann og þá er leikið við litlu snúlluna og svo klukkan 17:15 byrjar skutlið. Tennis, dans, handbolti, leiklist ... um 20:00 fáum við okkur smá kvöldverð og svo er bara róleg stund þangað til farið er í háttinn. Helgarnar eru svo nýttar í að vera meira úti, ströndinni, sundlauginni, kaupa ís og fara í göngutúr og fleira þess háttar.“
Bíð eftir að flugvöllurinn opni
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
„Já ég geri það, ég er að bíða eftir að flugvöllurinn opni svo ég geti komið okkur öllum til Íslands. Það er það sem er efst í huga núna, að komast heim. En jú, ég lít björtum augum á þetta, held að við lærum mikið af þessum tíma en að sjálfsögðu verður þetta mjög erfitt. Margir vinir okkar misstu vinnu eða fyrirtæki sín á einni nóttu á meðan aðrir vinir eru að vinna á spítala og sjá ekki börnin sín og ættingja vegna smithættu en ég held að eftir einhvern tíma sjáum við einhvern lærdóm í þessu öllu saman. Ég held að heimurinn hafi verið á ofursnúningi.“
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
„Ástandið hafði áhrif á ræktina þar sem það er allt lokað en ég er mikil áhugamanneskja um kvikmyndir og sjónvarpsseríur og það hefur komið sér vel í ástandinu þótt ég hafi nú lítinn tíma þar sem það er heimaskóli hjá skvísunum og mikið að gera í honum.“
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
„Mér finnst alltaf gott að koma heim og vera bara í rólegheitum heima hjá mér, mér finnst mjög gott að fara í bústað og í kaffi til mömmu en ég held ég geti ekki nefnt einn uppáhaldsstað á Íslandi en mér finnst alltaf gaman að koma á Akureyri.“
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
„Koma heim eins fljótt og ég get og njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum. Vonandi kemst ég líka í Metabolic, ómissandi þegar maður er heima.“
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
„Mamma og pabbi voru að koma í þrettán daga ferð um páskana sem ekkert varð af. Allar skvísurnar mínar og eiginmaður áttu afmæli í útgöngubanni þannig að þrjú barnaafmæli duttu út af dagatalinu. Við vorum meira að segja búin að gera kökuna fyrir elstu stelpuna þar sem hún ætlaði að halda upp á það daginn eftir að útgöngubann gekk í gildi. Þannig að við bara borðuðum kökuna hérna heima. En það var mikill söknuður að fá ekki mömmu og pabba/ömmu og afa.“
Sumir orðnir gjaldþrota á einni nóttu
– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?
„Þetta er allt mjög skrítið. Hér gekk allt sinn vanagang og svo á einni nóttu varð þetta draugabær. Ef maður fer út í búð þá eru allir með grímur og hanska, lögreglan stoppar þig ef þú ferð í búð of langt frá heimili þínu og hún er sjáanleg alls staðar. Mjög furðulegt að lifa í svona veruleika sem maður hefur bara séð í bíómyndum eiginlega og datt aldrei í hug að upplifa sjálfur.
Ég á marga vini sem eiga veitingastaði, hótel og verslanir og sumir orðnir gjaldþrota á einni nóttu, fólk á ekki fyrir mat og þarf að biðja um aðstoð. Börn eru að upplifa veruleika þar sem foreldrar vita ekki hvernig það á að borga reikningana í næsta mánuði. Fólk sem hefur bara alltaf lifað ágætu lífi en þegar allt stoppar svona allt í einu þá er þetta mikið sjokk fyrir alla. Vinir sem vinna á spítölum hafa búið á hótelum síðan í byrjun mars svo það þurfi ekki að fara heim vegna smithættu. Flest öll fyrirtæki hafa lýst sig gjaldþrota og atvinnuleysi hræðilega hátt.
Það þarf að þrífa allt sem maður kaupir í búðinni þegar maður kemur heim og helst fara í sturtu. Skó þarf að sótthreinsa þegar maður kemur inn og föt í þvottvél. Manni finnst þetta vera mjög ýkt en þetta er okkur ráðlagt hérna af landlækni og ríkisstjórn. Núna, sunnudaginn 26. apríl, má fara út með börn í eina klukkustund á dag. Það má bara fara einn kílómetra frá heimilinu sínu og það má ekki nálgast vini eða fara á leikvelli. Okkur er ráðlagt að setja börnin í sturtu þegar komið er aftur inn. Það er líka búið að biðja okkur að undirbúa börnin þar sem þau munu sjá annan veruleika, allt lokað, fólk með grímur og enginn nálgast þau og þau mega ekki nálgast neinn.
Ég trúði því aldrei að þetta yrði svona, ég var nú bara í lok febrúar að gantast með að þetta væru allt ýkjur og þetta væri bara flensa en þetta fór á hinn allra versta veg. Mjög súrrealískt ástand að upplifa þetta og heyra fréttir að um 800–900 manns séu að deyja á dag en í dag erum við með tölur um 300–400 andlát á dag.
Fólk er smeykt við þessa veiru, hún er svo óþekk og breytist dag frá degi, alltaf er verið að komast að einhverju nýju og fólk er hrætt. Ekki bætir á ástandið að vera tekjulaus. Þetta er búið að hafa gífurleg áhrif á Spán og á bæinn minn líka. Þetta er mikill ferðamannabær og hér er verið að tala um að sumarið sé ónýtt. Búið að aflýsa öllum bæjarskemmtunum, tónleikum, leikhúsum, sundlaugar opna eflaust ekki og ströndin verður ekki sú sama og önnur sumur.“
Mamman átti erfiðast með þetta
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
„Við höfum reynt að halda rútínunni svona nokkurn veginn, þótt það sé farið aðeins seinna að sofa og vaknað seinna, fyrir utan yngstu skvísuna. Skólinn er búinn að vera í aðalhlutverki myndi ég segja. Hann var ekki tæknilega tilbúinn fyrir þetta ástand og mikið vesen með að fá heimavinnu og fara í tíma á netinu og þess háttar. Hér eru 28 nemendur í bekk og ég er með tvær í skóla þannig að þetta tók á taugarnar og gerir aðeins enn. Sú yngsta (þriggja ára) fékk meira að segja smá heimavinnu frá leikskólanum.
Seinnipartinn reynum við bara að vera að gera það sem okkur finnst skemmtilegt, púslum, frjáls tími í tölvu, sjónvarp eða leik. Miðjustelpan er mjög listræn og á held ég erfiðast með þetta þar sem hún þarf að fá útrás fyrir þessu eðli sínu og ekki allt til staðar á heimlinu og allar búðir lokaðar, en við reddum þessum. Ég held að mamman hafi átt erfiðast með þetta og ég er nú samt sú heimakærasta á heimilinu en ég viðurkenni að þegar liðnar voru svona þrjár, fjórar vikur án þess að fara út þá fór þetta að taka á. Það sem hefur þó breyst til hins betra er að það er minni pressa og hraði á öllu. Það er allt í lagi að slaka á því það er nægur tími til að gera allt.“
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
„Fara þér hægar og njóta hvers augnabliks, maður segir þetta oft en fer sjaldnast eftir þessu. Mér líður pínu eins og jörðin hafi skammað okkur og lokað okkur inn í herbergi í smástund til að hugsa málið. Ég held að það komi margt jákvætt út úr þessu, verður maður ekki bara að halda það?“
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
„Ég nota Messenger mikið og FaceTime til að tala við fólkið mitt á Íslandi en mér finnst alltaf bara best að hringja í síma þegar ég tek spjall við mömmu.“
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
„Ella amma, ég myndi hringja í gömlu, hringi alltof sjaldan og hún er alveg einstök.“