„Hér er öllu frestað fram að hausti“
Ósk Wall hefur verið búsett ásamt fjölskyldu sinni í Esbjerg í Danmörku síðan maí 1998. Maki hennar er Óskar Snorrason, húsasmiður, og þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. Þá er annað barnabarn á leiðinni.
Hér má lesa viðtalið í Víkurfréttum - smellið hér!
„Ég starfa hjá verkalýðsfélaginu Fødevareforbundet NNF sem atvinnuskaða- og félagsráðgjafi (Arbejdsskade og Social konsulent). Yfirmenn mínir eru í Kaupmannahöfn en ég er með skrifstofu í Esbjerg, Holstebro og Rødekro. Starf mitt felst í að hjálpa meðlimum okkar að fá þá hjálp sem þeir eiga rétt á í sambandi við veikindi og atvinnuslys hjá yfirvöldum í Damörku og áfrýja ákvörðunum sem við metum að séu rangar. Sem félagsráðgjafi er þetta mjög spennandi starf sem gefur aukinn möguleika á að grafa niður í löggjöfina,“ segir Ósk um það sem hún er að fást við.
Okkur hjá Víkurfréttum lék forvitni á að vita hvernig Suðurnesjafólk í útlöndum er að upplifa heimsfaraldur COVID-19. Þar sem Ósk hefur búið á þriðja áratug í Esbjerg í Danmörku, það er það hennar heimavöllur, enda segist hún lítið fylgjast með því sem er að gerast á Íslandi, nema ef náttúruhamfarir verða.
– Hvernig ert þú að upplifa ástandið í kringum COVID-19?
Hræðilegt ástand og eiginlega mjög hrollvekjandi hve fljótt svona smit getur dreift sér. Þetta er ástand sem engin hefur prófað áður og engin hefur 100% lausn í sambandi við hvernig maður bregst við. Heimurinn er lamaður, við erum öll í sömu aðstöðu, þó mismikilli hættu að sjálfsögðu.
– Hefurðu áhyggjur?
Já, að sjálfsögðu hefur maður áhyggjur. Ég vona að það lyf sem Danirnir eru að prófa þessa stundina virki svo það sé hægt að fara að gefa lyf við þessum vírus.
– Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf? Hvernig eru dagarnir hjá þér núna? Hefur þú gert miklar breytingar í daglegu lífi?
Skrifstofurnar okkar hafa verið lokaðar síðan 15. mars og verða áfram til 10. maí. Allir vinna heima. Okkar meðlimir eru í vinnu þar sem þeir starfa við matvælaiðnaðinn.
Ég hef verið meira og minna heima þar sem ég hef haft einkenni í langan tíma. Þó ég sé testuð neikvætt með COVID-19 hefur minn læknir upplýst að testin eru ekki örugg. Svo við minnstu einkenni, þá á fólk að vera heima. Ég hef ekki séð dóttur mína og hennar fjölskyldu sem búa í Skanderborg síðan í lok febrúar. Það er gott við höfum tæknina til að geta séð og talað saman.
Sá yngsti hefur verið heima síðan 15. mars og verður áfram þangað til fyrirvöld eru tilbúin til að opna skólana að fullu en þau yngstu, frá 0. til 5. bekk, byrja í skóla eftir páska.
– Hefur þú þurft að gera miklar breytingar varðandi vinnu eða daglegt líf?
Við vinnum heima. Öll samskipti eru í gegnum síma. Við hittum ekki vini eða vandamenn. Við tökum þetta öll alvarlega. Tökum enga áhættu. Brúðkaupi dóttur okkar og tengdasonar var frestað en það átti að vera 4. apríl. Við bíðum spennt eftir sömu dagsetningu á næsta ári.
– Hvenær fórstu að taka COVID-19 alvarlega?
Í janúar var maður byrjaður að heyra um þetta ástand í Kína. Við vorum stödd í Dubai síðustu tvær vikurnar í janúar þegar fréttir fóru að ágerast. Á flugvellinum á leiðinni heim, voru næstum allir með grímur og mikið af Kínverjum. Ég hafði smá áhyggjur af því að við gætum sýkst í flugvélinni á leiðinni heim. En mér hefði aldrei dottið í hug að ástandið yrði eins og við þekkjum í dag.
– Hvað varð til þess?
Það var óhugnanlegt hve hratt vírusinn dreifðist í Kína. Einnig þegar fyrstu smitin greindust hér, þá fór þetta að koma óþægilega nálægt.
– Hvernig ert þú að fara varlega í þessu ástandi?
Ég fer eftir leiðbeiningum yfirvalda. Held mig heima.
– Hvernig finnst þér yfirvöld á þínum stað vera að standa sig?
Yfirvöld hér standa sig mjög vel. Auðvitað má alltaf vega og meta hvort hefði átt að gera meira fyrr en miða við önnur lönd þá held ég að við getum verið sátt. Danmörk stendur vel fjárhagslega og ég hef fullt traust til þess að ríkisstjórnin geri það rétta út frá þeim leiðbeiningum sem eru til staðar.
– Hefur þú fylgst með aðgerðum heima á Íslandi og borið þær saman við það sem er verið að gera á þínu svæði?
Ekki mikið. Ég fylgist ekki mikið með fréttum frá Íslandi nema að það séu náttúruhamfarir. Ég sé þær fréttir sem eru deildar á Facebook. Miðað við það sem ég hef séð virðist íslendingar standa sig ágætlega. Ég verð þó viðurkenna að ég var mjög hissa að þeir skildu ekki loka skólum alveg. Ég sé reyndar í fréttum hérna í Danmörku núna að sérfræðingar eru að minnast á það (í sambandi við að skólar eru að opna hér fyrir þá yngstu) að það hafi gengið vel og ekki mikið um smit hjá börnun á Íslandi. Fyrir utan þessa frétt hef ég lítið séð minnst á Ísland í fréttum hér í sambandi við COVID-19. Við megum ekki gleyma því að Ísland er í sérstakri aðstöðu, sem lítið land með ein landamæri og þar af leiðandi auðveldara að eiga við smitbera en í landi eins og Danmörku með sex milljónir íbúa.
– Hvað finnst þér mikilvægast á þessum tímum?
Standa saman, styðja hvort annað. Hlusta á yfirvöld. Það koma betri tímar og þá er mikilvægt að við gleymum ekki öllum þeim góðu gildum sem við lærðum í krísunni.
– Hefur eitthvað komið til tals að yfirgefa svæðið og koma heim til Íslands?
Mitt heimili er í Danmörku, svo nei.
– Ertu í miklum samskiptum við þitt fólk og vini heima á Íslandi núna? Meira en vanalega?
Nei, ekki meira en vanalega. Það hafa allir verið, sem betur fer, við góða heilsu.
– Hvernig hagar þú innkaupum í dag?
Ég versla á netinu hjá verslunum hér í Esbjerg sem eru illa staddar út af þessu ástandi. Hér í Esbjerg hafa íbúar keypt Take Away oftar en vanalega, sama er það með okkur, höfum aldrei keypt eins oft mat heim og núna. Ég versla meira á netinu en vanalega. Við verslum ekki matvöru á netinu en förum alltaf ein að versla.
– Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi?
Svo lengi sem það er ekki búið að framleiða lyf eða hægt að bólusetja þá kemur þetta til að taka tíma. Hér er öllu frestað fram að hausti. Engar útihátíðir, ráðstefnur eða tónleikar. Sumarfríið okkar til Bandaríkjanna fær mjög líklega að bíða til betra tíma.
– Hvernig eru aðrir fjölskyldumeðlimir að upplifa ástandið? Er ótti?
Nei, það er ekki ótti, við förum öll varlega. Ég á son sem er í áhættuhópi og hann á því miður hættu á því að þurfa að vera lengi í einangrun heima hjá sér. Dóttir mín er ófrísk og á að eiga núna í ágúst en sem betur virðast ófrískar konur ekki vera í áhættuhópi, hún hættir þó að vinna nú í maí samkvæmt ráðlegginum yfirvalda. Vandamálið með þennan vírus að það er alltaf eitthvað nýtt að koma í ljós.