„Gaman að sjá og finna hve margir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg“
-segir Katrín Lilja sem skipuleggur hreinsunardaginn annað árið í röð
Hreinsunardagur verður þann11. maí á Ásbrú en dagurinn er síðasti laugardagur fyrir vorvertíð. Þá hittast íbúar á svæðinu og aðrir sem vilja taka þátt kl. 11 við Heilsuleikskólann Skógarás, Skógarbraut 932. Þar skipta íbúar sér á milli svæða og fá ruslapoka. Þátttakendur taka svo til hendinni og týna upp rusl sem er í kringum íbúðarhúsnæði og á opnum svæðum. Þegar vorverkunum er lokið hittast allir í Heilsluleikskólanum Skógarási og gæða sér á veitingum í boði Isavia.
Í vikunni á undan taka fyrirtæki og stofnanir á Ásbrú til í kringum sig.
Kátir krakkar í Háaleitisskóla á Ásbrú taka til hendinni.
Katrín Lilja Hraunfjörð setti verkefnið af stað síðasta vor og fékk strax góð viðbrögð.
„Forsaga þessa verkefnis er sú að mér fannst vanta að auka viðringu íbúa og fyrirtækja svæðisins fyrir svæðinu og umhverfinu almennt. Ég kem frá Suðureyri, litlum stað vestur á fjörðum, og þar er á hverju vori hreinsunardagur sem íþróttafélagið Stefnir sér um. Mér fannst það vera svo frábært framtak og langaði að heimfæra þetta yfir á hverfið okkar. Einnig langaði mig að auka hlutdeild íbúanna á okkar sameiginlega nærumhverfi. Við sem búum hér og stöfum höfum eitthvað um það að segja hvernig við göngum um og hvernig er umhorfs í kringum okkur. Mér fannst leiðinlegt að keyra um hverfið og sjá rusl og drasl út um allt,“ segir Katrín Lilja í samtali við Víkurfréttir.
Katrín fór á stúfana og fékk all marga í lið með sér en fyrirtæki og stofnanir sem styrkja þetta verkefni eru Kadeco, Isavia, Blái herinn, Heimavellir, Skólar ehf og Reykjanesbær. „Ég hef fengið frábærar undirtektir hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem ég hef haft samband við um samvinnu. Það er gaman að sjá og finna hve margir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg,“ sagði Katrín Lilja að endingu.