Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Á aldrei eftir að prófa djúpsteiktu nautaeistun“
Laugardagur 2. maí 2020 kl. 14:12

„Á aldrei eftir að prófa djúpsteiktu nautaeistun“

Jón Þór Karlsson býr við þjóðveg 66 í Bandaríkjunum

Jón Þór Karlsson er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann er giftur Tonyu Fay og þau búa í Vinita í Oklahoma í Bandaríkjunum. Vinita er um 100 km norðaustan við Tulsa, sem margir Íslendingar þekkja, og er heimabær Tonyu. Bærinn er einn af eldri bæjum Oklahoma og er með járnbrautakrossteina, eða „Junction“, og bærinn hét Junction í upphafi. Það var mikil gróska bænum á sínum tíma.

HÉR MÁ LESA VIÐTALIÐ Í VÍKURFRÉTTUM - SMELLIÐ HÉR!

Seinna varð pólitíkin þannig hér að þeir vildu ekki stækka bæinn þannig að Tulsa varð að stórborginni á svæðinu,“ segir Jón Þór þegar hann er beðinn um að lýsa heimabænum sínum. „Hér í bæ eru mörg hjúkrunar- og elliheimili, þannig að ég tel að stærsti atvinnuvegur hér sé heilsugeirinn. Svo eru margir búgarðar hér og mikið um nautgripi, sem eru aldir til kjöts. Jón Þór og Tonya eiga þrjú uppkomin börn, Kristinn Þór 32 ára, Árnína Lilja 26 ára og Jakob Solimon, sem er 24 ára. „Hjá okkur búa svo tvö barnabörn, þær Daenerys Phoenix og Solstice Rayne en þær eru dætur Árnínu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Ég hóf flugvirkjanám í október 1985. Meðan ég var í námi hitti ég Tonyu og við giftum okkur 19. ágúst 1987. Eftir námið fluttum við til Lúxemborgar og hóf störf hjá Cargolux. Svo fór ég heim til Íslands 1988. Ég starfaði hjá Flugleiðum (Icelandair) sem flugvirki árin 1988–1989 og þegar Icelandair endurnýjaði flotann með nýju 757 og 737 vélunum, þá var 22 af okkur sagt upp því að flugvélstjórarnir af DC-8 og 727 vélunum komu á gólfið. Við fórum tveir til Bandaríkjanna, tveir til Kanada svo fóru nokkrir til SAS, Finair og German Cargo.  Ég flutti til Orlando og hóf störf hjá Page Avjet Corporation sem flugvirki í mars 1989.

– Var erfið ákvörðun að söðla um og flytja í annað land?

Fyrir mig var það ekki erfið ákvörðun á þeim tíma. Ég var á tuttugasta og þriðja ári og konan var frá Bandaríkjunum. Ég var búinn að vera þar í skóla og kunni vel við mig þar. Það var ekki erfitt fyrr en kannski eftir á, þegar ég var búinn að vera í nokkur ár. Ég átti tvær ömmur, afa og langafa og ég fór að sakna þeirra og allrar fjölskyldunnar og vina. Það var erfiðast á jólum og hátíðum. Í upphafi var meiningin að vera ekki lengi en það eru komin 31 ár síðan ég flutti út.

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

Já, það er margt sem ég sakna frá Íslandi. Það er viss orka og andi í landinu sjálfu sem ég finn ekki annars staðar í heiminum. Landslagið er ótrúlegt og loftslagið einstaklega hreint. Ég sakna fjölskyldunnar, vinanna, menningarinnar, fólksins, sagnanna, tónlistarinnar og tungumálsins. Svo náttúrlega hreina og tæra vatnsins, svo er það fiskurinn, lambið, pylsurnar og rjómaísinn besti.

Fleiri með illa lyktandi mat til að halda upp á gamlar hefðir

– Er eitthvað framandi sem hefur komið þér á óvart þar sem þú býrð núna?

Það kom mér á óvart hvað jólin eru óhátíðleg hér. Við höfum haldið upp á þau kannski meira eins og við gerum heima á Íslandi en hér er nánast bara haldið upp á jóladag af heimamönnum, skrautið sett upp í enda nóvember og tekið niður milli jóla og nýárs. Svo á vorin er festival hér í bæ. Að hefð kúrekana þá eru nautaeistu djúpsteikt, það er kallað Calf Fry og er svakalega vinsælt. Ég hef aldrei þorað að prófa þetta og mun sennilega aldrei gera. Svo er tengdapabbi minn með svínagarnir (Chitterlings, eða chitlins á slangri) á Þakkargjörðarhátíðinni og það er mikið um það hér, þannig að við Íslendingar erum ekki einir um að vera með illa lyktandi mat til að halda upp á gamlar hefðir.

– Hefurðu alltaf búið á sömu slóðum?

Nei, við höfum búið á mörgum stöðum. Árið 1990 hóf ég störf hjá Ryan International, sem er bandarískt félag, sem flugvirki, seinna sem vélstjóri og flugmaður. Fyrstu árin var ég að vinna á bækistöðvum sem voru oft að breytast því að þeir voru að elta fraktina. Til dæmis var mikið að gera á vissum árstíma hjá fyrirtækinu í Oklahoma City, þá settum við upp stöð þar, svo var hún kannski flutt til Minneapolis seinna á árinu. Þannig að við höfum búið í Oklahoma City í Oklahoma, Tulsa í Oklahoma, Wichita í Kansas, Peoria í Illinois,  Minnepolis í Minnesota, Huntsville í Alabama, Orlando í Flórída, Daytona Beach í Flórída, Jacksonville í Flórída. Við bjuggum í allmörg ár í Orlando og fluttum í heimabæ Tonyu 2002. Ég er mikið að heiman og vinn í mánuð í burtu í senn, mest í Evrópu og Miðausturlöndum. Ég kem svo heim í mánaðarfrí á milli.

Ódýrt að lifa hérna

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð í dag?

Það er rólegt, fólkið er vingjarnlegt og glæpatíðni frekar lág. Það er frekar ódýrt að lifa hér, húsnæðisverð eru hagstæð og skattar lágir miðað við marga staði hérna fyrir vestan. Tonya er nálægt pabba sínum og fjölskyldu. Hann er að eldast og við þurfum að fylgjast vel með honum. Skólar hér eru góðir og fullorðnir taka mikinn þátt í lífi barnanna. Það er mikið stúss, sérstaklega í kringum fótboltaliðið, körfuboltann og hornaboltann.

– Hvernig er að vera með fjölskyldu og börn þarna?

Þetta er góður staður til að ala börn.

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

Það er mjög erfitt að vera með eitthvað hefbundið þegar maður er að heiman í mánuð og svo heima í mánuð en síðasta árið þá er morgunmatur og dinglast með afastelpurnar. Ég byggði leikvöll á bak við hús og við erum mikið þar. Svo förum við á rúntinn með þær. Þær eru vitlausar í járnbrautarlestir og við förum að horfa á þær og kannski eitthvað í búðir og annað. Annað sem ég geri mikið þegar ég er heima er að vinna í húsinu sem er 120 ára gamalt og ég er alltaf með verkefni í gangi. Ég elda alltaf kvöldmatinn þegar ég er heima og mér þykir yndislega gaman að elda og reyna fyrir mér nýjungar í mat.

Alltaf ljúft hérna á sumrin

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

Ég hafði gert það og geri það enn sem komið er. Það var planið að stoppa á Íslandi eftir vinnumánuð en maður verður bara að sjá hvernig þetta þróast. Annars held ég bara áfram að vinna í húsinu. Það er alltaf ljúft hérna á sumrin, þó svolítið heitt á köflum en ég set grillið og „smókerinn“ í yfirdrif og það er yndislegt.

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

Tónlist er sennilega stærsta áhugamálið. Ég var að syngja með blús- og soul-hljómsveit í nokkur ár en svo hefur það minnkað með árunum. Það er miklu minna að gera í því en var. Við Tonya semjum tónlist, hún spilar á gítar og syngur. Ég kann kannski tvo eða þrjá hljóma sjálfur en er ekki góður – en nógu góður til að sjóða saman lag með capo-klemmu. Við fórum oft á „Open Mic“, eða djamm-„sessions“ hingað og þangað, þannig að öllu svoleiðis hefur verið frestað svo að við spilum nokkur lög á kvöldin eftir að stelpurnar fara í rúmið. Eldamennska er sennilega númer tvö, mér þykir mjög gaman að elda og ég tel mig vera með það í sálinni.

– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?

Bakkasel í Grafningnum. Við fórum þangað á hverju ári sem börn með afa mínum og ömmu í föðurætt, Hermanni Eiríksyni og Ingu Sigmundsdóttur. Svo kom öll fjölskyldan saman í viku. Þessi staður er paradís á jörð, jafnt Bakkaseli er Akureyri. Árnína, amma mín, var þaðan og langafi minn, Jón Þórðarson, bjó þar og ég var þar sem barn á sumrin. Á yndislegar minningar af því og svo náttúrlega Vaglaskógur. Annars er landið magnað í alla staði.

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

Ef ferðabanni verður aflétt þá er ég í flughermi 15. maí, sem er bara árlega þjálfunin, svo er vinnumánuður minn í júní og kannski fer ég til Íslands í enda júní. Annars held ég áfram að vinna í húsinu og útibyggingunum, sem eru þrjár.

Þjóðvegur 66 liggur í gegnum bæinn

Jón Þór segir að mikið sé um að vera í heimabænum hans Vinita á sumrin. Þar eru allskonar uppákomur í skrúðgörðunum og niðri í bæ. Þjóðvegur 66 fer í gegnum bæinn og það eru oft uppákomur í sambandi við það, hljómsveitir, blús, rokk og kántrý. Svo er fornbílasýning sem er mjög góð. „Og svo eru alls konar uppákomur við Grand Lake líka og við komum saman þar með vinum og það er spiluð tónlist.“

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

Fylkisstjóri Oklahoma var mjög tregur og seinn að taka við sér. Hann var að taka sjálfsmyndir af sér og fjölskyldunni á laugardegi á troðfullum matsölustað og segja „Social Distancing“ hvað? Hann var að hvetja fólk til að halda áfram óbreyttu lífi. Á mánudeginum var lýst yfir þjóðarneyðarástandi, þannig að þetta leit ekki vel út fyrir hann. Hann setti lög fyrir fylkið nokkrum dögum seinna og við förum eftir þessum reglum.

Ég er sá eini sem fer í búð, Tonya og stelpurnar fara ekki í búðir á meðan að á þessu stendur. Fyrstu tvær vikurnar fannst mér fólk vera mjög værukært, starfsfólkið í Walmart var ekki með hanska eða grímur og flestir kúnnarnir ekki heldur. Það voru fæstir að fara eftir tveggja metra reglunni. Það voru margir sem voru með þær kenningar að þetta væri vinstrisinnað samsæri til að gera lítið úr forsetanum. Svo kom fyrsta tilfellið. Hann er vinsæll þjálfari í High School hérna. Svo komu fleiri og nú eru þau níu. Það er bær nálægt okkur þar sem smituðust 40 manns á hjúkrunarheimili og það hefur kannski verið svona síðustu viku eða tíu daga sem flestir eru að fara eftir reglum og ég vil þakka starfólki á öllum þessum hjúkrunar heimilum fyrir það.

Á kvöldin er útgöngubann og ég heyri sífellt í sírenum öll kvöld, sem gerir það svolítið drungalegt. Allir barir og matsölustaðir eru lokaðir, nema til að taka með heim og bílalúgur. Allar rakara- og snyrtistofur eru lokaðar, allar búðir nema það sem þykir nauðsynlegt. Sjálfum mér finnst mér fólk vera mjög skrítið á þessum tíma en það er kannski eðlilegt þetta er svo mikil stökk breyting því sem fólk er vant.

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

Svarið er já, hér hefur allt breyst. Það er mikil óvissa. Mér finnst fólk haga sér skringilega, svo eru þetta náttúrlega miklar breytingar að fara í búð og annað. Ég píni sjálfan mig til að fara í búð og reyni að gera það sem sjaldnast. Við erum mest heima, þannig að það er gott að okkur semur öllum vel og engir árekstrar enn.  Annars hlakkar mig til að fara aftur í það venjulega. Það er vitað mál að þegar þetta er yfirstaðið verða okkur sett fullt af nýjum reglum. Maður les um að á þessum tíma sé mikil aukning á heimilisofbeldi, lyfjaneyslu og drykkju, þannig að þetta leggst ekki vel í alla.

Að lífa í núinu

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Fyrir mig, bara að lifa í núinu og að vera þakklátur fyrir sældarlíf. Fyrir heiminn í heild hvað, varðar svona vírus eða sótt, þá er að bregðast við strax, setja sem flesta í prufur og vera betur undirbúinn. Bandaríkinn voru illa undirbúinn að mínu mati og ennþá er ekki hægt að fá prufu (test) nema að þú sért með einkenni. Mér fannst aðdáunarvert hvernig Ísland og Þýskaland meðhöndluðu sín mál.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Það er allur gangur á því. Ég heyri í mömmu á með SMS eða á tölvupósti, hún er ekki á Facebook og ætlar þar ekki. Pabbi og flestir vinirnir á Facebook og Messenger. Samstarfsmenn um allan heim í gegnum Whatsapp. Annars, ef ég er heima, þá finnst mér þægilegast að nota gamla góða heimasímann til að hringja innan Bandaríkjana, það er svo góður hljómur í honum. Mér hefur alltaf fundist óþægilegt að tala í farsíma, kannski bara ímyndun, en finnst eins og hausinn sé í geislameðferð.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ég myndi hringja í foreldra mína vegna þess að mér þykir svo vænt um þau, við höfum mjög náinn og sterk tengsl.