Yngsti formaður ungmennafélags á Íslandi?
Þróttarar þeir fyrstu sem bjóða upp á fjölsport, hugmyndin af því kemur frá Noregi. Vonast til að fá Landsmót UMFÍ 50+ í Vogana.
„Þar sem Landsmót UMFÍ 50+ hefur aldrei verið haldið á Suðurnesjum þá bindum við vonir um að hreppa hnossið, Vogar eru mjög hentugur staður fyrir þetta flotta móti,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar í Vogum.
Petra flutti í Voga frá Kópavogi þegar hún var í fimmta bekk og hefur sest þar að. Hún hefur alltaf verið mikill íþróttaálfur, æfði flest af því sem var í boði og æfði fótbolta með grannaliðum af Suðurnesjunum þegar ekki var hægt að manna kvennalið í Vogum. Hún fór fljótlega að þjálfa knattspyrnu, í dag þjálfar hún Vogaþrek og íþróttaskóla barna og ung að árum lét hún til sín taka í félagsmálum Þróttar.
Petra hefur ætíð kunnað vel við sig í Vogum. „Mamma og pabbi ákváðu að flytja úr parhúsi í Kópavogi og komast í einbýlishús og svo áttu þau líka vinafólk í Vogum. Vinur foreldra minna var formaður Þróttar á þeim tíma og ég var fljótlega farin að æfa sund hjá félaginu. Eftir sundið fór ég í fótbolta og líkaði vel. Ég hafði mikinn áhuga á fótbolta og æfði með Þrótti upp í fjórða flokk en þurfti þá að leita annað, æfði fyrst með Víði í Garði en hafði líka kíkt á einhverjar æfingar hjá Grindavík á meðan ég æfði með Þrótti. Ég spilaði svo í meistaraflokki bæði með Víði og Keflavík.“
Petra sýndi fljótt áhuga á félagsstörfum Þróttar. „Ég byrjaði ung að þjálfa fótbolta hjá Þrótti og var tuttugu og fjögurra ára þegar Matti [Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar] dró mig í stjórn árið 2017, ég var varamaður þá en tók svo við formennsku árið 2019 og hef gegnt þeirri stöðu síðan þá. Við erum í raun með þetta tvískipt, aðalstjórnin er yfir öllum deildum og öllu barna- og unglingastarfi en svo heldur stjórn knattspyrnudeildar utan um meistaraflokkinn í knattspyrnu, er þó undir lögum og reglum félagsins. Það eru þrír í stjórn knattspyrnudeildar en við erum fimm í aðalstjórn plús tveir varamenn. Þetta er auðvitað sjálfboðaliðastarf en í apríl í fyrra tók Þróttur við rekstri íþróttamannvirkjanna í Vogum og það var ekki hægt að bæta því við starf Marteins og því réðist ég tímabundið í 50% starf verkefnastjóra á meðan við værum að innleiða starfsemi íþróttamiðstöðvar inn í félagið. Það er nýbúið að framlengja við mig í þrjá mánuði en hvað tekur svo við kemur bara í ljós. Ég var að útskrifast með master í verkefnastjórnun og er ekki stressuð yfir að finna ekki nýtt og spennandi starf, mun leita að einhverri verkefnastjórnun en ég er sömuleiðis með Bs.c gráðu í sálfræði og ÍAK einkaþjálfararéttindi.“
Fjölsport
Þróttarar í Vogum bjóða upp á fjölsport. „Sökum smæðar er erfitt fyrir okkur að halda úti mörgum íþróttagreinum því iðkendafjöldinn stendur ekki undir launakostnaði. Þess vegna var sú leið farin að nýta okkur það sem við lærðum í ferð með UMFÍ, um starf Norðmanna en þar er boðið upp á svokallað fjölsport. Norðmenn standa mjög framarlega í vetraríþróttum og nánast undantekningarlaust hafði norskur afreksvetraríþróttamaður æft aðrar greinar þegar hann var yngri. Viðkomandi æfði hinar og þessar greinar upp að tíu ára aldri og fór svo í meiri sérhæfingu. Okkur fannst þetta sniðug hugmynd fyrir okkur að prófa. Við erum með íþróttafræðing í þjálfarateyminu svo hægt er að bjóða upp á hvaða íþróttagrein sem er í raun. Við skiptum tímabilum upp í tveggja vikna lotur þar sem viðkomandi grein er æfð í þann tíma og svo skipt. Svona fá krakkarnir tækifæri til að kynnast mörgum greinum og finna sig vonandi einhvers staðar. Við bjóðum upp á þetta fyrir 1.–7. bekk, það hefur verið mjög mikil ánægja með þetta. Knattspyrna er vinsælasta greinin og sumir krakkar æfa báðar greinar, við teljum þetta henta okkar félagi mjög vel,“ segir Petra Ruth.
Þróttur var í Lengjudeildinni í fyrra
Þar sem knattspyrnan er með sérdeild fyrir sinn rekstur, fer eðlilega mesta púðrið í þá grein. „Við komumst upp í Lengjudeildina fyrir síðasta tímabil en féllum strax, unnum bara einn leik en okkur þótti mjög gaman að vinna granna okkar frá Grindavík. Auðvitað viljum við komast upp aftur en ætlum að gera hlutina skv. okkar gildum. Við erum ekki stærsti klúbburinn en við hugsum mjög vel um okkar leikmenn, bjóðum upp á góða umgjörð og þeir vilja koma og spila fyrir okkur. Þetta eru mest strákar annars staðar frá, t.d. af Suðurnesjunum og úr Hafnarfirði. Mig dreymir auðvitað um að Þróttur geti boðið upp á meistaraflokk kvenna einhvern tímann í framtíðinni. Við vorum með sameiginlegt lið með Víði fyrir nokkrum árum og tókum þátt í bikarkeppni í tvö ár. Núna erum við nokkrar héðan að fara spila bikarleik með Njarðvík á móti Grindavík. Við æfum einu sinni í viku í Reykjaneshöllinni, ég hef alltaf mjög gaman af því að sprikla í fótbolta. Annars bjóðum við upp á brennó fyrir konur, við erum með Yoga, Vogaþrek, íþróttaskóla, rafíþróttir og fjölbreytt starf fyrir eldri borgara. Svo erum við með meistaraflokk karla í körfubolta, þeir eru í 2. deild og eru búnir að vinna alla sína leiki á þessu tímabili. Þetta eru mest strákar úr Reykjanesbæ, tveir Keflvíkingar sem halda utan um starfið, þeir Birkir Alfons og Guðmundur Ingi Skúlason.“
Kasína á Landsmóti UMFÍ 50+?
Þróttarar ætla sér að halda Landsmóti UMFÍ árið 2024. „Árið 2020 sóttum við um að halda Landsmótið árið 2022, á afmælisárinu okkar, en vegna COVID voru engin mót haldin og umsókn frestaðist. Mótið var haldið í Borgarnesi í fyrra og verður haldið í Stykkishólmi í ár en við viljum halda mótið á næsta ári, erum ein þriggja umsækjenda. Þar sem mótið hefur aldrei verið haldið á Suðurnesjum þá bindum við vonir um að hreppa hnossið, ég vil líka trúa að við hefðum fengið mótið á afmælisárinu okkar árið 2022 svo ég er bjartsýn. Vogar er mjög hentugur staður til að halda þetta flotta mót, stutt frá höfuðborgarsvæðinu en þetta er mjög skemmtilegt mót, sett á föstudagskvöldi og svo er keppt alla dagana í hinum og þessum greinum. Mótið er haldið út frá staðnum, hvað hann getur boðið upp á og mótshaldari getur komið með hugmyndir að mögulegum greinum sem gætu haft sérstök tengsl við svæðið. Til dæmis var spilað Lomber á Neskaupsstað en það er mikið spilað fyrir austan. Ég veit að það er mikil hefð fyrir Kasínu-spilinu á meðal sjómanna og þar sem Suðurnesin eru með öflugar sjávarútvegsbyggðir þá kæmi mér ekki á óvart að við munum athuga hvort ekki væri hægt að bjóða upp á Kasínu sem keppnisgrein, ef ég fer ekki með rangt mál þá var haldið Íslandsmót í Kasínu í Bláa lóninu eina sjómannahelgina,“ sagði Petra Ruth að lokum.