Yfirvöld snúa baki við Suðurnesjum
„Ætli það standi ekki upp úr að hafa verið í forsvari fyrir íþróttadeild VF og verið í eldlínunni að greina frá því þegar körfuboltaliðin á Suðurnesjum voru að raka inn titlum. Þarna slæddust líka inn tveir bikarmeistaratitlar í knattspyrnu hjá Keflavík, Taekwondo-deildin í Keflavík sprakk út, ÍRB lét vel að sér kveða í sundinu með Erlu Dögg Haraldsdóttur fremsta í flokki og Massa-menn stigu út úr Ljónagryfjunni og fóru að láta til sín taka á landsvísu, Samkaupsmótin, jólasýning Fimleikadeildar Keflavíkur, vinabæjarheimsóknirnar í hnefaleikum og svona mætti lengi telja. Íþróttalífið á Suðurnesjum er svo sannarlega öflugt og maður veltir því oft fyrir sér hvort maður hafi ekki hreinlega verið galinn að takast á við þetta allt saman,“ segir Jón Björn Ólafsson, sem starfaði sem blaðamaður og yfirmaður íþróttadeildar blaðsins í fjögur ár.
„Það var mikið að gera sem starfsmaður íþróttadeildar VF á þessum tíma og gaman að fá að greina frá þessum stóru og merkisverðu sigrum Suðurnesjamanna“.
Hvað stendur upp úr á árinu sem nú er að líða?
„Eyjafjallajökull stendur upp úr og Suðurnesin fóru ekki varhluta af gosinu enda eins og fagurt fordyri fyrir erlenda gesti sem hingað koma. Margir þeirra þurftu að glíma við erfiðleika við að komast til og frá landinu og þannig komst Keflavíkurflugvöllur í brennidepil. Í kjölfarið hlaut Elísa Geirsdóttir Newman svo heimsfrægð fyrir útskýringalag sitt um Eyjafjallajökul sem frumflutt var á Al Jazeera sjónvarpsstöðinni á Bretlandseyjum, lag ársins að mínu mati.
Þá er það einnig stórmerkilegt að á árinu hafi íslensk yfirvöld með berum orðum og aðgerðum snúið baki við Suðurnesjum með jafn afdráttarlausum hætti og gert var. Fyrir hrun og í fyrndinni var þetta meira í orði hins opinbera þó vissulega megi færa fyrir því rök að óteljandi ljón hafi verið sett í veg Suðurnesjamanna af hinu háa Alþingi áður en allt fór fjandans til. Þetta árið fékk svæðið hreinlega rassskell úr öllum áttum hvort sem um var að ræða af hálfu hins opinbera eða af hálfu fjölmiðla. Vert er að benda öllum á að kynna sér skýrslu SSS um tölulegan samanburð á framlögum ríkisins til Suðurnesja með hliðsjón af framlögum til annarra landshluta og skoða í því samhengi orsök og afleiðingu,“ segir Jón Björn Ólafsson, sem í dag starfar hjá Íþróttasambandi fatlaðra.