Yfirlýsing vegna fjölgunar barnaverndartilkynninga
Í kjölfar frétta Fréttablaðsins undanfarna daga hefur Hjördís Árnadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldu- og félagssviðs hjá Reykjanesbæ, gefið frá sér eftirfarandi tilkynningu:
„Í kjölfar rannsóknar um heimilisofbeldi sem gerð var á landsvísu og kynnt á árinu 2010, var tekin meðvituð ákvörðun á Suðurnesjum að taka höndum saman og vinna gegn slíkum vágesti.
Við viljum ekki líða ofbeldi í nokkurri mynd og því til staðfestingar settum við upp skipulagt samstarf lögreglu og félagsmálayfirvalda með sérstaka áherslu í að vinna gegn heimilisofbeldi. Sú vinna hófst formlega um áramótin 2012/2013 og er að skila þeim afrakstri að við erum að rífa þessi mál úr felum. Óhjákvæmileg afleiðing þess er fjölgun barnaverndar tilkynninga, sem m.a. kemur fram í því að tilkynningar frá lögreglu eru 63% fleiri í ár, en fyrstu níu mánuði ársins 2012. Sem sýnir að það eru allir að taka þessa vinnu mjög alvarlega.
Samstarfsverkefnið hefur vakið athygli hjá ýmsum aðilum s.s. sveitarfélögum, lögregluembættum, heilsugæslu og víðar. Mörgum kann að þykja óþægilegt að svona upplýsingar komi uppá yfirborðið. Við ákváðum að þola það, því án þess næst ekki árangur.
Hafi fjölmiðlar áhuga á að kynna sér nánar verkefnið og aðdraganda þess er meira en sjálfsagt að veita slíkar upplýsingar og vísa ég í því sambandi á Lovísu Lilliendahl, verkefnastjóra velferðarvaktar Suðurnesja.
Það má jafnframt benda á að á sínum tíma kom kynferðisofbeldi upp á yfirborðið vegna ákvörðunar samfélagsins á Íslandi að líða ekki lengur þá þöggun sem þar hafði viðgengist í áratugi eða hundruði.
Hjördís Árnadóttir.“