Yfir 2000 stuðningsyfirlýsingar við Kompás á Facebook
Yfir 2000 einstaklingar hafa þegar skráð sig á Facebook-síðu áhugahóps um að fréttaskýringaþátturinn Kompás komi sér upp síðu á Facebook.com og miðli fréttaskýringum sínum þar. Sem kunnugt er var fréttaskýringaþátturinn fyrirvaralaust tekinn af dagskrá Stöðvar 2 og umsjónarmönnum hans sagt upp störfum.
Ritstjóri Kompáss er Jóhannes Kr. Kristjánsson fyrrum blaðamaður hér á Víkurfréttum. Hann hefur lýst því að þremenningarnir sem unnu við þáttinn, hann sjálfur, Kristinn Hrafnsson og Ingi Ragnar Ingason, muni halda vinnu sinni áfram en á nýjum vettvangi. Þeir nota þessa dagana til að skoða stöðu sína og var þeir muni halda áfram með beitta fréttaskýringaþætti sína, sem hafa m.a. unnið til verðlauna.
Þeir sem skráð hafa sig á Facebook-síðuna lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að leggja til frjáls fjárframlög til að styðja við rekstur Kompáss. Með frjálsu framlagi geti Kompás starfað algjörlega frjálst og óháð.