Yfir 100 myndlistarmenn sýna á Ljósanótt
Það fer ekkert á milli mála að mikil gróska er í myndlistarlífinu í Reykjanesbæ, a.m.k. ef marka má þann fjölda sýninga sem gestir Ljósanætur geta valið úr. Nú þegar er búið að tilkynna um 30 myndlistarsýningar, bæði einkasýningar og samsýningar og má reikna með að sýnendur sé vel yfir 100 talsins. Reikna má með að eitthvað bætist við þessa tölu þegar nær dregur.
Heimamenn eru í fyrirrúmi eins og áður en einnig koma sýningar frá Noregi og Færeyjum og alþjóðleg listsýning verður á Svarta lofti. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari sýnir í Listasafni Reykjanesbæjar, Unnar Örn Auðarson Jónasson í Suðsuðvestir, Íris Jónsdóttir í Kaffitári, Sossa í Kirkjulundi og gamalkunnug nöfn eins og Fríða Rögnvalds, Ásta Árnadóttir, Ásta Pálsdóttir, Sigríður Rósinskarsdóttir og Halla Har sýna verk sín í bland við unga og efnilega listamenn. ??Helstu sýningarstaðir eru Duustorfan, Listatorgið við Hafnargötu 2 og svo allt laust rými hjá fyrirtækjum upp alla Hafnargötu. Sýningarnar opna flestar á fimmtudagskvöldinu og standa fram á sunnudag en nokkrar munu þó standa eitthvað lengur. Til að mynda verður opnuð sýning á brúðusafni Helgu Ingólfsdóttur og ljósmyndum Ellerts Grétarssonar af brúðunum í byggðasafninu á Vatnsnesi og mun sú sýning standa út árið.
Víkurfréttir munu eins og áður standa að sérstakri blaðaútgáfu fyrir Ljósanótt.
Mynd: Myndlistaruppboðið á síðustu Ljósanótt mæltist vel fyrir.