Yfir 100 félagsmenn í Jeppavinafélagi á Suðurnesjum
	Yfir 100 félagsmenn eru í Jeppavinafélaginu sem er Suðurnesjadeild Ferðaklúbbsins 4x4. Um nýliðna helgi sýndu félagar úr Jeppavinafélaginu sautján jeppa á 30 ára afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4x4 sem fram fór í Kópavogi. Af þessum 17 jeppum voru 15 tilbúnir í fjallaferðir en enn er unnið að breytingum á tveimur þeirra.
	
	Öflugt starf er í Jeppavinafélaginu þar sem félagsmenn hittast fyrsta miðvikudag í mánuði í húsi Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Á vetrardagskránni eru meðal annars óvissuferð, þorrablótsferð og svo hásingaferð.
	
	Matthías Sigbjörnsson er formaður Jeppavinafélagsins. Hann segir að það sé ekki nauðsynlegt að eiga jeppa til að taka þátt í starfinu. Laugardaginn 28. september nk. verður t.a.m. nýliðaferð á dagskrá.
	
	Jeppamenning hefur verið sterk á Suðurnesjum í áratugi. Hér hafi verið til margir öflugir jeppar og víða séu menn að vinna í því að breyta jeppum og gera þá öflugri til fjallaferða.
	
	Þeir sem vilja kynna sér starfsemi Jeppavinafélagsins geta skoðað allt um starfið á www.f4x4.is.
	
	
	
	


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				