Wok-lax að hætti Jakobs
„Þetta er réttur sem er mjög vinsæll á mínu heimili. Hann er fljótlegur, hollur og mjög bragðgóður,“ segir Jakob Már Jónharðsson sem fyrstur ríður á vaðið í nýjum lið hjá okkur hér á VF sem kallast Í eldhúsinu. Jakob gerði garðinn frægan hér á árum áður á knattspyrnuvellinum með ýmsum liðum og svo síðar meir í fitnesinu. „Ég gaf það út eftir síðasta mót í apríl að nú væri komið gott í fitnesinu og að elsti sonurinn væri tekinn við, en maður á aldrei að segja aldrei. Það er erfitt að hætta því sem maður hefur áhuga á og gaman af, á meðan skrokkurinn er heill og fínn, þá er aldrei að vita nema gamli skelli sér í einhver mót,“ segir Jakob og bætir því við að það verði nú að veita þessum ungu strákum einhverja samkeppni og láta þá hafa fyrir hlutunum.
Jakob starfar hjá bandaríska sendiráðinu í Osló, þar starfar hann í öryggisvarðarsveit. Hann flutti til Noregs ásamt Ragnheiði kærustu sinni í byrjun júlí.
Jakob segist skila sínu í eldhúsinu, mest er hann þó á grillinu með kaldan á kantinum, að eigin sögn. „Ég verð þó að segja það að yndislega kærastan mín er miklu betri kokkur en ég, við höfum þó bæði gaman af að elda og hjálpumst mikið að, ég sé samt um uppvaskið,“ segir Jakob léttur í bragði.
„Ég elda mest kjúklingabringur, grilla þær mikið og set í eldfast mót eða steiki á pönnu. Það er einfalt að matreiða kjúllann og svo er hann hollur og góður. Ég elda líka mikið af súpum hérna heima og þar er humarsúpan a la Jakob efst á óskalistanum.
Hér er svo rétturinn sem Jakob ætlar að deila með lesendum Víkurfrétta:
Wok-lax að hætti Jakobs
Hráefni (fyrir 4):
600 g lax - beinlaus og roðlaus, skorinn í teninga.
4 vorlaukar, fínskornir.
1 rauð paprika, skorin í strimla.
1 stór rauðlaukur, skorinn í báta.
3 hvítlauksbátar, fínhakkaðir.
10 stórir ferskir sveppir, skornir í sneiðar.
100 g cashew hnetur.
3 msk soya-sósa.
1 msk sítrónusafi.
1 msk rifið ferskt engifer.
4 msk olía til steikingar.
Wok-sósa:
½ dl soya-sósa (kikkoman)
1 dl fiskisoð
1 tsk maizena mjöl
3 msk agave síróp
Matreiðsla:
Marinera laxinn í soyasósunni, sítrónusafanum og engifer í 10 mínútur.
Steikja fiskibitana þar til þeir eru gylltir á hverri hlið. Leggja þá svo til hliðar.
Wok steikja (á wok pönnu) allt grænmetið á háum hita í nokkrar mínútur, bæta svo laxinum og hnetunum við, hella sósunni yfir og hræra í nokkrar mínútur meðan allt blandast vel saman.
Borið fram með brúnum hrísgrjónum eða grófu hvítlauksbrauði.