Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 27. apríl 2004 kl. 12:28

Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja í Sandgerði

Kvennakór Suðurnesja heldur sína árlegu vortónleika í Sandgerði í kvöld þriðjudaginn 27. apríl kl. 20:30 í Safnaðarheimili Sandgerðis.

Efnisskrá er mjög fjölbreytt, en þar má nefna klassík gömlu meistaranna, íslensk og ungversk þjóðlög, létt dægurlög og gospel. 
Stjórnandi er Krisztina Kalló Szklenárné, undirleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir og á bassa Þórólfur Þórsson.

Kórinn hefur verið starfsamur í vetur og komið fram við ýmsa menningarviðburði.  Kórinn hóf starfsárið á því að syngja á Ljósanótt.  Haldnir voru tónleikar með Lögreglukór Reykjavíkur í Reykjanesbæ í haust og aðventutónleikar með Karlakór Keflavíkur.  Kórinn kom einnig fram við afhendingu Menningarverðlauna Reykjanesbæjar.  Í febrúar söng kórinn í Árbæjarkirkju á ljósahátíð Reykjavíkur ásamt fjórum öðrum kórum sem öllum er stjórnað af Krisztinu Kalló Szklenárné, stjórnanda kvennakórsins.  Þann 12. maí nk. verða svo sameiginlegir tónleikar með Kvennakór Garðabæjar í Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Kórinn undirbýr nú ferð til Ungverjalands í september, þar sem ráðgerðir eru tónleikar, m.a. ásamt ungverskum kvennakór, auk þess sem kórinn mun syngja við ýmis tækifæri þar í landi.  

Miðasala á vortónleikana verður við innganginn og er miðaverð kr.1500, en kr. 1000 fyrir eldri borgara. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.  Við hvetjum alla tónlistarunnendur til að láta þessa tónleika ekki fram hjá sér fara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024