Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 30. apríl 2003 kl. 11:24

Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja á morgun

Kvennakór Suðurnesja heldur vortónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 1. maí og þriðjudaginn 6.maí nk. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 bæði kvöldin. Einnig mun kórinn verða með tónleika ásamt Lögreglukórnum í Árbæjarkirkju í Reykjavík laugardaginn 3. maí kl. 17.00.Kórinn var stofnaður 22. febrúar 1968, og fagnar því 35 ára afmæli sínu þetta árið, en Kvennakór Suðurnesja er elsti starfandi kvennakór landsins. Þess má til gamans geta að við stofnun Landssambands íslenskra kvennakóra, Gígjunnar, þann 5. apríl sl. var Guðrún Karlsdóttir úr Kvennakór Suðurnesja kjörin fyrsti formaður sambandsins.
Kórinn fékk í haust til sín nýjan og mjög færan stjórnanda, Krisztinu Kalló Szklenárné, og hefur hún unnið mjög gott starf með kórnum. Um píanóundirleik á tónleikunum sér Geirþrúður Fanney Bogadóttir, og Sigrún Ósk Ingadóttir syngur einsöng.
Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt, þar er að finna bæði erlend og íslensk sönglög, klassísk verk meistaranna, negrasálma og söngleikjalög, og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við hvetjum Suðurnesjamenn og nærsveitamenn til að mæta og njóta góðrar kvöldstundar við ljúfa tóna Kvennakórsins.
Miðaverð á tónleikana er kr. 1500, en fyrir eldri borgara kr. 1000. Frítt inn fyrir 12 ára og yngri. Miðasala verður við innganginn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024