Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
Kvennakór Suðurnesja heldur vortónleika mánudaginn 16. maí í Bíósal Duushúsa í Reykjanesbæ og sunnudaginn 22. maí í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Hefjast tónleikarnir kl. 20 bæði kvöldin.
Kórinn tók þátt í landsmóti kvennakóra sem haldið var á Selfossi 29. apríl – 1. maí þar sem rúmlega 600 konur úr 23 kórum tóku þátt. Dagskrá tónleikanna litast aðeins af landsmótinu þar sem nokkur laganna sem sungin voru á landsmótinu eru meðal þess sem er í tónleikaskránni en þar má nefna Flóaperlur sem eru lög eftir tónskáld úr Flóanum; Í dag skein sól eftir Pál Ísólfsson, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson og Bahama eftir Ingólf Þórarinsson, auk hins fallega lags Angel eftir KK og ítalska lagsins Time to say goodbye eða Con te partirò sem söngvarinn Andrea Bocelli gerði vinsælt fyrir nokkrum árum. Á dagskránni verða einnig fleiri falleg íslensk og erlend lög sem og dægurlög í léttari kantinum, gospeltónlist, söngleikjatónlist og kirkjuleg verk. Það er því fjölbreytileikinn sem ræður för og eiga tónleikagestir von á góðri skemmtun.
Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er söngkonan Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir. Einnig leikur Eiríkur Rafn Stefánsson á trompet.
Miðaverð á tónleikana er kr. 1500, frítt fyrir 12 ára og yngri. Miðasala verður við innganginn.
Eins og áður sagði tók Kvennakór Suðurnesja þátt í glæsilegu landsmóti kvennakóra fyrir stuttu en það var Jórukórinn á Selfossi sem sá um framkvæmd mótsins að þessu sinni. Þetta var áttunda landsmót kvennakóra sem haldið hefur verið en þau eru haldin á þriggja ára fresti. Næsta landsmót verður haldið á Akureyri árið 2014 og mun kórinn væntanlega taka þátt þar. Þess má geta að Kvennakór Suðurnesja hélt landsmót í Reykjanesbæ árið 2002. Vorið 2012 ráðgerir kórinn að fara í tónleikaferð til Færeyja og er undirbúningur að hefjast fyrir þá ferð.