Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 10:45

Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja

Nú líður að vori og söngfuglarnir farnir að láta í sér heyra og sama er að segja um konurnar í Kvennakór Suðurnesja.  Kórinn mun halda tvenna vortónleika á næstunni, mánudaginn 27. apríl í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og miðvikudaginn 29. apríl í Bíósal Duushúsa í Reykjanesbæ og hefjast báðir tónleikarnir kl. 20.  Það verður alþjóðlegur blær yfir tónleikunum að þessu sinni því auk nokkurra íslenskra laga og syrpu úr Mamma Mia söngleiknum sem samanstendur af lögum með hinni sænsku ABBA sveit, mun kórinn flytja lög frá Filippseyjum, Rússlandi, Serbíu, Japan, Kenýa og Suður-Ameríku.
 
Það er nóg að gera hjá kórnum þessa dagana en hann söng við messu í Ytri-Njarðvíkurkirkju á sumardaginn fyrsta á 30 ára afmæli kirkjunnar.  Kórinn mun síðan syngja á Frístundahátíð í sal Listasmiðjunnar í Ásbrú (áður Vallarheiði) laugardaginn 25. apríl kl. 15, en kvennakórinn hefur fengið aðstöðu fyrir starfsemi sína í Listasmiðjunni ásamt fleiri hópum listamanna.  Einnig syngur kórinn á opnum degi hjá Keili sama dag kl. 15.30.

Stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikarar á tónleikunum verða Geirþrúður Fanney Bogadóttir á píanó, Jón Árni Benediktsson á bassa og Þorvaldur Halldórsson á trommur.

Það er fátt betra til að létta lundina á erfiðum tímum en tónlist og er það reynsla kórkvenna að söngurinn og félagsskapurinn í kórnum sé góð leið til að gleyma áhyggjum hversdagsins og auka vellíðan.  Með þetta að leiðarljósi er áhersla lögð á létta og skemmtilega tónlist á tónleikunum og til þess að leggja sitt af mörkum svo að sem flestir getið notið þess að lyfta sér aðeins upp býður kvennakórinn ókeypis aðgang á tónleikana.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024