Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur
Mánudagur 4. maí 2015 kl. 08:51

Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur

verða í Hljómahöll í kvöld og 6. maí.

 

Það er margt sem minnir á komu vorsins þó svo að veðrið minni helst á einhverja aðra árstíð núna um mundir. Einn af þessum vorboðum eru vortónleikar Karlakórs Keflavíkur. Þeir eru fastur liður í vorkomunni og menningarlífinu hér á Suðurnesjum. Að þessu sinni verða vortónleikarnir í Hljómahöllinni dagana 4. og 6. maí og hefjast þeir kl. 20:30. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að venju er efnisskráin metnaðarfull og fjölbreytt, frá hefðbundnum íslenskum og erlendum karlakóralögum yfir í popp. Í efnisskránni eru fjölmörg lög eftir tónskáld frá Suðurnesjum og er ástæða þess að kórinn hefur í vetur unnið að undirbúningi fyrir hið svokallaða Kötlumót sem haldið verður í Reykjanesbæ í október. Á Kötlulmótum koma karlakórar af Suður- og Vesturlandi saman og flytur hver kór sína dagskrá auk þess sem að allir kórarnir sameinast á stórtónleikum sem haldnir verða í Atlantic Studios. Meginþema Kötlumótsins verður tónlist sem samin hefur verið af Suðurnesjamönnum og er tilgangurinn að kynna gestum mótsins það sem héðan kemur.

Söngstjóri Karlakórs Keflavíkur er Guðlaugur Viktorsson sem tók aftur við stjórnartaumunum sl. haust eftir tveggja ára fjarveru. Einsöngvarar með kórnum eru Kristján Þ. Guðjónsson, Ingólfur Ólafsson og Sólmundur Friðriksson. Undirleikarar eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir á píanó og Jón Rafnsson á bassa. Karlakórinn lofar góðri skemmtun bæði kvöldin og hvetur tónelskandi Suðurnesjafólk til að láta sjá sig.