Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur
Vortónleikar Karlakórsins verða haldnir í Ytri-Kjarðvíkurkirkju þriðjudaginn 3.maí og fimmtudaginn 5.mai n.k. og hefjast kl. 20:30 bæði kvöldin.
Þótt enn sé vorhret á glugga er orðið tímabært að kórinn hefji upp raust sína eins og hann hefur gert óslitið á hverju vori í tæp 60 ár.
Vetrarstarf Kórsins hefst að venju í ágústlok þegar undirbúningur fyrir ljósanótt hefst en ljósanætursöngurinn markar upphafið að vetrarstarfi kórsins.
Í október tók kórinn þátt í kóramóti sunnlenskra karlakóra sem haldið var á Flúðum í Hrunamannahreppi. Kóramótin eru einn af hápunktunum í starfi karlakóranna þar sem hver kór syngur nokkur lög og svo sameinast allir kórarnir, að þessu sinni rúmlega 500 kórmenn í kröftugum samsöng. Sannarlega mikil upplifun fyrir alla þá sem sækja þessi mót, bæði kórmenn og tónleikagesti.
Í desember söng kórinn á jólatónleikum með Siggu Beinteins í Keflavíkurkirkju, kraftmikill söngur í bland við hátíðleikann sem tilheyrir jólunum.
Karlakórinn hélt svo eigin aðventutónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju og líklegt er að það verði framvegis ein af hefðunum í starfsemi kórsins.
Frá áramótum hefur kórinn einbeitt sér að undirbúningi væntanlegra vortónleika. Efnisskráin verður að vanda fjölbreitt en megin áherslan verður á íslensk þjóðlög og alþýðutónlist.
Stjórnandi kórsins er Guðlaugur Viktorsson en hann hefur stjórnað kórnum síðustu 6 ár.
Undirleikari er Jónas Þórir og einsöngvari er Davíð Ólafsson.
Með kveðju um gleðilegt sumar.
Guðjón Sigbjörnsson form. K.K.K.