Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vorboðinn ljúfi
Miðvikudagur 12. apríl 2017 kl. 06:00

Vorboðinn ljúfi

- Lokaorð Sævars Sævarssonar

Fyrir ansi marga Suðurnesjamenn er úrslitakeppnin í körfubolta fyrsti vorboðinn. Nú eru fjögurra liða úrslit í fullum gangi og þar standa karlalið Grindavíkur og kvenna- og karlalið Keflavíkur í ströngu. Það sem vakið hefur hvað mesta athygli við úrslitakeppnina þetta árið, fyrir utan það að Amin Stevens, besti leikmaður Domino´s deilarinnar, er tengdasonur Sveins Andra Sveinssonar, er sú staðreynd að Sláturhúsið er aftur orðið það íþróttahús á Íslandi þar sem stemmningin er mest. Leik eftir leik halda „pepupsquadbois“, eins og hópurinn kallar sig, uppi slíkri stemmningu að þakka má almættinu fyrir að hið hripleka þak TM-hallarinnar haldi. Það besta við þennan öfluga hóp stuðningsmanna er að þó einstaka pillum sé skotið á stuðningsmenn og leikmenn andstæðinganna er krafturinn, sem nota mætti til að knýja öll 370 stóriðjuverin í Helguvík, aðallega nýttur á jákvæðan og uppbyggilegan hátt til stuðnings Keflavíkurliðunum.

Auðvitað vonumst við eftir því að þessi veisla haldi áfram og að öll ofangreind lið komist í úrslit. Þar á karlaliðið Keflavíkur auðvitað erfiðasta verkið fyrir höndum. Þeir þurfa að leggja eitt best mannaða lið allra tíma af velli á þeirra sterka heimavelli. Allt er þó hægt og með þessum stuðningi og þeirri baráttu sem liðið hefur sýnt undanfarið getur allt gerst. Til að auka þann möguleika hef ég auk þess farið þess á leit við Erlu Guðmundsdóttur, sóknarprest í Keflavíkurkirkju, að hún biðli til sóknarbarna sinna að enda Faðirvorið með neðangreindum hætti, en þetta kemur úr smiðju Atla Fannars Bjarkasonar, ritstjóra Nútímans:
„Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, AMIN“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024