Vonin heldur mér gangandi
Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein á lífsleiðinni. Krabbamein eru fátíð undir 40 ára aldri og meira en helmingur allra krabbameina greinist eftir 65 ára aldur. Tölfræði krabbameina á Íslandi segir okkur að á árunum 2012–2016 greindust að meðaltali árlega 813 karlar og 764 konur með krabbamein. Yfir fjórðungur dánarmeina er af völdum krabbameina. Fimm ára lífshorfur krabbameinssjúklinga hafa meira en tvöfaldast frá því að skráning krabbameina hófst á Íslandi árið 1954.
Bleika slaufan
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna. Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttu gegn krabbameini hjá konum. Októbermánuður, bleiki mánuðurinn, er tileinkaður vitundarvakningu þar sem sjónum er beint að krabbameini hjá konum. Í bleikum október minnumst við einnig þeirra sem dáið hafa úr krabbameini.
Keflavíkurkirkja var ein af fyrstu kirkjum landsins sem lýst var upp með bleikum lit í október til þess að minna á krabbamein kvenna. Bleikar messur hafa verið haldnar þar í mörg ár en þetta árið ákváðu séra Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur við Keflavíkurkirkju, og séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir, prestur við Njarðvíkurkirkju, að sameina kirkjurnar í bleikri messu ásamt Krabbameinsfélagi Suðurnesja í bleikum október.
Tumi var hetjan mín
Kirkjan var þéttsetin þetta sunnudagskvöld og kirkjugestir fengu að njóta fallegs kórsöngs sönghópsins Vox Felix undir stjórn Arnórs Vilbergssonar. Efnisval kórsins var mjög viðeigandi bæði fyrir og eftir vitnisburð Sigrúnar Þorsteinsdóttur Holt aðstandanda en eiginmaður hennar Tumi Hafþór Helgason lést úr krabbameini 8. ágúst árið 2017.
„Við ákváðum að vera ekki hrædd þegar Tumi fékk greiningu rétt fyrir jól árið 2015. Hann hafði verið hjá sjúkraþjálfara vegna bakverkja en svo ákvað læknirinn að senda hann í myndatöku og eitt leiddi af öðru. Æxli fannst í bakinu en endanleg greining kom ekki fyrr en í lok janúar 2016. Hann hafði greinst með Hodgkins-eitilfrumukrabbamein þrjátíu árum áður en verið tiltölulega frískur. Hann var fimmtugur þegar hann dó. Banameinið var út frá lungnakrabbameini en hann hafði reykt áður en var hættur. Tumi var hetjan mín í gegnum allt veikindaferlið. Það var hann sem talaði í okkur kjark. Aldrei gafst hann upp. Við höfðum verið gift í þrjátíu ár þegar hann lést og eignast fjögur börn. Þetta ár síðan hann lést hefur verið mjög erfitt fyrir okkur öll, bæði mig og börnin því er ekki hægt að leyna en vonin heldur mér gangandi í dag,“ segir Sigrún sem talar opinskátt fyrir framan kirkjugesti um hvernig þetta ár hafi gengið frá því að eiginmaður hennar og faðir barna þeirra og barnabarna lést.
Ómetanleg hjálp frá Krabbameinsfélagi Suðurnesja
„Við höfum fengið ómetanlegan stuðning frá Krabbameinsfélagi Suðurnesja en þangað hefur verið mjög gott að leita. Starfsfólkið þar hefur sýnt hlýhug og Rósa djákni veitti okkur einnig stuðning á erfiðum tímum. Þau hafa öll hjálpað mér mjög mikið. En þegar Tumi var í dauðastríðinu vorum við mikið ein, óörugg og afskipt. Þá sá ég hvað maður þurfti að vera sterkur og standa í fæturna fyrir alla aðra og spá ekkert í sjálfum sér. Ég áttaði mig á því eftir andlát Tuma míns að ég var ótrúlega þreytt og hafði gengið á eigin heilsu. Maður finnur það ekki fyrr en eftir á. Ég hefði viljað hafa betri heilbrigðisþjónustu og finnst kerfið hefði mátt halda betur utan um okkur aðstandendur. Allt starfsfólkið vildi allt fyrir okkur gera en ég er ósátt við kerfið hvernig eftirfylgni við aðstandendur er engin og heldur ekki mikill stuðningur við þá í gegnum veikindaferlið eða eftir andlátið. Það tekur tíma að vinna úr sorginni og börnin eiga sínar erfiðu stundir í skólanum þar sem sorgin blossar upp allt í einu. Stundum finnst manni að fólk haldi að eftir þrjá mánuði þá eigi allir að vera búnir að jafna sig en svo er ekki. Sorgin þarf sinn tíma,“ segir Sigrún.
Sorgin er sársaukafull. Ástvinamissir er eitt erfiðasta áfallið sem við verðum fyrir og það er engin auðveld leið til að halda áfram. Við gætum reynt að forðast sársaukann, komast sem fyrst í gegnum sorgina en það er ekki hægt. Við verðum að finna hugrekki til að lifa með sorginni. Með tímanum minnkar sársauki sorgarinnar.
„Við höfum fengið ómetanlegan stuðning frá Krabbameinsfélagi Suðurnesja en þangað hefur verið mjög gott að leita“
Lífið heldur áfram
„Ég ber ábyrgð á eigin lífi. Ég vil vera jákvæð og auðmjúk gagnvart lífinu. Þegar ég áttaði mig á því að ég hefði leyfi til að brosa aftur þá var það einskonar uppgötvun. Ég fékk einhvern kraft til þess að taka valdið í eigin hendur, að velja að láta mér líða vel aftur. Ég er skipstjóri í eigin lífi og ræð hvernig ég ætla að takast á við hugsanir mínar og púkann á öxlinni sem dregur úr mér og segir mér að ég geti ekki þetta eða hitt. Ég hendi þessum púka burt! Nú tek ég ákvörðun á hverjum degi um að halda áfram, að vera glöð og jákvæð. Það er þvílíkur léttir að leyfa sér að brosa á ný, að gleðjast á ný því lífið heldur áfram og ég veit að Tumi minn hefði viljað það. Nú langar mig að kveikja á kerti fyrir voninni og til minningar um alla þá sem hafa látist úr krabbameini og fyrir þá sem eru að berjast við krabbamein,“ segir Sigrún og gengur að altarinu, kveikir á hvítu stóru kerti og sest að því loknu í stólinn sinn. Falleg athöfn og efalaust dýrmætt fyrir marga að fá að heyra einlæga frásögn Sigrúnar þetta kvöld.
Vonin miðar á framtíðina
Bæði Sigrúnu og prestunum tveimur var tíðrætt um vonina þetta kvöld. Séra Brynja fjallaði um að rækta með sér hugarfar vonarinnar: „Von. Þessir þrír bókstafir og þetta litla orð sem er samt svo stórt. Vonin á alltaf að vera með okkur. Við þurfum að eiga þetta ljós sem lýsir upp svartnætti hugans. Von er vænting um betri tíð. Vonin miðar á framtíðina. Vonin felur í sér ósk, þrá og bæn. Vonin færir okkur nýjan kraft og viljanum vængi. Við höfum trúna og vonina í erfiðum aðstæðum í lífi okkar. Við verðum að halda í vonina um að útkoman verði okkur alltaf góð.“
„Við höfum trúna og vonina í erfiðum aðstæðum í lífi okkar“