Vogarnir falin perla
-Daníel Arason var nýlega ráðinn menningarfulltrúi í Vogum
Daníel Arason var nýlega ráðinn menningarfulltrúi í Vogum. Hann mun einnig hafa umsjón með félagsstarfi eldri borgara ásamt því að sinna málefnum ferðaþjónustunnar. Daníel er fæddur og uppalinn í Neskaupsstað en hefur víða komið við á Austurlandi. Hann er menntaður tónlistarmaður og viðskiptafræðingur, auk þess er hann með mastersgráðu í mennta og menningastjórnun.
Daníel var skólastjóri Tónlistaskólans á Egilsstöðum undanfarin ár en elti svo konuna sína suður.
„Við ætluðum að vera eitt ár í fjarbúð sem urðu að fjórum. Við fengum svo nóg af því og ég ákvað að taka slaginn og flytja suður. Ég sé sannarlega ekki eftir því.
Daníel hefur verið organisti lengi vel en hann lærði á píanó. Hann segist þó vera spilfær á mörg hljóðfæri. „Það fylgir því að vera tónlistarkennari úti á landi. Frá fermingaraldri hefur hann verið að gutla í ýmsum hljómsveitum. „Við Einar Ágúst vorum saman í hljómsveitinni Óson sem guttar. Bandið var einmitt að koma saman aftur eftir hlé frá 1995. Við segjum alltaf að við höfum kennt honum allt sem hann kann,“ segir Daníel léttur í bragði.
Grundvöllur fyrir safni í Vogana
Daníel viðurkennir að hann hafði aldrei komið í Vogana áður en hann réð sig til starfa. „Ég var þannig í hópi með ansi mörgum landsmönnum þar sem Vogarnir eru ennþá falin perla fyrir þeim. Ég hélt að þetta væri mun minna samfélag ef ég á að segja eins og er. Það hefur því komið mér á óvart hvað þetta er flott bæjarfélag og margt hér í gangi. Umhverfið er aðlaðandi og nálægðin við sjóinn. Það er sérstaklega vel búið að eldri borgurum hérna, ég veit ekki til þess að sveitafélög leggi félagsstarfi eldri borgara til starfsmann. Það finnst mér metnaðarfullt,“ segir Daníel og bætir við að í bænum séu mörg virk félagasamtök.
Daníel segist tengja við hugsunarhátt fólksins hérna á svæðinu enda séu hans heimahagar ekki svo ólíkir. Á báðum stöðum snerist allt um sjósókn og vertíðir sem mótar að vissi leyti samfélagið. „Ég get þó ekki vanist því þegar ég er að keyra hérna að hér eru engin fjöll eins og fyrir austan,“ segir hann og hlær.
Framundan er Safnahelgi í Vogum og hefur Daníel í nógu að snúast við undurbúning hennar. „Ég ákvað að forvitnast um hvort það lægju ekki söfn hérna hjá heimafólki. Það reyndist vera og verða þau gestum til sýnis á Safnahelgi. Kannski vantar okkur safn hérna í Vogana. Það getur vel verið að grundvöllur sé fyrir því svona þegar ég fer að skoða þörfina. Hér er t.d. safn af fornbílum. Svo hefur alltaf verið mjög mikil útgerð á Vatnsleysuströnd sem gæti verið vert að halda á lofti.“