Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vissi alltaf að hún myndi vinna með ungmennum
Gunnhildur Gunnarsdóttir hefur verið forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins síðustu þrjú ár. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 1. nóvember 2020 kl. 07:47

Vissi alltaf að hún myndi vinna með ungmennum

Líf, fjör og uppbyggilegt starf Fjörheimum og 88 húsinu

Gunnhildur Gunnarsdóttir er 27 ára uppeldis- og menntunarfræðingur, hún er fædd og uppalin í Keflavík. „Er alger Keflvíkingur – en bý að vísu í Innri-Njarðvík núna,“ segir hún og hlær. Gunnhildur hefur verið forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins síðustu þrjú ár og á þeim tíma hefur starfsemi félagsmiðstöðvarinnar vaxið og dafnað – „Enda hef ég alveg frábært starfsfólk sem er harðduglegt og uppfullt af skemmtilegum hugmyndum.“

Gunnhildur gekk í Heiðarskóla, þaðan fór hún í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og áður en hún skráði sig í háskólanám fór hún sem Au Pair til Washington DC í eitt ár.

„Þegar ég var nítján ára var ég í tæpt ár sem Au Pair hjá íslenskri fjölskyldu í Bandaríkjunum, yndislegri konu sem átti sjö mánaða gamla stelpu. Það var ótrúlega skemmtilegt að prófa þetta og mjög dýrmæt upplifun í reynslubankann. Ég hafði alltaf einhverja ævintýraþrá og þetta ár í Washington náði að svala henni. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Öll mín störf hafa verið með börnum, alveg síðan ég byrjaði í vinnuskólanum og heimtaði að fá að vera með í leikjanámskeiðunum í staðinn. Ég hef unnið á leikskóla, í grunnskóla – ég held að ég hafi verið í fimmta bekk byrjaði að passa. Þannig að ég vissi alltaf að myndi vinna með börnum eða ungmennum, það lá alltaf vel fyrir. Ég var samt ekki alveg viss hvaða leið ég ætlaði að fara og svolítið með kennarann á bak við eyrað. Fólk talar oft um það að þetta komi allt í einu, að það renni upp fyrir manni hvað maður ætlar að velja, og það gerðist akkúrat þannig á meðan ég var þarna úti. Einn daginn ákvað ég að sækja um í háskóla og skráði mig í kennarann en svo áttaði ég mig á því að uppeldis- og menntunarfræði væri líklega betri kostur því það opnaði svo margar dyr fyrir mig – og það færði mér þetta starf.“

Rambaði á draumastarfið

„Ég var búin að vinna hér í félagsmiðstöðinni í eitt ár þegar þessi staða losnaði og ég var ráðin. Það má alveg segja að ég sé komin í draumastarfið mitt,“ segir Gunnhildur. „Ég var komin með smá reynslu því ég hafði leyst af sem forstöðumaður frístundaheimilisins í Myllybakkaskóla og sú reynsla hefur nýst mér ótrúlega vel. Ég er náttúrlega ótrúlega ánægð hér, það eru þvílík forréttindi að vinna þannig vinnu að maður sé spenntur að mæta í hana á hverjum degi.

Við höfum verið dugleg að auglýsa hvað sé að gerast hér hjá okkur og það hefur skilað sér. Við fylgjumst með hverjir eru að mæta og hverjir ekki. Við erum í góðu samstarfi við skólana svo við förum bara í þá skóla sem okkur finnast krakkarnir ekki skila sér og kynnum starfið fyrir þeim. Það var eins og fólk hafi ekki alveg vitað hvað við vorum að gera í þessu húsi.“

Fjölbreytt starfsemi

– Og hvað er það eiginlega sem fer fram hérna?

„Við vitum að það eru ekki öll börn í íþróttum, íþróttir eru ekki fyrir alla, en hér bjóðum við upp á markvisst tómstundastarf sem börn og ungmenni geta stundað. Það er alveg frábært fyrir krakkana að tilheyra einhverjum hópi, að mæta markvisst og taka þátt í einhverju starfi. Þetta er mikil forvörn því við viljum ekki að þau hýrist ein heima.

Hér er margskonar uppbyggilegt hópastarf í gangi, núna eru starfandi hér þrír klúbbar. Það er hjólabrettakennsla sem er gífurlega vinsæl og fyrir allan aldur. Fullt af krökkum sem hefur rosalega gaman af þessu – og inn í þetta bætist líka við listsköpun. Þau eru líka að skapa list úr gömlum efnivið, sem dæmi breyta þau gömlum hlaupabrettum í listaverk eða pallettum í bekki. Þetta er meira en bara hjólabrettakennsla.

Svo erum við með klúbb sem heitir Spjöllum saman. Það er stór klúbbur sem vinnur með starfsmönnum við að finna hvað sé þeirra ákall um fræðslu, þar er sett upp dagskrá út frá því hvað ungmennin vilja fræðast um. Þar er líka eitthvað sem við köllum Trúnó, sem er box þar sem krakkarnir geta skrifað inn nafnlausar spurningar sem við starfsfólkið reynum að svara eftir bestu getu. Þetta er líka góð forvörn því við vitum að það getur verið erfitt að vera unglingur með margar spurningar sem hann þorir ekki að spyrja. Þetta er góður vettvangur til að spjalla um þær enda alger trúnaður sem ríkir í þessum hópi.

Listaklúbbur er líka starfræktur hérna og mjög vinsæll. Hann er alger fagmaður sem stýrir þeim klúbbi, er með háskólagráðu í listum og gerir alls konar hluti með krökkunum. Það er mjög gaman hvað styrkleikar starfsfólksins nýtast vel á hinum ýmsu sviðum og þau fá að skína.

Hér er alltaf skipulögð dagskrá en líka opið hús, það eru ekkert allir sem vilja taka þátt í öllu klúbbastarfi. Hér geta krakkarnir líka sest niður og hitt hvert annað – hangið saman. Það er mjög algengt og ég segi líka við krakkana að vinahópurinn þarf ekki að hanga heima í litlu herbergi, komið hingað til okkar í þessa frábæru aðstöðu sem er hér. Líka þeir sem eru einir, endilega koma hingað.“

Rafrænir Fjörheima

Á þessum veirutímum hafa Fjörheima nýtt sér netið að eitthverju leyti til að halda úti starfinu.

„Þetta er búið að vera svolítið erfitt því við viljum auðvitað ekki hópa saman krökkum úr öllum grunnskólunum hérna í einu. Við þurftum að loka fyrir rúmri viku síðan og þá tókum við aftur upp rafræna félagsmiðstöð, það var líka gert í fyrri bylgjunni.

Þar sem við vorum búin að gera þetta áður þá var starfsfólkið hérna tilbúið með alls konar hugmyndir svo það var ótrúlega gaman að setja upp dagskrána fyrir rafrænu félagsmiðstöðina. Það sem við lögðum áherslu á var að reyna að halda allri dagskránni okkar og klúbbastarfinu sem við bjóðum upp á – á netinu. Spjöllum saman-hópurinn hefur hist á zoom-fundi og tekið spjallið þar, hjólabrettastrákarnir eru búnir að setja saman kennslumyndbönd sem krakkarnir geta fylgt og lært ný „trikk“. Sama með listaklúbbinn, hann er búinn að gera listamyndbönd sem krakkarnir geta fylgt eftir.

Tómstundabingó er annað sem við útbjuggum með miðstigið í huga. Því er ætlað að hvetja krakkana til að vera virk og nýta frítíma sinn til að hreyfa sig, læra eitthvað nýtt, hjálpa til heima, fara út í göngutúr, taka þátt í starfinu okkar og þess háttar. Mjög sniðugt. Við leggjum áherslu á þrennt í þessu bingóinu, það er hreyfing, samvera með fjölskyldu og jákvæð samskipti.

Við vonum og trúum því að þetta geri þeim gott. Það er betra að virkja börnin en að þau séu heima að velta sér of mikið upp úr Covid og byggja um kvíða.“

Unglingalýðræði

Í félagsstarfinu er auðvitað unglingalýðræði og í Fjörheimum er starfandi unglingaráð sem hittist í hverri viku og planar starfið með starfsfólkinu. „Það getur verið svolítil kúnst að samþætta hugmyndir þeirra og okkar. Unglingaráðið er elsta stigið, krakkar í áttunda til tíunda bekk, og þau taka mikinn þátt í að skipuleggja og undirbúa það sem við gerum hérna. Í unglingaráðinu eru fulltrúar frá hverjum einasta skóla, fimmtán krakkar.

Við gerum fleira en að funda með unglingaráðinu, eins og í fyrra fórum við í ungmennaskipti til Finnlands og það þótti þeim spennandi. Svo fórum við í vor í skemmtiferð á Akureyri en við horfum á þetta sem hópefli líka. Ef við horfum á íþróttafélögin þá eru krakkarnir að fara með félögunum sínum í æfinga- og keppnisferðir til útlanda, af hverju ættum við ekki að gera þetta líka hér? Það er gott að geta boðið þeim upp á sömu tækifæri hvað það varðar.

Við starfsfólkið höfum verið að reyna fyrir okkur á TikTok eftir áskoranir frá unglingaráðinu. Þar höfum við verið að gera alls konar dansa og þess háttar og þurft að stíga svolítið út fyrir þægindarammann – en það er bara gaman. Svo höfum við verið með Mythvikudaga á Instagram þar sem við erum að afsanna fyrir krökkunum ýmsar mýtur, eins og þriggja sekúndna regluna. Þó matur detti á gólfið þá er ekki í lagi með hann þótt hann sé tekinn upp innan þriggja sekúndna, sýklarnir bíða ekki og telja upp á þremur áður en þeir stökkva á matinn.“

Enginn dagur eins

„Ein erfiðasta spurning sem ég hef fengið var: „Hvernig er venjulegur dagur hjá ykkur?“ Ég gat bara ekki svarað því, hér er enginn dagur venjulegur. Ég hef lært svo margt á þessum tíma hér og þurft að fást við svo margt, alls konar vandamál sem koma upp. Það eru mörg krefjandi verkefni sem við fáum að taka þátt í með krökkunum, það er alveg frábært. Hingað í Fjörheima koma krakkar úr öllum grunnskólunum, svo er 88 húsið fyrir þá sem eru sextán ára og eldri. Aðsóknin er mikil og þátttaka í klúbbastarfinu mjög góð,“ segir Gunnhildur í lokin. Það heyrist á henni að innlifunin er mikil og hún nýtur þess að vinna við draumastarfið.

Út fyrir þægindarammann

Starfsfólk Fjörheima og 88 hússins fengu áskoranir frá unglingunum um að fara á TikTok og þau skoruðust ekki undan því. „Við erum búin að vera að prófa okkur áfram í einhverjum TikTok-dönsum,“ segir Gunnhildur og hlær. „Svo senda þau inn og taka þátt í þessu með okkur, þannig að það eru margir sem eru að fara vel út fyrir þægindarammann sinn.Það er búið að vera ótrúlega mikið stuð á okkur starfsmönnunum og við erum örugglega búin að hafa okkur að miklum fíflum – og hlægjum örugglega mest að því sjálf. Það er svo gaman og vonandi hafa krakkarnir líka gaman af því.Við eru líka búin að vera með Fjörfréttir á Instagram. Þar erum við búin að setja upp fréttatíma þar sem við segjum fréttir úr félagsmiðstöðinni og reynum að koma inn á háværar fréttir úr samfélaginu líka. Svo er stefnan að byrja með podcast.Við leggjum mikið upp úr því að við starfsmenn erum fyrirmyndir þess vegna tökum við þátt í því sem krakkarnir eru að gera. Börnin líta upp til okkar og hér eru þau til að nýta tímann á uppbyggilegan hátt undir leiðsögn fagaðila og fyrirmynda, sem er svo frábært.“

Horfa á Fjörfréttir
View this post on Instagram

Fjörfréttir á sýnum stað þessa vikuna.

A post shared by Fjörheimar Félagsmiðstöð (@fjorheimarfelagsmidstod) on

Fjörheimar / 88 húsið

Í Fjörheimum og 88 húsinu er tvískipt starfsemi. „Fjörheimar er félagsmiðstöð fyrir grunnskólakrakka en í 88 húsinu er rekið félagsstarf fyrir ungmenni, sextán ára og eldri. Þar eru haldin spunaspilakvöld, prjónakvöld, svo erum við með stúdíó þar sem hljómsveitir geta æft og tekið upp tónlist.“

Rafíþróttir í Fjörheimum

Nýstofnuð rafíþróttadeild Keflavíkur hefur fengið aðstöðu í húsnæði Fjörheima. „Framundan hjá okkur er að taka inn rafíþróttir. Það er herbergi tilbúið, búið að smíða borð, og nú bíðum við bara eftir tölvunum. Það er mjög spennandi og ég er mjög hlynnt því að börnin séu ekki heima að einangra sig í tölvunni. Að þau fari út, komi hingað og hitti aðra sem eru að gera það saman. Að taka spjallið, eiga samtalið og þjálfi sig í samskiptum. Að þau læri að temja sér hóf og það sé einhver aðili með þekkingu sem sé að stýra þessu, sé að halda utan um þetta starf. „Hefðbundnar“ íþróttir eru ekkert fyrir alla og þess vegna er svo mikilvægt að þau geti stundað markvisst tómstundastarf hér.“

Fyrir hinsegin krakka

Hinsegin Plútó er hópur fyrir hinsegin krakka á Suðurnesjum sem eru á aldrinum tólf til sautján ára. Hópurinn býður ungmennunum upp á fræðslu, stuðning og samveru þar sem fullur trúnaður ríkir. Krakkarnir þurfa ekki að vera hinsegin til að mæta í hópastarfið, allir eru velkomnir. Sumir krakkar eru óvissir um hvort þeir séu hinsegin og það er tekið vel á móti þeim, einnig er velkomið að taka vin eða vinkonu með sér til að styðja sig.

„Það getur verið erftitt að koma út úr skápnum og segja foreldrum, fjölskyldu og vinum. Þá er gott að fá stuðning frá öðrum hinsegin krökkum og vita að það eru fleiri í sömu sporum og þú. Það er gott að kynnast einhverjum sem veit hvernig þér líður.“ (fjorheimar.is)

Hinsegin Plútó

„Við erum svo heppin að Guðrún [María Þorgeirsdóttir] og Ragnar [Birkir Bjarkarson] stýra hópnum Hinsegin Plútó, í rauninni var það hugmynd sem kom frá þeim. Þau voru bæði að vinna í Akurskóla og komu og að máli við mig því þeim fannst vanta hóp fyrir fólk sem er í þessum pælingum. Við vorum náttúrlega mjög ánægð með framtakið og þau stofnuðu þennan hóp sem hefur aðstöðu í húsnæðinu okkar,“ segir Gunnhildur.