Vísir að fluggarði í Grindavík
Vegfarendur um Víkurbraut í Grindavík hafa undanfarið veitt athygli listaverki nokkru í húsagarði við götuna. Þar má sjá nokkuð stóra Concord þotu hefja sig til flugs, tígulega að sjá. Þotan er smíðuð úr tré en skapari hennar er handverksmaðurinn Þórarinn Sigvaldason, sem býr í umræddu húsi. Þórarinn, eða Tóti eins og hann er kallaður, er þekktur af smíði stórgripa en hann tilheyrir handverkshópnum Einstakir, sem m.a. hefur unnið það sér til frægðar að smíða risastóran Fender-gítar sem afhjúpaður var á Ljósanótt í fyrra á poppminjasýningunni í Duushúsum.
Tóti segir hugmyndina að Concord-þotunni hafa komið á smíðanámskeiði sem hann sótti. Þar gerði hann líkan af Hallgrímskirkju en formið á framhlið hennar svipar mjög til Concord þotu væri hún reist upp á endann. Á girðinguna við lóðina hefur Tóti komið fyrir skýringarskilti þar sem lesa má fróðleik umConcord-þoturnar og segir hann að verkið sé vísir að fluggarði sem hann hefur áhuga á að koma upp í garðinum við heimili þeirra hjóna og geyma mun nokkrar helstu flugvélar flugsögunnar. Hann er þegar byrjaður á næstu flugvél í safnið en það mun vera Douglas DC-3.
Það verður eflaust skemmtilegt að sjá fluggarðinn þróast en annars eru þeir félagar í Einstökum með margt á prjónunum. Á meðal verkefna er smíði á öðrum stórgrip sem afhjúpaður verður á Ljósanótt eins og gítarinn góði. Það verður þó ekki upplýst fyrr en þar að kemur hver gripurinn er en óhætt er að segja að hann verður einkar forvitnilegur.
Efri mynd: Tóti við Concord þotuna sem sómir sér vel í garðinum við Víkurbraut.
Neðri mynd: Á skýringaskilti geta vegfarendur lesið fróðleik um Concord-þoturnar, sem fljúga ekki lengur um loftin blá. Fyrir nokkrum árum var flugi þessara hraðfleygu véla hætt eftir nokkur afdrífarík óhöpp.
VF-myndir: elg