Virkjunardagurinn á laugardag á Ásbrú
Virkjunardagurinn er dagur allra sem vilja stuðla að öflugu starfi í Virkjun. Vinir í velgengni (sjálfboðaliðar) og Virkjun standa að þessum gleðidegi með öflugum stuðningi frá Kadeco.
Fögnum komu sumarsins og tökum þátt í ódýrri skemmtun fyrir alla. Það er opið fyrir alla að koma og heimsækja Virkjun, kynnast starfinu sem þar fer fram og kynnast því hvað virknimiðstöð raunverulega er. Starfsemi Virkjunar er alltaf að aukast og er alltaf að verða öflugara og öflugara í stuðningi sínum við atvinnuleitendur og öryrkja á Suðurnesjum. Núna er tækifæri fyrir alla að koma og með smá framlagi er m.a. hægt að komast á stórtónleika og skemmtun í Andrews leikhúsinu. Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og fagna Virkjunardeginum.
Á Virkjunardaginn verður boðið upp á kynningar á starfinu, sýningar, sölubása, örfyrirlestra, töframann og fleira. Á svæðinu verður gos- og snakk-kynning. Einnig verða kaffiveitingar gegn vægu gjaldi.
Í lok dagsins verður síðan blásið til stórtónleika í Andrews leikhúsinu þar sem fram komi fjöldi listamanna, bæði aðfluttir sem innfæddir. KK, Mirra Rós, Bjarni Ara, Valdimar og Björgvin o.fl. spila á tónleikunum. Síðan verða einnig Daníel Örn töframaður og Alma Geirdal uppistandari og kynnir. Áætlað er að dagskemmtun hefjist kl. 12 en tónleikarnir hefjast kl. 16 og standi til kl. 18.
Virkjun mannauðs á Reykjanesi hóf starfsemi sína 15. janúar 2009 sem virknimiðstöð atvinnuleitenda á Suðurnesjum. Hlutverk Virkjunar er að auka virkni atvinnuleitenda og stuðla að því að koma þeim í uppbyggilegan farveg, svo þeir geti annað hvort farið af stað sjálfir með atvinnusköpun eða komist í starf þegar tækifæri opnast. Starfsemi virkjunar er einnig ætlað að fyrirbyggja félagslega einangrun og aðrar neikvæðar afleiðingar atvinnuleysis, og vera ein allsherjar virknimiðstöð. Virkjun hefur einnig að markmiði að efla hæfni og kunnáttu fólks til nýrra starfa, svo það geti nýtt tækifæri sem það annars hefði ekki skoðað. Flestir sem vinna í Virkjun eru sjálfboðaliðar.
Meginmarkmið Virkjunardagsins er tvenns konar. Annars vegar að auglýsa ofangreinda starfsemi Virkjunar og opna augu almennings og annarra atvinnuleitenda fyrir því hve öflug starfsemi er í Virkjun. Hins vegar að safna fjármunum og styrkjum til þess að tryggja rekstrarumhverfi og starfsemi Virkjunar mannauðs á Reykjanesi, en síðustu misseri hefur borið á samdrætti í styrkjum sem hefur mikil áhrif á rekstur Virkjunar.
Öll vinna við undirbúning og á Virkjunardaginn er í höndum sjálfboðaliða, Vina í velgengni eða kostuð af stuðningsaðilum. Tónlistarmenn og hljómsveitir gefa vinnu sína á tónleikunum. Hægt verður að nálgast miða í forsölu í Virkjun, sími 426-5388 og síðan einnig við innganginn hjá Andrews leikhúsinu.