Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Virkjum áhugahvöt og finnum styrkleika
Þorvarður Guðmundsson.
Sunnudagur 2. febrúar 2014 kl. 09:00

Virkjum áhugahvöt og finnum styrkleika

Fjölbreytt starf og ýmislegt sem kemur á borð.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.

Námsráðgjöf í Myllubakkaskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Þorvarður Guðmundsson hefur kennt við Myllubakkaskóla undanfarin fimm ár og sinnt starfi námsráðgjafa við skólann síðan í haust í hlutastarfi samhliða dönskukennslu. Verkefnum námsráðgjafa hefur verið dreift á fleiri en Þorvarð til þess að mæta þörfum nemenda sem best.


Koma og ræða málin

„Ég hef til dæmis séð um viðtöl vegna vanlíðunar, námsframmistöðu og námsframvindu. Svo hafa nemendur komið og rætt málin og sum mál eru svo rædd með foreldrum og bekkjakennurum,“ segir hann. Þá hefur Þorvarður kennt námstækni í elstu bekkjum skólans. Hann segist hafa vitað fyrir að starfið yrði fjölbreytt en ýmislegt komi á borð hans sem gefi því gildi, bæði gott og ekki eins gott.


Vangaveltur um framtíðina

Þorvarður segir að helst hafi komið til hans kasta mál sem tengist vanlíðan unglinga, t.d. vangaveltur þeirra um stöðu sína, bæði gagnvart námi og félögum. „Þau eru að pæla í hvað þau ætla að gera eftir grunnskóla, hvað þau geta og hvað þau þurfa að leggja á sig. Vangaveltur um framtíðina.“ Þá gangi starfið einnig út á að virkja áhugahvöt, hvernig þau geti betur staðið sig í námi og fundið styrkleika sína. Aðspurður um möguleg vandamál vegna hás hlutfalls nýbúa meðal nemenda í skólanum segir Þorvarður slík mál ekki hafa komið upp hjá sér. Þeim hópi sé svo vel sinnt í fjölþjóðadeildinni sem heldur vel utan um þau. „Ef eitthvað kemur upp með líðan eða t.d. með að hjálpa þeim með rafrænar bækur, hlustunarefni á netinu og svona, þá göngum við að sjálfsögðu í það. Þau eru annars mjög sjálfbjarga,“ segir Þorvarður.


Þeim á að líða vel hér

Hann er á þeirri skoðun að til þess að eiginlegt nám geti átt sér stað þurfi nemendum að líða vel í skólanum. Ef vanlíðan, kvíði eða vanmat eigi sér stað þá sé ekki mikið nám í gangi yfir höfuð. „Stefna okkar, óskrifuð og skrifuð, er að þeim líði vel. Við reynum að standa vörð um hag hvers og eins, bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og hlúa að nemendunum. Það er fullt tilefni til því kröfur samfélagsins, þessar óútskýrðu, um velgengni, útlit og slíkt, brenna svo mikið á unglingunum. Í viðtölum hefur komið fram að félagasamskipti eiga sér mikið stað á samfélagsmiðlum og í rafrænu spjalli. Þau hópast ekki lengur saman og spjalla,“ bendir Þorvarður á.


Horfa á málin með augum nemenda

Að sögn Þorvarðar glíma margir unglingar við ýmis mál sem reynast þeim erfið. Því sé það mikilvægt að horfa á málin með þeirra augum. Stundum leysast vandamálin við það að þau séu rædd en stundum þarf að vísa málunum áfram og til þess hefur skólinn sálfræðing sem hefur viðveru í skólanum einu sinni í viku og vinnur svo úr málunum þess á milli. Nemendur eru ávallt velkomnir til Þorvarðar og banka oft upp á. „Stundum hitta þau mig á göngunum og spyrja hvort þau megi koma. Þau eru með frjálsan aðgang að mér. Ég hef náð að sinna því sem á mitt borð hefur komið. Mér er afar mikilvægt að kenna nemendum gildi menntunar og að þau finni sína hvöt þegar þau velja sér náms- eða starfsvettvang. Líti ekki á launin sem aðalatriði eða láti undan þrýstingi annarra,“ segir Þorvarður að lokum.

 
VF/Olga Björt