Vírdós - tónlistarhátíð óvenjulegra hljóðfæra
Fab Lab er stafræn sköpunarsmiðja og hefur fengið góðar viðtökur. Opnaði fyrr á þessu ári í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja
„Það er hægt að framkvæma nánast allar óskir, ég hef aldrei vísað neinum í burtu án þess að viðkomandi væri kominn með einhverja leið að hugmynd sinni,“ segir Vilhjálmur Magnússon, verkefnastjóri hjá Fab Lab á Suðurnesjum en á föstudaginn milli kl. 13 og 17 mun Fab Lab vera með sýningu á hljóðfærum sem hönnuð eru og smíðuð á staðnum, m.a. í þrívíddarprenturum. Sýningin fer fram í húsnæði Fab Lab í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory, sem er eins konar framleiðslu tilraunastofa. Fab Lab á rætur sínar að rekja til Center for Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir stofnun Fab Lab var að gefa almenningi kost á að prófa þessa nýju stafrænu tækni og fóru undirtektirnar langt fram úr væntingum. Árið 2008 þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum höfðu 38 Fab Lab smiðjur verið stofnaðar í heiminum en nú árið 2024 er fjöldi Fab Lab smiðja í heiminum yfir 3000 talsins og fjöldi starfandi Fab Lab smiðja á Íslandi er nú þrettán. Smiðjan á Suðurnesjum tók til starfa um síðustu áramót.
Vilhjálmur er tónlistarmaður og hefur smíðað mörg óvenjuleg hljóðfæri í starfi sínu hjá Fab Lab en hann bjó í tólf ár á Hornafirði þar sem Fab Lab er m.a. Stofan á Suðurnesjum er ný til komin, tók til starfa um áramótin og þá hóf Vilhjálmur störf. Það eru langt í frá bara hljóðfæri sem hægt er að smíða í Fab Lab og í raun má segja að engin hugmynd sé það vitlaus að henni sé ekki fundinn einhver farvegur.
„Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn nýsköpunarsmiðja, smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Við erum með laserskera, þrívíddarprentara, rafrásafræsara og ýmislegt annað sem þarf til að smíða nánast allt milli himins og jarðar. Þessi sýning á föstudaginn snýr að þeim hljóðfærum sem bæði ég og aðrir hafa smíðað en hér í bæ er flottur hljóðfærasmiður, Þorkell Jósef Óskarsson og hann mun líka sýna á sýningunni. Hann hefur handsmíðað mikið af óvenjulegum hljóðfærum sem landsþekkt tónlistarfólk hefur keypt af honum. Það verða um fimmtán hljóðfæri til sýnis og verður hægt að fá að prófa þau. Þessi sýning er einnig til að kynna hvað Fab Lab Suðurnes hefur upp á að bjóða. Ég hef fengið margar beiðnir og óskir í gegnum tíðina og held að mér sé óhætt að segja að enginn hafi farið í burtu með skottið á milli lappanna.“
Fab Lab er fyrir alla
„Eftir mörg ár í þessu starfi hafa auðvitað komið hugmyndir sem eru illframkvæmanlegar en oftast er hægt að koma með aðrar lausnir í staðinn, það er hægt að finna nánast öllum beiðnum einhvern farveg. Stundum vísar maður á aðra ef að það er ekki hægt að vinna verkefnið í Fab Lab smiðjunni, eins og t.d. að þrívíddarprenta málmhluti. Það er ekki ólíklegt að hægt verði að gera það í framtíðinni en í dag eru slíkir prentarar mjög dýrir.
Ég hvet alla sem eru með hugmynd í kollinum að kíkja við hjá okkur á föstudaginn. Fab Lab er fyrir alla, og það þarf enga sérstaka þekkingu til að nýta sér smiðjuna. Það eina sem þarf er áhugi og leyfa sköpunarkraftinum að njóta sín,“ sagði Vilhjálmur að lokum.