Vinskapur var upphafið á viðskiptahugmynd
Eyþór Jónsson og Svanur Þór Mikaelsson fóru af stað með rekstur á Sula Guesthouse í október á síðasta ári, þá aðeins átján og tuttugu og eins árs. Nú, ári seinna, leigja þeir út fimm bústaði skammt frá Laugarvatni og hafa einnig opnað fyrir útleigu á tveimur íbúðum á Akureyri undir nafninu Sula Apartments. Þeir Eyþór og Svanur hafa þekkst frá unga aldri og má segja að segja að Sula sé afsprengi vináttu þeirra. „Við erum alveg búnir að þekkjast síðan ég var tíu ára eða eitthvað svoleiðis, við æfðum Taekwondo saman í mörg ár með Keflavík og landsliðinu, svo sneri ég mér annað og Eyþór líka. Við héldum alltaf sambandi sem þróaðist svo í nánari vináttu þegar ég var um átján ára og erum búnir að vera óaðskiljanlegir síðan þá. Upphafið á Sula er vináttan okkar, má segja,“ segir Svanur.
Aðspurðir hvort reksturinn sé búinn að hafa áhrif á vinskap þeirra segir Eyþór: „Þetta tekur alveg á, ég held við séum báðir svolítið þrjóskir og því hefur alveg komið eitthvað upp á.“ Svanur tekur undir með honum og bætir við: „Við erum samt ótrúlega seigir að aðskilja viðskipti og vináttu. Ég held við séum alveg á góðri leið með að „mastera það“. Þegar við vorum að byrja voru einmitt allir að spyrja okkur hvort við tímdum þessu því það er alltaf hætta á að eyðileggja vinskapinn – og við pældum alveg í því en ákváðum að taka sénsinn. Það eru náttúrlega miklir fjármunir bundnir við viðskiptahliðina á þessu en við höldum samt fastar í vináttuna.“
„Þetta hlýtur að reddast“
Eyþór og Svanur eru með ólíkan bakgrunn. Eyþór hefur mikinn áhuga á auglýsingagerð og markaðssetningu og rekur meðal annars auglýsingastofuna Alpha Agency. Svanur er hins vegar menntaður húsasmiður og hefur áhuga á viðskiptum. Hugmyndin að Sula kviknaði þegar Svanur sá auglýsta bústaði til sölu og taldi hann ólíkan bakgrunn þeirra vina vera góð undirstaða fyrir rekstur í ferðamannaiðnaðinum. „Ég hugsaði mér mér að við gætum verið gott teymi því Eyþór er með tölvu- og tæknihliðina en ég er húsasmiður og með ágætis viðskiptavit. Þegar við skoðuðum bústaðina þá var einhver rödd innra með mér sem sagði „þetta hlýtur að reddast“,“ segir Svanur og Eyþór tekur undir með honum.
Þeir félagar hófu reksturinn í október 2021 með útleigu á fjórum bústöðum skammt frá Laugarvatni, fljótlega bættist fimmti við og fyrr á þessu ári opnuðu þeir svo útleigu á tveimur íbúðum á Akureyri. „Ég datt inn á einhverja auglýsingu og það var akkúrat kominn tími til að stækka við okkur og gera meira,“ segir Svanur aðspurður hvers vegna þeir bættu við sig íbúðum á Akureyri. Íbúðirnar eru staðsettar á Eyrinni og eru með svokallaða „New York loft stemmningu“ að sögn Eyþórs og Svans. „Hugmyndin hjá þeim sem byggðu þetta var í raun svona „ski resort“, íbúðirnar eru staðsettar á Eyrinni en það eru aðeins fimm mínútur upp í fjall,“ segir Svanur.
En hvernig hefur gengið hingað til?
„Bilað vel,“ segir Eyþór. „Við erum náttúrlega ennþá að læra en það er bara eitthvað sem gerist í ferlinu,“ bætir hann við. „Þetta er svo nýtt fyrir okkur, þetta er ekki einu sinni orðið eins árs. Það er samt gaman að sjá hlutföllin á íslenskum og erlendum ferðamönnum hjá okkur. Í bústöðunum eru 95–99% af bókunum stílaðar á erlenda ferðamenn en svo aftur á móti er Akureyri eins og litla Tenerife fyrir Íslendinginn og mun meira um bókanir frá þeim þar,“ segir Svanur.
Bað guð um eldgos
Það er trú margra að eldgosið í Meradölum muni auka ferðalög erlendra ferðamanna til Íslands. Það kom Svani mikið á óvart þegar bænir hans virtust hafa skilað sér og það byrjaði að gjósa. „Ég á vin sem á heima í London og hann er búinn að vera að spyrja mig síðustu vikur hvort ég sé ekki búinn að vera fara með bænirnar mínar, ég náttúrlega bara spyr hann hvaða bænir? og hann svarar: „Já, þú verður að biðja fyrir því að það komi ferðamannagos til að ýta undir reksturinn.“ Ég fór bara að hans ráðum og fór með bænirnar mínar og viti menn, daginn eftir byrjaði að gjósa,“ segir Svanur spenntur (athugasemd blaðamanns: viðtalið var tekið stuttu eftir að hóf að gjósa í Meradölum). Eyþór og Svanur halda í vonina að gosið muni standa yfir í smá tíma til að auka útleigur yfir vetrartímann. „Við vonum auðvitað að þetta gos verði í smá tíma núna. Út af því að þegar síðasta gos var þá voru takmarkanir á landamærunum en við höldum í þá von að þetta verði eitthvað lengur svo veturinn verði extra góður hjá okkur,“ segir Eyþór. „Það er samt, ef maður pælir í því, eins og það sé einhver æðri máttur sem er að bæta upp fyrir áhrifin sem Covid hafði á ferðamannaiðnaðinn. Sá máttur „splæsti“ bara í tvö eldgos þannig að þessi stétt gæti rétt sig svolítið af eftir skellinn sem heimsfaraldurinn olli,“ bætir Svanur við flissandi.
Rétt að byrja
Framtíðarplön Eyþórs og Svans eru opin og hafa þeir ekki ákveðið nákvæmlega hvert þeir stefna. „Kannski opnum við fleiri einingar í öðrum landshlutum, það væri gaman að geta boðið upp á hringferð. Þar sem að einingarnar sem við erum með núna eru í sitthvorum hlutanum á landinu þá væri flott að vera með íbúðir í Reykjavík og á Egilsstöðum, sem dæmi, þá gæti fólk farið hringinn með gistingu hjá okkur,“ segir Eyþór. Þá hafa þeir einnig velt fyrir sér að stofna til hótelreksturs eða einfaldlega halda áfram uppbyggingu á rekstrarfélaginu sama í hvaða formi það verður. „Það er allt opið og við getum í raun gert það sem við viljum með þetta í framhaldinu,“ segir Svanur. Þrátt fyrir að plönin liggi ekki fyrir eru þeir spenntir fyrir framhaldinu og eru stoltir af því hversu langt þeir eru komnir á stuttum tíma. „Við erum bara rétt að byrja,“ segir Eyþór að lokum.