Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vinsælum sagnastundum fram haldið í haust
Fimmtudagur 18. maí 2023 kl. 06:01

Vinsælum sagnastundum fram haldið í haust

Vinsælum sagnastundum sem haldnar hafa verið mánaðarlega á Garðskaga í vetur verður fram haldið í haust. Sagnastundirnar eru haldnar af frumkvæði æskuvina úr Garðinum, þeirra Bárðar Bragasonar frá Urðarfelli og Harðar Gíslasonar frá Sólbakka. Þeir hafa fengið til sín gesti sem hafa sagt frá áhugaverðum atburðum.

Nú síðast kom séra Jakob Ágúst Hjálmarsson og sagði frá Þormóðsslysinu sem varð við Garðskaga 18. febrúar 1943, fyrir áttatíu árum. Í slysinu fórust 31 einstaklingur. Þar af voru níu konur og eitt barn. Um borð voru tuttugu og tveir einstaklingar frá Bíldudal.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sagnastundinni kom fram vilji til þess að atburðarins yrði minnst á Garðskaga. Nú er unnið að því að láta útbúa minningarskjöld sem festur verður á fjörugrjót og komið fyrir á gönguleiðinni með ströndinni á Garðskaga. Nánar verður greint frá því verkefni síðar í sumar.

Þegar sagnastundir fara af stað aftur með haustinu verður m.a. fjallað um kafbátahernað Þjóðverja við Garðskaga í seinni heimsstyrjöldinni. Ein kunnasta sagan er þegar Goðafoss var skotinn niður af þýskum kafbáti skammt undan Garðskaga fyrir tæpum 80 árum. Ýmis gögn um veru kafbáta við Garðskaga eru komin fram á erlendum söfnum og þeim verður væntanlega gerð skil á sagnastund á Garðskaga í haust.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á síðustu sagnastund þegar Þormóðsslysinu voru gerð skil en húsfyllir var á veitingahúsinu Röstinni á Garðskaga á þessari stund en það hefur reyndar verið á öllum sagnastundunum í vetur.