Vinsælt sæfiskasafn í Höfnum
Í Höfnum stendur gamalt frystihús sem breytt hefur verið í sæfiskasafn. Safnið inniheldur allar helstu fiskategundir sem finnast utan við Íslandsstrendur, sem og nokkurt safn uppstoppaðra íslenskra fugla, en þeir standa á klettasyllum sem settar hafa verið upp í safninu. Vinsælustu sjávardýr safnsins eru m.a. steinbítur, þorskur, krabbar og skjaldbökur, en þau tvö síðast nefndu er gestum safnsins heimilt að snerta á og hefur það vakið mikla lukku, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni. Fyrir miðju safni stendur um 100 ára gamall árabátur s.k. „Færeyingur“, en hann var áður notaður sem hvalveiðibátur.Ein aðalástæða þess að safnið er staðsett í Höfnum er sú að borholur eru bakvið safnið þar sem er stöðugt rennsli af hreinum, smitfríum sjó, sem síast hefur í gegnum þykk hraunlög. Þetta gerir það að verkum að í fiskabúrum safnsins er alltaf hæfilega saltur og kaldur sjór og því lifa sjávarlífverurnar í safninu góðu lífi við kjöraðstæður.Á vetrum hefur verið mikið um heimsóknir frá skólum og leikskólum úr nærliggjandi byggðarlögum, en elstu nemendurnir hafa fengið að velja sér sjávardýr til að kryfja og skoða í smásjá sem er í eigu safnsins. Á sumrin er safnið vinsælt af ferðamönnum, íslenskum jafnt sem erlendum og koma þá ýmist einstaklingar eða hópar. Í anddyri safnsins er minjagripasala sem er mjög vinsæl af ferðamönnum, þá sérstaklega erlendum, en þar eru handunnir munir úr fiskroði, leðri, gleri og lopa.