Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Laugardagur 7. desember 2002 kl. 14:23

Vinsælasta hótel landsins þessa dagana

Rúmlega 300 manns hafa bókað gistingu á Hótel Keflavík í tilefni tilboðs sem hótelið býður upp á fyrir jólin, en þetta er í annað skipti sem slíkt er gert. Tilboðið gengur út á það að nótt á herbergi fæst ef verslað er í Reykjanesbæ fyrir 10.800 krónur eða meira. Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík segir að gestir hótelsins séu gríðarlega ánægðir: „Við erum með þetta tilboð í annað sinn og það er mikill áhugi á þessu. Það hafa um 300 manns bókað herbergi og við búumst við því að enn fleiri muni gera það,“ segir Steinþór og bætir við að gestir séu að meðaltali að kaupa vörur fyrir 25 þúsund krónur: „Það má í raun segja það að á bakvið hvert herbergi sé um 25 þúsund króna upphæð sem viðkomandi gestir hafi verslað fyrir í bænum.“ Um helgina gistu á hótelinu 130 manns sem notfærðu sér tilboðið: „Starfsfólkið á hótelinu finnst þetta mjög gaman og fer seinna af vaktinni en það er vant. Viðbrögð gestanna eru mjög jákvæð og okkur finnst gaman að heyra hvað þeim líkar þetta tilboð vel,“ sagði Steinþór í samtali við Víkurfréttir. Í jólablaði Víkurfrétta sem kemur út næsta fimmtudag verða viðtöl við nokkra gesti sem gistu á hótelinu um helgina og meðal annars viðtal við par sem trúlofaði sig um helgina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024