Vinnuskólinn og Fjörheimar: Götu- og leikhússmiðja í sumar
Í sumar býðst ungmennum 15-16 ára að starfa í Götu & Leikhússmiðju Vinnuskóla Reykjanesbæjar og Fjörheima.
Þar er krökkum í 9. og 10. bekk boðið upp á tækifæri til að koma fram og leika auk þess sem námskeiðin virka hvetjandi á sjálfstæða hugsun og aukið sjálfstraust.
Kennslan fer fram með æfingum og leikjum, að því er Hafþór Barði Birgisson, tómstundafulltrúi, segir. Farið verður í spuna, leikhússport og æfðar stuttar senur eftir því sem efni standa til.
„Þátttakendur sjá um undirbúning s.s. búningahönnun, andlitsmálun, handavinnu, grímugerð, leikmunagerð, hljóðfæragerð og margt annað. Smiðjan sér um ýmsar leikrænar uppákomur á götum og torgum bæjarins og er m.a. með sýningar alla föstudaga þegar smiðjan starfar, hvort sem um er að ræða litla leikþætti, gjörninga, eða bara tónlistarflutning þá mun götusmiðjan sjá til þess að lífga bæinn við og færa smá gleði í miðbæ Reykjanesbæjar,“ segir Hafþór.
Dagskráin er með þeim hætti að fyrir hádegi er farið í spunaleiki hitað upp líkamann fyrir átök dagsins, farið í hina ýmsu leiki, verk æfð og vettvangsferðir farnar. Eftir hádegi er unnið meira markvissara með verkefni föstudagsins. Hvort sem það er að hanna búning, karakter, leikmuni, hljóðfæri, ákveða andlits málningu og margt fleira. Lokaverk hvers hóps fyrir sig er að setja upp stærri uppsetningu svo sem stutt leikrit sem er þá unnið með texta og sýnt síðar.
Alla jafna vinnur einn flokkstjóri og einn stjórnandi með hópnum, þátttakendur verða á bilinu 15-20 nemendur. Þau sem hafa áhuga geta sótt um að fá starf í götu- og leikhússmiðjunni á slóðinni www.reykjanesbaer.is/vinnuskoli
Mynd: Frá starfi Götuleikhússins þar sem fjallað var um heimilisofbeldi