Vinnur með vinsælasta tónlistarfólki landsins

-Of mikið að gera hjá Birni Vali sem starfar meðal annars með Emmsjé Gauta, Reykjavíkurdætrum og fleiri þekktum tónlistarmönnum

Grindvíkingurinn Björn Valur Pálsson starfar með þekktasta tónlistarfólki landsins um þessar mundir, en hann er meðal annars plötusnúður, „producer“ og útvarpsmaður.
Árið hefur verið viðburðarríkt hjá honum og þegar blaðamaður Víkurfrétta heyrði í honum var hann á fullu að undirbúa jólatónleika sem fóru fram rétt fyrir jól. Þeir tónleikar byrjuðu fyrst sem grín en urðu að sex jólatónleikum. Björn Valur ætlar að eyða áramótunum í faðmi fjölskyldunnar og það er nóg af verkefnum framundan hjá honum á næsta ári.

Hvað ert þú að gera þessa dagana?
„Síðustu dagar hafa farið í undirbúning fyrir Julevenner Emmsjé Gauta sem voru í Gamla Bíói dagana 21., 22. og 23. desember. Hugmynd sem var fyrst bara upp á grín varð allt í einu að sex jólatónleikum vegna mikillar eftirspurnar.“
Þeir sem komu fram á tónleikunum voru meðal annars Aron Can, Jói P og Króli, Salka Sól og Helgi Björns, ásamt Emmsjé Gauta.
„Annars er ég inn á milli í stúdíóinu að gera takta og taka upp fyrir komandi verkefni.“

Með hvaða listamönnum ert þú að vinna núna?
„Ég var að enda við að klára lag með Reykjavíkurdætrum sem heitir „Hvað er málið“. Myndbandið við það lag kom út þann 22. desesmber sl. Ég er líka að vinna með Emmsjé Gauta að nýrri plötu sem kemur á næsta ári og við Arnar í ÚlfurÚlfur erum að vinna saman að plötu líka. Svo er ég alltaf að gera takta og senda hingað og þangað.“

Hvað er eftirminnilegasta „giggið“ þitt?
„Þjóðhátíð á þessu ári var frekar klikkuð, að spila fyrir svona mikið af fólki er alltaf gaman. Annars fór ég í ágúst á þessu ári með Emmsjé Gauta og Kela trommara út til Þýskalands að spila á festivali sem heitir Haldern Pop. Þar spiluðum við á stútfullum bar af fólki og stemningin var alveg ótrúleg. Þar var enginn frá Íslandi en allir dönsuðu og reyndu að syngja með öllum lögunum. Það var alveg fáránlega gaman og ég held að þeir séu búnir að bóka okkur aftur á næsta ári.“

Er alltaf nóg að gera?
„Já, eiginlega of mikið að gera ef eitthvað er, en það er bara gaman að halda sér aktívum. Maður þarf dálítið að harka í þessum bransa til að ná langt þannig maður verður að vera tilbúinn að eyða tíma í þetta. Annars er búið að vera minna að gera að spila þessa síðustu mánuði en þá ég bara meira upp í stúdíói.“

Hvað ætlar þú að gera um áramótin?
„Ég ætla að eyða áramótunum með konunni og fjölskyldum okkar. Við ákváðum að breyta til og leigðum okkur Air BnB íbúð í Reykjavík rétt hjá Hallgrímskirkju og ætlum að vera öll saman þar.“

Hvað mun árið 2018 bera í skauti sér hjá þér?
„Ég ætla að reyna að vinna með eins mikið af fólki og ég get. Það er svo ótrúlega mikið af nýju og upprennandi tónlistarfólki á Íslandi og þá sérstaklega í hiphop senunni. Mig langar að vinna með sem flestum og er strax kominn með nokkra sem ég ætla að vinna með. Einnig langar mig að ferðast meira og spila út um allt.“