Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Vinnur að stuttmynd á meðan hann bíður
Föstudagur 14. október 2011 kl. 10:45

Vinnur að stuttmynd á meðan hann bíður

Njarðvíkingurinn og kvikarinn Davíð Ingi Jóhannsson segist ánægður með útkomu myndarinnar Hetjur Valhallar: Þór sem verður frumsýnd á Íslandi í dag. Davíð er eins og áður sagði kvikari (sem er nýyrði yfir þann sem leggur stund á „animation“, eða teiknimyndagerð) og var Davíð einn af þeim sem að teiknaði myndina sem verður frumsýnd í dag, föstudaginn, 14. október, um land allt. Þetta er fyrsta íslenska teiknimyndin í fullri lengd og er hún einnig í þrívídd. Jafnframt er þetta stærsta kvikmyndaverk sem ráðist hefur verið í á íslandi en hún hefur verið í sjö og hálft ár í framleiðslu.

Davíð fór ásamt öðrum vel völdum á forsýningu á dögunum og segist bara vera sáttur við útkomuna. „Auðvitað eru alltaf einhver smáatriði sem má laga, en það er bara eitthvað sem við fagmennirnir sjáum,“ segir Davíð sem þessa dagana er að vinna að sinni eigin stuttmynd sem jafnframt er teiknimynd, þar sem aðalsöguhetjan er lítill óþolinmóður strákur. „Myndin gerist kvöldið fyrir afmælið hans og hann iðar skiljanlega í skinninu eftir að dagurinn renni upp. Hann finnur svo óvænt út hvar pakkinn sem hann á að fá frá foreldrum sínum er geymdur og þá langar stráksa að sjálfsögðu að kíkja aðeins í pakkann. Fyrst þarf hann þó að komast framhjá pabba sínum sem er að baka í eldhúsinu og mömmu sinni sem situr sem fastast við tölvuna, sú atburðarrás á eftir að bjóða upp á spaugilegar uppákomnur,“ segir Davíð en hann skrifar handritið ásamt því að sjá um alla myndvinnsluna.

Ef að myndin um Þór gengur vel þá verður ráðist í framhaldsmynd og Davíð segist bíða spenntur eftir því að það verði allt saman ákveðið, en fyrst er að skella sér og sjá myndina sem sýnd verður í kvikmyndahúsum um land allt og þar á meðal í Keflavík.

Mynd: Davíð Ingi vinnur að stuttmynd meðan hann bíður eftir mynd númer tvö um Þór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024