Vinnumennirnir settir í málið
Erindi sem berast inn á borð bæjarstjóra Reykjanesbæjar eru af öllum toga. Sunnuvalla snillingarnir á Tjarnarseli heimsóttu Árna Sigfússon í vikunni og afhentu honum erindi sem þarfnaðist afgreiðslu strax.
Vandamálið sem þarfnaðist úrlausnar var útsýnispallur við sjávarsíðuna sem var brotinn. Þar sem pallurinn var brotinn var hætta á að krakkar gætu dottið í grjótið og jafnvel í sjóinn. Og þegar maður dettur á hausinn þá er nú alltaf hætta á því að maður geti meitt sig eða jafnvel dáið. Falli maður í sjóinn er alltaf hætta á að það komi hákarlar og jafnvel kolkrabbi með ófyrirséðum afleiðingum.
Sunnuvalla snillingarnir óskuðu eftir því að vinnumennirnir yrðu settir í málið og útsýnispallurinn lagaður.
Eftir fundinn með leikskólabörnunum tók Árni upp símann og setti vinnumennina í málið. Þeir eiga nú að hafa lagað útsýnispallinn.