Vinnan mín – Aleksanders timbursölumaður
Aleksanders Mavropulo er 33 ára, fæddur og uppalinn í Lettlandi en fluttist til Íslands 4. febrúar árið 2000. Hann byrjaði stuttu seinna að vinna hjá Byko í Keflavík og hefur starfað þar í timbursölunni síðan. Aleksanders er mikill sérfræðingur um timbur og eru fáar spurningar sem hann getur ekki svarað um það efni.
Aleksanders sér alfarið um að afgreiða timburefni ásamt öllu sem tengist byggingum. Helstu viðskiptavinir sem hann afgreiðir eru auðvitað iðnaðarmenn en þeir kunna vel við Aleksanders enda dugnaðarforkur í vinnu að sögn yfirmannsins.
„Þetta er fínasta vinna og mér hefur alltaf líkað vel hérna,“ sagði Aleksanders en bætti svo við að það væri einstaklega gott samstarfsfólk og teymið í timbursölunni mjög öflugt.
Aleksanders segir að framtíðarstarfið sitt sé að vinna við eitthvað tölvufikt. Hann hefur mjög gaman af öllu sem tengist tölvum, sama hvort það er að setja þær saman eða rífa þær í sundur. „Annars er framtíðin mjög svört. Ég sé ekki fram á neitt nema bara að lifa af en eftir u.þ.b. 15 ár verður ástandið í heiminum hrikalegt að mínu mati,“ sagði Aleksanders að lokum.