Vinna að uppbyggingu útikennslusvæðis við Narfakotsseylu
Akurskóli og leikskólarnir Holt og Akur hafa tekið höndum saman og vinna nú að uppbyggingu útikennslusvæðis við Narfakotsseylu í Innri-Njarðvík. Þetta er þróunarverkefni sem hlaut styrki úr Manngildissjóði Reykjanesbæjar vorið 2009. Síðan þá hafa leik- og grunnskólanemendur ásamt starfsmönnum unnið hörðum höndum að undirbúningi svæðisins. Hópurinn hefur fengið Guðmund Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt til liðs við sig. Hann hefur hannað svæðið og útfært hugmyndir nemendanna á skemmtilegan og frumlegan hátt.
Útikennslusvæði eru skilgreind sem svæði í náttúrunni þar sem fjölbreytt nám og kennsla á sér stað. Útinám getur nýst í öllum námsgreinum grunnskólans, sem og námssviði leikskóla. Útikennslusvæðið verður aðgengilegt, náttúrulegt og nýtanlegt á umhverfisvænan hátt. Það mun nýtast nemendum, kennurum og íbúum svæðisins jafnt til náms og leiks.
Hugmyndin er sú að nemendur og fjölskyldur þeirra taki virkan þátt í þessari uppbyggingu undir leiðsögn kennara og ábyrgðarmanna verkefnisins í góðu samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar. Einnig höfum við fengið liðsstyrk frá SEEDS samtökunum, sem eru sjálfboðaliðar sem sinna ýmsum umhverfis- og menningarmálum hér á landi. Tíu sjálfboðaliðar eru að vinna með okkur að verkefninu nú í september og aðstoða okkur við að hefja verkefnið en eftir það munu nemendur og starfsfólk í góðri samvinnu við foreldrasamfélagið halda áfram uppbyggingunni.
Fyrir hönd áhugahóps
Erna Ósk Steinarsdóttir