Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vinn þegar flestir aðrir eiga frí
Laugardagur 14. desember 2013 kl. 09:00

Vinn þegar flestir aðrir eiga frí

Leikarastarfið getur gefið og tekið, segir leikarinn og fyrrum Njarðvíkingurinn Friðrik Friðriksson í viðtali við Víkurfréttir.

Parið Friðrik Friðriksson og Álfrún Örnólfsdóttir eru bæði leikarar og búa í miðborg Reykjavíkur með dætrum sínum tveimur, Margréti og Kolbrúnu Helgu. Friðrik leikur í Óvitum og Karíusi og Baktusi og Álfrún í Mary Poppins. Þegar þau eru í fríi eru flestir aðrir að vinna og þau þakka tengslaneti góðra fjölskyldna beggja vegna hversu vel hlutirnir ganga upp. Olga Björt, blaðamaður Víkurfrétta, heimsótti Friðrik og fjölskyldu hans og ræddi við hann um leiklistina og æskuár hans í Njarðvík.

Mæðgurnar Álfrún og Kolbrún Helga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hata Mary Poppins!“
„Karíus og Baktus eru í fríi fram yfir áramót en ég er að æfa fyrir leikrit sem nefnist Lúkas sem verður frumsýnt milli jóla og nýárs. Ég er líka að byrja að æfa annað leikrit sem verður sýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í febrúar og svo taka fleiri verkefni við eftir það. Maður er stanslaust að vinna í leikhúsinu frá því maður er lokaður inni á haustin þar til manni er hleypt út á vorin með beljunum,“ segir Friðrik um starfið sitt. Skilningur ríki á milli hans og Álfrúnar gagnvart vinnutímanum.

Varðandi skilning annarra segir Friðrik glettinn: „Þeir vinir sem við eigum eftir skilja þetta enda mikið til fólk sem er í sama bransa og við og þekkja þetta. Reyndar er Gísli Nils vinur minn löngu hættur að bjóða mér í skírnir og svoleiðis,“ segir hann og hlær. Álfrún bætir við: „Þetta fer eiginlega í báðar áttir. Það getur komið sér illa þegar við erum bæði í vinnunni á sama tíma. Reyndar hefur það verið fínt í vetur því þá hefur Friðrik ekki verið að sýna á kvöldin. Í fyrravor voru þrjú kvöld í viku sem við vorum bæði að vinna, auk helganna. Þá sagði Margrét dóttir okkar: „Ég hata Mary Poppins!““  

Dýrmæt tengsl við ömmu og afa
Þau Friðrik og Álfrún segja sterkt tengslanet beggja fjölskyldna hjálpa mikið til við að þau geti sinnt því störfum sínum. Ættingjar skiptist á að gæta dætranna og þær séu ekki miklir vandræðagripir. „Það er miklu betra að hafa ömmur og afa til að passa þær en einhverjar stelpur úti í bæ,“ segir Álfrún og Friðrik bætir við: „Svo er líka gott og dýrmætt að rækta þessi mikilvægu tengsl við ömmur og afa. Ég fékk ekki að kynnast slíku, bara annarri ömmu minni.“

Leiklistarhæfileikarnir erfast greinilega á milli kynslóða því eldri dóttir þeirra, Margrét, er þegar farin að láta til sín taka á sviði. Hún sýnir í leikriti Skoppu og Skrýtlu, þrjár sýningar aðra hverja helgi. Margrét skottast í kringum blaðamann í fallegum rauðum kjól og réttir stolt fram nýjustu föndursköpun sína. Svo spyr hún glaðlega hvenær verði eiginlega tekin mynd af henni. Friðrik segir: „Já hér er föndrað, litað, leikið og dansað alla daga.“

Kaninn við leiksvæðið
Eftir að hafa búið í Reykjavík í 20 ár finnst Friðriki hann vera orðinn meiri Reykvíkingur en Njarðvíkingur þótt ræturnar liggi suður með sjó. Á áttunda og níunda áratugi síðustu aldar bar hluti íbúabyggðarinnar í Ytri-Njarðvík enn merki hersetunnar frá stríðsárum. Þar voru enn yfirgefnir braggar og girðingin sem aðskildi svæðið sem tilheyrði hernum og íbúabyggðina í Njarðvík náði inn á svæði þar sem íslenskir krakkar sóttu í að leika sér. „Þar stutt í Kanann, hjólastíginn, heiðina og girðinguna.

Sem krakki eyddi ég þó meirhluta leiktíma míns niðri í fjöru við að byggja fleka og gera eitthvað sem líklega mætti ekki í dag,“ segir Friðrik. Einnig var hann mikið í skátunum, enda ævintýramaður í sér og hrifinn af alls kyns leiðöngrum. Hann átti Baden Powell skátabók með hnútaaðferðum í og upplýsingum um hvernig á að bjarga sér í náttúrunni. „Ég var mjög upptekinn af þessu og fannst það mjög heillandi.


Gengu yfir hraunið til Svartsengis
Lengsti leiðangur sem ég fór í var þegar ég dró Dofra Örn vin minn og Jón Inga frænda hans með mér í „smá“ ævintýraferð. „Við fengum gamlan bakpoka lánaðan frá bróður mínum, settum í hann nokkrar mandarínur, tepoka, eitt vasaljós og Baden Powell bókina. Svo gengum við frá Njarðvík í átt að Svartsengi - þvert yfir hraunið.“ Friðrik giskar á að þeir félagar hafi verið eitthvað aðeins undir 10 ára aldri.

Komið var kvöld þegar þeir voru komnir áleiðis og þeir orðnir hræddir. „Við stefndum bara á reykinn frá Svartsengi, misstum rafhlöðuna úr vasaljósinu ofan í gjótu og urðum skíthræddir.“ Svo þegar út í Svartsengi var komið tóku starfsmenn Hitaveitunnar á móti þeim. „Ég man að við horfðum á þátt með MASH hjá þeim og borðuðum smákökur og mjólk. Svo komu foreldrar Dofra og sóttu okkur - ekki sáttir,“ segir Friðrik og hlær.  

Langaði í fimleika
Friðriki leið vel í Njarðvík og sem barni en í minningunni segir hann að ekki verið mikið um að vera þar miðað við það sem er í boði í dag. „Ég var ekkert fyrir boltaíþróttir og hefði viljað æfa fimleika. Það var svo lítið annað íþróttastarf í boði fyrir þá örfáu sem höfðu ekki áhuga á boltanum.“ Hann segist þó hafa gert tilraun og farið í körfuboltatíma í litla salnum í kjallara íþróttahússins í Njarðvík. „Mér fannst svo mikil læti þarna. Ég er enginn hópíþróttamaður,. Ég fór bara að gráta og var sóttur,“ segir Friðrik og brosir. Hann tekur þó fram að svona miklir íþróttabæir eins og Njarðvík séu af því góða fyrir þá sem hafa áhuga á því. Hann hafi bara þurft að fara annað til að finna sína fjöl.

Forvitnin hjálpaði mikið
Þá segist Friðrik ekki hafa haft mikið fyrir náminu í grunnskóla og ekki lagt mikla stund á það. „Það fór heldur ekki mikið fyrir mér í tímum. Ég fylgdist vel með og hafði áhuga á öllu, einhver eðlislæg forvitni. Ég hafði sérstakan áhuga á raunvísindum og náttúrufræði. Forvitnin dreif mig áfram og einhvern veginn festist allt inni sem meðtók. Ég fékk verðlaun fyrir námsárangur þegar ég útskrifaðist.“ Eitthvað dró úr þessu þegar hann fór í menntaskóla því hann segist þá hafa uppgötvað að til væri félagslíf og annað fólk og hægt að gera svo margt annað. Eins og vill verða með marga aðra.

Lærði leiklist hjá fréttamanni
Aðspurður segir Friðrik leiklistaárhugann hafa kviknað í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en að Dofri Örn vinur hans vilji meina að hann hafi kviknað í grunnskóla því Friðrik hefði komið fram og leikið þá. Friðrik segist ekki muna eftir neinum meistaratöktum þar. Það sem hafi í raun virkjað þetta áhugasvið hans var að hann þurfti að hætta námi í Menntaskólanum við Sund þegar foreldrar hans fluttu tímabundið aftur í Njarðvíkur. „Þá fór ég í FS og var á sama tíma eitthvað að dúlla með skátunum. Ingólfur Níels Árnason, núverandi óperuleikstjóri á Ítalíu, var í skátunum og ég spurði hann hvaða fög ég ætti að velja í FS.

Hann sagði mér að velja Listir 103 og Leiklist 103, því þar væru eru engin próf og ógeðslega gaman. Mér leist ljómandi vel á það.“ Borgþór Arngrímsson, fyrrverandi fréttamaður, kenndi báða áfangana og Friðrik segir að hjá honum hafi hann farið að gera eitthvað sem hann hafði aldrei gert áður. „Maður fékk svona umsögn í stað einkunna. Borgþór spurði mig hvort ég hefði verið í leiklist áður eða verið í leikfélagi, því honum fannst það einhvern veginn. Ég væri eitthvað svo góður með mig. Fannst ég hafa eitthvað í þetta. Ég var svo upp með mér og það gaf mér sjálfstraust áfram,“ segir Friðrik.

Friðrik ásamt útskriftarhópnum úr Leiklistarskóla Íslands árið 1998.

Boltinn byrjaði að rúlla með Vox Arena
Þá fór hann að starfa með Vox Arena, leikfélagi FS, og þar hafi boltinn byrjað að rúlla. „Fyrsta hlutverkið var sem slökkviliðsmaður í Sköllóttu söngkonunni og ári síðar lék ég Woyzeck í leikstjórn Hávars Sigurjónssonar með fólki sem enn eru vinir mínir í dag.“ Sjálfur segist Friðrik ekki hafa vitað þá að hægt væri að læra leiklist á Íslandi í sérstökum leiklistarskóla. „Ég hélt bara að þetta væri fólk sem hefði mikinn áhuga á því og færi svo bara að vinna í Þjóðleikhúsinu,“ segir hann og hlær.

Hann starfaði svo með Leikfélagi Keflavíkur í tvö ár eftir námið í FS. Svo sótti hann um inngöngu í Leiklistarskóla Íslands og undirbjó mig aðeins en komst ekki inn; komst í lokaúrtak. Þá voru bara 8 teknir inn.“ En fyrst Friðrik var kominn svona langt þá leit hann á það sem ákveðna staðfestingu á því að hann væri á réttri leið. „Ég undirbjó mig bara betur, sótti um árið eftir og komst inn. Útskrifaðist svo 1998 og þetta er búið að vera líf mitt síðan,“ segir Friðrik. Hann segir alla strákana í hópnum starfa við leiklist í dag en tvær af stelpunum hafi síðar farið í sálfræði og lögfræði.


Friðrik sem Litla skrímslið.


Ekki lítil hlutverk heldur litlir leikarar
Friðrik segist hafa verið heppinn með að krækja strax í hlutverk áður en hann útskrifaðist. Þórhildur Þorleifsdóttir, þáverandi leikhússtjóri Borgarleikhússins bauð honum hlutverk Péturs Pan, fyrir frumsýningu útskriftarverkefnis Leiklistarskólans. Í kjölfarið hafi svo komið fleiri hlutverk. „Ég lék nördinn Eugene í uppfærslu Grease sumarið eftir útskrift. Það var ekki stórt hlutverk. En eins og sagt er í leiklistinni eru ekki til lítil hlutverk bara litlir leikarar. Maður reynir að gera mikið úr litlu,“ segir Friðrik.

Hann er búinn að vera fastráðinn hjá Þjóðleikhúsinu í dálítiinn tíma og finnst það mjög fínt. „Leikarastarfið er hark fyrir flesta og launin ekki há. Innan BHM erum við láglaunastétt. Svo fer oft mikill tími fer í þetta. Við erum að vinna þegar aðrir eru í fríi. Við höfum varla hitt sumt fólkið okkar síðan í haust. Á móti kemur að sem fastráðinn leikari fæ ég langt sumarfrí og hef það gott þá. Þetta er svona tarnavinna, næstum eins og vertíð. Við erum að vinna alla daga milli jóla og nýárs núna. Eina alvöru lögbundna fríið okkar er um páska,“ segir hann.

Herra og Frú Sowerberry úr Oliver Twist í Þjóðleikhúsinu. Ljósmynd Eddi.

Eigin verk mest gefandi
Spurður um hvar hann sjái sig eftir tíu ár segist Friðrik helst vilja sjá börnin sín vaxa út grasi og verða hamingjusöm. Og að leiklistin taki ekki svona langan tíma frá honum og að áhugi og tími fáist fyrir aðra hluti fyrir utan vinnuna. „Lífið er ekki bara leikhús. Kannski fer maður í annað framhaldsnám. Þau verkefni sem hafa sprottið frá manni sjálfum hafa verið mest spennandi og gefandi.“

Friðrik er í leikhópi sem heitir Ég og vinir mínir og segir hópinn vera að fá tilboð með að fara út í heim með verkefni. Hann bindur vonir við eitthvað svona í framtíðinni. „Ég er með góða reynslu af söngleikjum, barnaleikritum og ýmsu öðru. Ég er að fara að gera einleik í vor í leikstjórn Friðgeirs Einarssonar sem nefnist Unglamb. Ævar Þór Benediktsson, vísindamaður, ætlar að skrifa efnið með okkur. Svo eigum við okkur fjarlægan draum um að heimsækja vinkonu Álfrúnar sem býr syðst í Suður Ameríku. Það gæti verið gaman líka.“ Álfrún tekur undir það.
 

VF/Olga Björt