Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vinirnir slógust um sömu stúlkuna
Magnús Kjartansson í kunnuglegri stöðu við flygil.
Föstudagur 5. september 2014 kl. 09:00

Vinirnir slógust um sömu stúlkuna

Skólaball Magnúsar Kjartanssonar ómar úr ljósastaur á þekktasta götuhorni Keflavíkur.

„Það er bara skemmtilegt og ég vona að margir fari þarna niðureftir til þess að fara á skeljarnar. Svo er aldrei að vita nema ég verði sjálfur hengdur þarna upp í staurinn. Ég er ólíkindatól,“ segir Magnús Kjartansson, tónlistarmaður úr Keflavík, en ljósastaur hefur verið settur upp við gamla Hljómvals-húsið þar sem fólk mun geta hlustað á brot úr hinu þekkta lagi kappans, Skólaball.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hornið þar sem staurinn frægi stendur.

Magnús hefur samið fjölda laga og texta í gegnum tíðina. Eitt þeirra er Skólaball sem hljómsveitin Brimkló gerði frægt. Í texta við lagið er minnst á stúlkuna sem hallaði sér upp að ljósastaur og hélt um ennið. „Það vissu einhverjir að ég hafði samið þennan texta og lag því það vantaði lag á plötu sem Brimkló gerði á sínum tíma. Þetta bara lak úr pennanum og varð til. Þarna var ég að rifja upp það sem við kölluðum skólaböll og æskulýðsböll um helgar. Þarna vorum við tveir mjög góðir vinir að slást um sömu stúlkuna eins og gerist og gengur. Ég tók þetta mjög alvarlega víst, samkvæmt textanum. Og ekki lýgur minnið þegar maður skrifar svona,“ segir Magnús brosandi.

Staurinn í nærmynd. Hann er eins og staurarnir tíðkuðust í gamla daga, úr viðardrumbum.

Ekki öll vitleysan eins
Magnús hlær að hugmyndinn með staurinn: „Nú myndi mamma mín segja: Ja, það er ekki öll vitleysan eins! Þetta er nú svona skemmtileg og glettin hugmynd. Einar Bárðarson spurði mig eitt sinn hvar þessi ljósastaur væri. Ég sagðist segja honum það ef hann lofaði að segja engum frá því. Það er eins og að hann hafi ekki haldið það loforð. Hann er náttúrulega menntaður í Ameríku og þar er vinsælt að taka myndir af sér við götuhorn og byggingar sem koma fram í þekktum textum. Einhvern veginn þannig varð þetta til,“ segir Magnús og bætir við að nýi staurinn sé ansi hár og myndarlegur, eins og tíðkaðist þegar hann var ungur. „Þetta var haft svona hátt svo að við gætum ekki stútað perunum strákarnir. Nú á að hengja hátalara þarna upp og fólk getur hlustað á bút úr laginu. Gera þarna rómantískt horn. Það er bara skemmtilegt og ég vona að margir fari þarna niðureftir til þess að fara á skeljarnar. Svo er aldrei að vita nema ég verði sjálfur hengdur þarna upp í staurinn. Ég er ólíkindatól,“ segir Magnús hlæjandi.

Magnús ásamt Sönghópi Suðurnesja á æfingu fyrir Ljósanótt.

Allir 17 ára aftur
Undanfarin ár hefur hann verið með tónleika með Sönghóp Suðurnesja á fimmtudagskvöldum á Ljósanótt. „Þessa Ljósanótt verðum við á miðvikudagskvöldi. Svo hef ég verið að spila með gömlu hljómsveitinni minni Júdasi á Ránni á föstudögum. Það hefur verið voða gaman. Allir orðnir sautján aftur í nokkra klukkutíma, sem er voða hollt og ekki síst fyrir okkur,“ segir Magnús Kjartansson tónlistarmaður, sem byrjaði sjálfur 9 ára í drengjalúðrasveit á æskuslóðunum í Keflavík. Hann kemur úr afar tónelskri fjölskyldu. „Já okkur var haldið að þessu og það kemur svolítið vegna þess mömmu mína vantaði eitt ár upp á að klára píanókennararéttindi þegar hún fékk laumufarþega, sem var ég. Það var alltaf til píanó heima og oft mikið fjör í stofunni sem skilaði sér til mín og systkina minna,“ segir Magnús.

Prjónaði bleyjubuxurnar á bæjarstjórann
Blaðamaður getur ekki sleppt Magnúsi án þess að spyrja hann aðeins út í nýjan bæjarstjóra Reykjanesbæjar, bróður hans Kjartan Má Kjartansson. „Ég er búinn að þekkja hann síðan hann fæddist. Ég man eftir því þegar ég var að hjálpa mömmu. Þá prjónaði ég bleyjubuxurnar á hann. Ég veit alveg hvaða mann hann hefur að geyma. Ég vil miklu frekar óska íbúum Reykjanesbæjar til hamingju með hann heldur en honum til hamingju með starfið. Það er alveg ljóst að taka þarf á málum og það þarf einhvern veginn að koma öllu á réttan kjöl. Og ég treysti honum til að gera það. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögum sé hollast að vera með menn sem eru tengdir taugakerfi sveitarfélagsins alveg langt ofan í jörðina. Hér slær hjarta Kjartans og hann er sannur Suðurnesjamaður í gegn. Við bræður hans höfum flutt í burtu um allar trissur. Það hefur aldrei komið til greina hjá honum. Ég vona að þetta fari allt vel. Hann er hraustur,“ segir Magnús að lokum.

Hér er lagið Skólaball:

VF/Olga Björt