Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Vinir, vandamenn og allir hinir
  • Vinir, vandamenn og allir hinir
Föstudagur 1. maí 2015 kl. 09:00

Vinir, vandamenn og allir hinir

Verkefnið Andlit bæjarins fer vel af stað.

Ljósop, félag áhugaljósmyndara á Suðurnesjum, vinnur að því verkefni að ljósmynda íbúa Reykjanesbæjar; fráflutta, aðflutta, konur og karla, unga sem aldna. Hugmyndin er að sýna myndirnar á Ljósanótt 2015. Víkurfréttir tóku tali Björgvin Guðmundsson, einn ljósmyndaranna sem standa að verkefninu.

„Verkefnið varð til eftir áramót þegar við í Ljósopi ákváðum að setja upp litla sýningu fyrir Safnahelgi sem haldin var í mars síðastliðnum. Við hjálpumst öll að þó að ég sé aðallega í því að mynda og vinna myndirnar. Við byrjuðum að prufumynda og þróa stílinn strax í janúar. Á Safnahelgi vorum við komin með u.þ.b. 20 myndir sem voru til sýnis,“ segir Björgvin, sem er sjálfstæður margmiðlunarhönnuður og hefur verið að taka og vinna myndir síðustu 15 árin. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík, en telur sig vera hálfan Njarðvíking, þar sem hann hefur búið meirihluta ævinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verkefni hefur undið upp á sig

Ljósops-hópurinn byrjaði á því að mynda vini og vandamenn en fór fljótlega að hafa uppi á persónum sem gaman væri að mynda. „Suma fundum við í kirkjunni, aðra í Sporthúsinu og úti á götu. Auk þess mynduðum við gesti sem komu til okkar á Safnahelginni. Verkefnið hefur svo spurst út smám saman og eftir að við óskuðum eftir þátttöku fólks á Facebook hefur það aldeilis undið upp á sig.“ 

Björgvin segir að bæjarbúar hafi tekið verkefninu mjög vel og aðsóknin í myndatöku verið vonum framar. Fjöldi þeirra sem áætlað var að mynda segir Björgvin alltaf vera að stækka. „Okkur þætti gaman að ná 150-200 manns fyrir Ljósanótt. Erum þegar komin í 100 manns.“ Spurður um hvort verkefnið sé ekki mikilvægur þáttur í að skrásetja sögu Reykjanesbæjar segir Björgvin svo vera og talað sé um að þetta hafi mikið og skemmtilegt sögulegt gildi, þá sérstaklega fyrir komandi kynslóðir. „Það verður mjög gaman að skoða allar þessar myndir eftir 10 til 15 ár. Við erum að vonast til að finna fyrirtæki eða einstaklinga til að styðja við bakið á okkur svo við getum haldið stóra sýningu á næstkomandi Ljósanótt,“ segir Björgvin að lokum. Slóð á vefsíðu verkefnisins er www.ljosop.org/andlit-baejarins/

VF/Olga Björt