Vinátta er lykillinn (video og texti)
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir er nýráðin verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir er aftur komin til heimahagana og tók við nýrri stöðu hjá Reykjanesbæ sem verkefnastjóri fjölmenningarmála í ágúst síðastliðnum. Hilma er fædd og uppalin í Sandgerði en fjölskylda hennar flutti til Reykjanesbæjar þegar hún var sautján ára. Blaðamaður man eftir henni úr FS þegar hún og fleiri ungir krakkar stýrðu nemendafélagi fjölbrautaskólans með pomp og prakt.
Hilma bjó í Reykjavík í nokkur ár eftir langskólanámið en fyrir tveimur árum flutti hún aftur suður, ásamt eiginmanni, Jóni Birni Ólafssyni, og settust þau að í Ytri Njarðvík, með börnin sín þrjú sem eru á aldrinum 3ja til 10 ára. Henni finnst gott að vera komin heim.
Munur á útlendingum
Hilma er kraftmikil ung kona sem hefur brennandi áhuga á málaflokki íbúa af erlendum uppruna og segir að við, sem samfélag, þurfum að hjálpa þeim að fóta sig sem vilja búa hér til langframa. Þeir sem ferðast í gegnum landið kallar hún útlendinga en fólkið sem langar að setjast hér að, vil hún ekki kalla útlendinga heldur íbúa af erlendum uppruna.
Í starfi félagsráðgjafans er mikil áhersla lögð á að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Hún starfaði fyrst hjá Reykjavíkurborg eftir útskrift úr HÍ og var ávallt með hátt hlutfall innflytjenda í skjólstæðingahópnum sínum. Seinna starfaði hún hjá ráðuneyti þar sem málefni innflytjenda voru unnin í stærra samhengi, á landsvísu, þannig að hún er vel að sér í málefnum þessa hóps nýrra Íslendinga.
Fjölmenning er samfélagslegur fjársjóður
„Þegar ég lærði félagsráðgjöf við háskólann þá kviknaði áhugi minn á málaflokki innflytjenda þegar mér var boðið í samstarfsverkefni með víetnömskum ungmennum á vegum Rauða krossins og fleiri aðila. Mér fannst áhugavert að kynnast hvernig ólíkar þjóðir gera hlutina ólíkt, hvernig menningarheimar okkar eru öðruvísi en það er alltaf þessi sameiginlegi mannlegi þráður, að öll viljum við vera viðurkennd og njóta virðingar eins og við erum,“ segir Hilma vingjarnlega og brosir. Það er enginn vafi að þessi unga kona er í réttu starfi þegar hún segist vilja styrkja og efla fjölmenningarsamfélagið á jákvæðan hátt, virkja erlenda íbúa til að vera þátttakendur samfélagsins. Þau geta auðgað þjóðfélagið okkar og örvað það á ferskan hátt. Ekki síður er mikilvægt að virkja börn af erlendum uppruna sem búa hérna, hvort sem þau hafa fæðst eftir komu foreldranna hingað til lands eða fluttu hingað með þeim. Fólki hættir til að einangra sig með samlöndum sínum.
Gerum þetta saman!
„Fimmtungur bæjarbúa í Reykjanesbæ eru íbúar af erlendum uppruna eða um fjögur þúsund manns. Þetta fólk er komið vegna atvinnu til styttri dvalar en einnig til þess að setjast hér að og skapa sér gott líf. Reykjanesbær hefur áhuga á að virkja þessa íbúa og ná til þeirra með ýmsum hætti. Við fundum með fulltrúum til þess að hlera og gá hvað við getum gert saman,“ segir Hilma og það rifjast upp fyrir manni að í raun er þetta ekki í fyrsta sinn sem útlendingar eru áberandi hér á Suðurnesjum. Þegar ameríski herinn bjó hér á meðal okkar og seinna á Vellinum vorum við oft að umgangast útlenda þjóð. Þeir voru í verslunum okkar, á veitingastöðunum og stundum hættu þeir sér í sund og við hin rákum þá í sturtu til að þvo sér áður en farið var ofan í laugina, sælla minninga! Munurinn er bara sá að þeir voru á vegum Bandaríkjastjórnar en þetta fólk sem er hérna núna allt í kringum okkur, kemur sjálfviljugt og yfirleitt í þeim tilgangi að setjast hér að. Að vísu staldra einhverjir stutt við vegna atvinnu og búa margir saman í blokk eða í verbúð. Það fólk líkist þá meira vertíðarfólki.
Vináttan áhrifaríkust
„Við erum núna að skoða hvernig við getum stutt við barnafjölskyldur, til dæmis með því að auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er áríðandi að erlend börn sem búa hér njóti sömu virðingar og íslensk börn og hafi sömu tækifærin til þess að spreyta sig. Þú veist aldrei hvaða snillingur leynist í hverju barni. Við viljum skapa aðstæður fyrir alla og sumar fjölskyldur þurfa meiri stuðning en aðrar. Við erum að leita leiða til þess að erlend börn séu meðtekin í samfélagið okkar og teljum vináttu vera áhrifaríka leið. Börn eiga yfirleitt létt með að tengjast sín á milli og þannig þjálfast erlendu börnin í að tala málið sem er forsenda þess að fólki líði vel í landinu okkar. Það er forvitnilegt að kynnast fólki af annarri þjóð, annarri menningu og venjum. Vinátta er lykill í báðar áttir. Það er fallegra að auka vináttu og virðingu á milli okkar allra og við það minnka fordómar. Ég vil vinna að því fyrir hönd samfélagsins okkar að skapa vettvang fyrir þetta allt saman,“ segir Hilma og maður finnur að þessi kona vill innleiða kærleika í kerfið svo nýbúar finni sig velkomna hjá okkur.