Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Viltu verða sjómaður eða verkfræðingur?
Kennarar í vélstjórnardeild FS, Þórarinn Ægir Guðmundsson og Ívar Valbergsson.
Þriðjudagur 26. mars 2019 kl. 06:00

Viltu verða sjómaður eða verkfræðingur?

Vélstjórnarnám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja opnar ekki bara ýmsa möguleika fyrir þá sem vilja vinna til sjós heldur og einnig þeim sem vilja verða verkfræðingar. Að þessu komumst við í vikunni eftir að hafa spjallað við þá kennara sem stýra náminu í þessari verknámsdeild skólans. Einnig tókum við tali nemendur deildarinnar. Við deildina í dag stunda rúmlega þrjátíu karlkynsnemendur nám.

Framtíðarmöguleikar mjög fjölbreyttir
Ívar Valbergsson hefur kennt við Fjölbrautaskóla Suðurnesja undanfarin tuttugu ár. Hann er vélfræðingur að mennt með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Ívar hefur mótað vélstjórnardeild skólans eins og við þekkjum hana í dag en þar fer aðallega fram vendinám.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er sjálfur með lesblindu og fór að nota tölvur og herma til þess að fræða nemendur mína. Vendinám er stórsniðug kennsluaðferð og sú sem við notum mest í þessari deild í dag. Hún hvetur nemandann áfram. Vélstjórnarnám er í raun vélrænt og rafrænt nám. Þar sem er vélbúnaður þar eru vélstjórar. Störfin og framtíðarmöguleikar eru ótalmörg og launin eru yfirleitt mjög góð. Það hefur aldrei verið atvinnuleysi í þessari stétt. Sjálfur hef ég valið kennslu af hugsjón eins og svo margir aðrir kennarar. Stelpur eiga alveg heima í þessu námi. Á rúmum tuttugu árum hafa fjórar stelpur verið nemendur hjá okkur,“ segir Ívar sem vill efla iðn- og verkmenntun allra nemenda.

Staðreyndin er sú að á Íslandi erum við að útskrifa mun færri úr þessum greinum en til að mynda Noregur. „Á meðan Íslendingar útskrifa í kringum 12% þá eru Norðmenn að útskrifa 40%,“ segir menntamálaráðherrann Lilja Alfreðsdóttir sem vill efla iðn- og verknám í landinu.

Vélstjórar þurfa að kunna margt
„Góður vélstjóri þarf að vera mjög fjölhæfur. Þessi deild hentar ekki aðeins þeim sem stefna í sjómennsku eða í vinnu í landi sem vélstjórar. Nefnum sem dæmi þann sem langar að verða verkfræðingur þá er stórsniðugt að fara í vélstjórnarnám fyrst, því hér lærirðu um fjölmörg kerfi sem eru í vélarrúmi til dæmis frysti-, vatnsveitu-, vökva- og rafveitukerfi og fleira. Verkkunnátta þjálfast og meiri skilningur skilar sér með verklegu námi. Ég heyrði um yfirmann í álveri sem lét alla nýja verkfræðinga byrja fyrst að vinna í verksmiðjunni sjálfri, áður en sá hinn sami settist inn á skrifstofu. Verkþjálfun fullkomnar verkfræðinámið samkvæmt þessu, tæknileiknin verður raunveruleg. Stærðfræði og eðlisfræði verða þér ljóslifandi á verklegan hátt í vélstjórnarnámi. Nemendur á raungreinabraut hafa einnig valgreinar hér í FS til þess að leika sér með, ef þú ætlar að verða bæklunarlæknir eða tannlæknir. Þá mæli ég með málmsuðu. Tengja saman hug og hönd. Nemendur þurfa að átta sig á heildarmyndinni, vera skynsöm og hafa þannig forgjöf á aðra sem útskrifast úr sama námi. Ef þú ætlar að verða arkitekt eða byggingaverkfræðingur þá er stórsniðugt að velja nokkra áfanga í tréiðn. Þú hefur valeiningar til að leika þér með,“ segir Ívar.

Fleiri stelpur í vélstjórnarnám
Þórarinn Ægir Guðmundsson er vélfræðingur að mennt en hann byrjaði að kenna við vélstjórnardeildina síðastliðið haust. „Ég er sammála því að stelpur eigi heima í þessu námi. Sjómennska, fjarvera frá heimili og skítug verkstæðisvinna dettur flestum í hug sem heyra á þetta nám minnst og ég held að stelpur haldi að sú sé raunin sem er tómur misskilningur. Þessi deild opnar þér tækifæri inn í svo mörg önnur framtíðarstörf. Flestar stelpur laðast yfirleitt ekki að störfum sem krefjast fjarveru. Hrein og fín störf laða frekar kvenfólk til sín. Það hefur sýnt sig að blandaðir vinnustaðir séu betri á margan hátt. Það kallar á öðruvísi vinnubrögð þegar kynin starfa saman, allt frá mannlegum samskiptum yfir í líkamlega beitingu. Sjónarhornið sem ég er með á vélstjórnarnáminu er að við þurfum að horfa til þess að skipum fer fækkandi því verðum við að horfa frekar til þess að skapa okkur stöðu í landi. Fáar brautir eins þverfaglegar eins og vélstjórn og því hentar þessi braut ákaflega vel sem undirbúningur fyrir tækni- og verkfræðinám. Vélstjórn er ekki einkaeign stráka, stelpur eiga jafn mikið heima hér, samanber að á hverju ári eru háskólarnir okkar að útskrifa margar frábærar stelpur úr tækni- og verkfræðinámi. Því erum við ekki að nota þetta öfluga nám sem vélstjórnin er til að undirbúa þær og gera þær enn þá betri? Rauði þráðurinn hjá mér er sá að við ættum að fara horfa til þess að vélstjórarnir okkar fara ekki bara út á sjó heldur einnig beint í háskólanám og það ætti að setja aukna áherslu á að beina mönnum þangað,“ segir Þórarinn.

Leiðtogaefni framtíðarinnar gætu lært hér
„Vélstjórnardeildin hefur margt fram að færa og hér færðu að þjálfa upp tæknileikni þína. Ef þú ert að hugsa um að verða tækni- eða verkfræðingur til dæmis þá áttu heima hér. Fólk þarf að átta sig á þessari tengingu. Stjórnendur á verkfræðistofum hafa sagt að vélstjórnarnámið sé frábær undirbúningur, bæði fyrir nám í tæknifræði og verkfræði. Möguleikarnir eru mjög fjölbreyttir. Það vantar stelpur í vélstjórnarnám. Vélfræðingar geta orðið leiðtogar hjá öllum fyrirtækjum og stofnunum sem eru leiðandi fyrirtæki í iðnaði hér á landi og erlendis.  Hugsanlega er starfsmannasamsetningin hjá þeim þannig að vélstjórar slæðast með, það hefur maður séð og heyrt. Þetta er tækninám þar sem þú eflir verkkunnáttu þína. Margir hafa sett læknisfræðinám í samhengi við nám af náttúrufræðibraut og verkfræðinám með undirbúningi af raungreinasviði. Það er þessi áskorun í stærðfræði og eðlisfræði. Það sem við höfum framyfir er einstakt því við höfum svo mikla tengingu á milli allra faggreina. Margir nemendur spyrja sig í grunnskóla afhverju þeir séu að læra algebru til dæmis. Hjá okkur gerum við verklegar æfingar þar sem þessar grunnfræðilegu kenningar eru prófaðar og tengingin milli kenningar og virkni kemur í ljós. Oftar en ekki heyrir maður sagt: „Við hefðum átt að hlusta betur á stærðfræðikennarann,“ segir Þórarinn. 

Báðir eru þeir Ívar og Þórarinn sammála um að best sé að kveikja í nemendum því þá fer hann af stað sjálfur til að afla sér þekkingar. Eldmóður er drifið sem keyrir alla áfram. „Hlutverk okkar sem kennara er að kveikja í eldmóði nemenda til að nám geti átt sér stað,“ segir Ívar að lokum.


Námsráðgjafi benti mér á þetta nám
Bergvin Stefánsson, 18 ára.

„Ég er á þriðja ári núna og útskrifast með B réttindi næstu jól. Þá held ég að ég fari í Tækniskólann og klári D stigið þar. Ég hef alltaf haft áhuga á bátum, bílum, flugvélum og öllum vélum, alveg síðan ég var krakki. Þegar ég var í 10. bekk fór ég til námsráðgjafa sem ráðlagði mér að fara í þetta nám út frá áhugasviði mínu. Ég ætlaði alltaf í bifvélavirkjun en ef ég er með vélstjórnarréttindi þá er ég kominn með góðan grunn í bílaviðgerðum. Á fimm árum í vélstjórnarnámi er hægt að útskrifast með stúdentspróf og full réttindi sem vélstjóri. Það eru vélstjórar alls staðar að vinna, hjá Kölku, HS Orku og í álveri til dæmis. Virkjanir eru með vélstjóra einnig. Það er næg atvinna og fín laun á flestum stöðum. Maður þarf ekkert að enda á sjó. Ég væri samt til í að prófa sjómennsku í einhvern tíma en ekki sem ævistarf. Ég vil vinna við það sem ég hef áhuga á. Það hefur alveg hvarflað að mér að fara í flugvirkjann. Ég þori ekki að taka mér pásu frá námi og vil frekar klára námið áður en ég fer að vinna. Maður getur nefnilega vanist því að hafa peninga á milli handanna. Ég er mjög ánægður með kennsluna í FS. Kennararnir eru mjög hæfir og hafa greinilega gaman af starfinu sínu.“


Ætlaði í háskólann eins og allir hinir
Elvar Jósefsson, 24 ára.



„Ég vissi ekki hvað mig langaði að verða, byrjaði eins og allir hinir, tók stúdentspróf og ætlaði í tæknifræði eða verkfræði í háskólanum. Það er þessi hjarðhegðun að taka stúdentspróf og fara í háskólann. Ég fór að vinna í frystihúsi í Garðinum eftir stúdentspróf, ætlaði að taka mér pásu í eitt ár og þéna pening til að eiga fyrir háskólanáminu því ég vildi ekki taka námslán. Þetta urðu þrjú ár í fiskvinnslu. Það var í frystihúsinu sem ég fékk áhuga á kælitækni sem ýtti mér út í vélstjórnarnámið hér í FS. Ég er með stúdentspróf af náttúrufræðibraut sem hjálpar ansi mikið á vélstjórnarbraut vegna stærðfræðinnar. Hér þjálfa ég verklega þáttinn. Nú hef ég verið hér í tvö ár og útskrifast líklega með B stigið eftir ár. Þá ætla ég að klára D stigið í Tækniskóla Íslands eða í VMA á Akureyri. Hér í FS tek ég aðeins A og B stig. Ég er mikill skipaáhugamaður og hef mun meiri áhuga á vélum í dag. Þetta var svona undirliggjandi og blundaði í mér allt saman. Núna er ég á leið í kæliiðnaðinn eða í virkjanabransann, hjá Landsvirkjun og svoleiðis. Ég væri alveg til í að prófa að fara á sjó en ég vil ekki vera sjómaður fyrir lífstíð. Námið er mun skemmtilegra en ég hélt áður en ég byrjaði. Ég gæti haldið áfram eftir þetta nám í verkfræðideild Háskóla Íslands. Þegar þú ert búin að læra svona tegund af iðnnámi þá ertu betur undir það búinn að fara í tæknifræði eða verkfræði, hér lærum við að skilja alla ferla betur því hér er verknám. Við ræsum vélar og lærum meira um hvernig ferlið virkar þannig. Maður skilur betur virknina. Það er fín kennsla hérna og við fáum alvöru verkefni.“


Árið á sjó kveikti eldinn í mér
Emil Dagur Garðarsson, 24 ára.



„Vélstjórn er akkúrat það sem mig langaði að læra. Það er hagkvæmara að læra hér í heimabyggð en ég prófaði að læra innfrá, það var bæði dýrt og ekki eins gaman. Þetta er búið að taka nokkur ár hjá mér því mér fannst bækurnar þurrar og var ekki nógu áhugasamur í skóla. Það vantaði neistann í mig. Ég kom hingað fyrst sextán ára, var óþroskaður og svona. Svo fór ég á sjó allt árið 2018 og líkaði mjög vel. Eftir þann tíma fékk ég meiri áhuga og mér fannst ég þroskast. Ég var búinn að ná mér í réttindi sem vélavörður og vann við það um borð. Þetta ár á sjó kveikti eldinn í mér. Nú sakna ég þess að vera ekki á sjó og hlakka til að fara aftur. Ég hef alltaf elskað vélar og þegar þúsund hlutir koma saman til þess að afkasta einhverju, það finnst mér list. Ég á kannski eitt ár eftir núna í náminu. Mér finnst þessi deild ná til mín og ég fæ verkefni hérna sem eru lík raunverulegum verkefnum á sjó. Það kemur kannski verkefni frá kennaranum sem ég á að leysa og þarf að leita að upplýsingunum sjálfur, sem er mjög raunveruleg þjálfun. Verkefnin reyna á svo marga hæfileika í manni. Allir kennararnir hérna eru meira en færir, þessir menn eru meistarar. Ástríða þeirra fyrir kennslu er smitandi.“

[email protected]