Viltu vera leiðsögumaður flóttafólks?
Leiðsögumenn flóttafólks eru sjálfboðaliðar sem kynnast og aðstoða nýkomna einstaklinga eða fjölskyldu sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi. Allir sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi er boðið að taka þátt í þessu verkefni.
Leiðsögumannapörin hittast í 4-6 klst. á mánuði í eitt ár. Í sameiningu ákveða þeir hvar og hvenær þeir vilja hittast. Leiðsögumannapörin hafa verið að hittast t.d. á kaffihúsum, bókasöfnum eða heima hjá hvort öðru. Allt sem þeim fer á milli er bundið þagnaskyldu.
Leiðsögumenn verða vinir þeirra nýkomnu, svara spurningum um lífið á Íslandi, æfa íslensku eða ensku, tala um íslenska menningu og/eða aðstoða við praktísk úrlausnarefni eins og atvinnuleit, skólaumsóknir og þýðingar bréfa sem berast á íslensku.
Markmið verkefnisins er sameiginleg aðlögun. Sjálfboðaliðarnir styðja fólks til sjálfstæðis í nýju landi með því að aðstoða þau við að nýta hæfileika sína og þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að farnast vel á Íslandi. Þátttakendur eignast nýja vini, styrkja félagsnet sitt, öðlast nýja innsýn inn í íslenskt kerfi og læra um menningu, tungumál og hefðir hvers annars.
Allir sjálfboðaliðar þurfa að sitja námskeið um málefni innflytjenda sem Rauði krossinn heldur. Námskeiðið er á tveggja mánaða fresti, er opið öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu.
Þorbjörg Guðnadóttir er verkefnastjóri hjá Rauða Krossinum í málefnum flóttafólks á Suðurnesjum. Hún sér um að útvega þeim aðstoð í sex mánuði, fær manneskju þeim til leiðsagnar sem er kunnug í íslensku samfélagi. Hún segir að í aðstæðum eins og við búum við núna auðveldi það lífið að fá upplýsingar ef maður er tengdur samfélaginu. Það gerist þegar flóttafólkið hefur leiðsögumann sem getur komið mikilvægum upplýsingum til þeirra.
Okkur vantar leiðsögumenn
„Nú erum við að óska eftir fólki sem er tilbúið að gerast leiðsögumenn flóttafólks, okkur vantar fleiri. Það skiptir miklu máli að við aðstoðum þessa nýju íbúa að fóta sig í nýju samfélagi . Við viljum öll búa í góðu samfélagi og við viljum skilja hvert annað, fordómar skapast af þekkingarleysi. Þegar ég tengi flóttamann við leiðsögumann þá kynnist hann fjölskyldu í leiðinni. Fólk kynnist menningu hvers annars. Flóttamenn tala um hvað Íslendingar eru vingjarnlegir og þeir eru þakklátir fyrir hve vel þeim er tekið. Ímyndaðu þér ef þú myndir flytja til Sýrlands til dæmis, þú kannt ekki málið og þekkir engan sem getur kennt þér á samfélagið. Væri ekki gott ef einhver góðhjörtuð manneskja myndi gerast leiðsögumaður þinn og hjálpa þér að kynnast landi og þjóð? Við verðum að reyna að setja okkur í spor þessa fólks sem hefur flúið heimalandið sitt vegna erfiðra aðstæðna“ segir Þorbjörg.
Sameiginleg aðlögun
„Fólk þarfnast oft aðstoðar við að sækja um vinnu, finna lækni eða að leita húsnæðis og fá svör við hversdagslegum hlutum. Það myndast vináttutengsl og þó fólk tali ekki sama tungumál þá má notast við allskonar táknmál eða googla það sem sagt er, fólk finnur allskonar leiðir til að eiga samskipti þegar þess þarf. Tilgangurinn er einnig að tala saman á íslensku, því það gerir jú allt auðveldara þegar skilningur á tungumálinu er fyrir hendi. Reynsla mín er sú að flóttafólkið sem við fáum hingað langar að gefa tilbaka, verða virkir í íslensku samfélagi. Leiðsögumenn eru á öllum aldri frá 24 ára og upp úr. Konur hafa verið í meirihluta og skora ég á karla að gefa líka kost á sér. Þetta er ekki líkamlega erfitt starf en kollurinn þarf að vera í lagi. Það er gott ef þú talar ensku og jafnvel spænsku því núna eru margir flóttamenn að koma frá Venesúela. Þeir sem hafa áhuga á að gerast leiðsögumenn eða langar að forvitnast meira um verkefnið, geta hringt í mig í síma 768 7902 eða sent mér tölvupóst á: [email protected].“ segir Þorbjörg.
Inga Hildur Gústafsdóttir ásamt vinkonu sinni frá Rússlandi.
Inga Hildur Gústafsdóttir:
Þorbjörg segir Rauða Krossinn vera með nokkra nú þegar sem eru leiðsögumenn flóttafólks. Ein þeirra er Inga Hildur Gústafsdóttir sem við tókum tali.
Gott að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu
„Það er nokkuð krefjandi en líka gaman, bæði að kynnast annarri menningu og slæmu ástandi þeirra sem flýja heimaland sitt. Ég geri mitt besta til að hjálpa konunni sem ég er með en helsta vandamálið fyrir hana er að fá vinnu. Hún talar ekki íslensku, er samt búin að vera að læra hana síðasta ár. Hún er nokkuð góð í að skrifa og skilur íslenskuna ágætlega en talar nánast ekkert. Ég er leiðsögumaður konu frá Rússlandi sem kom hingað fyrir tveimur og hálfu ári. Ég bauð mig fram því Rauði Krossinn var að leita að fólki til að vera leiðsögumenn og mig langaði að prófa þetta. Mér finnst gott að geta hjálpað konunni. Dóttir hennar og sonur búa hjá henni, bæði orðin fullorðin, á milli tvítugs og þrítugs. Ég hef einnig verið að hjálpa þeim en ég kom þeim í samband við Hrafnistu á Nesvöllum þar sem þær fengu tækifæri til að kynnast starfinu og þakka ég Þuríði Elísdóttur fyrir að taka vel á móti þeim. Ég er að vona að móðirin fái vinnu ef hún verður dugleg að tala íslensku. Einnig fékk móðirin að kynnast starfinu á leikskólanum Hjallatúni og þakka ég Ólöfu M Sverrisdóttur fyrir það.
Mér finnst gott að geta aðstoðað konuna og börnin hennar og reyna að koma henni inn í samfélagið því hún er mikið ein og leiðist. Já, ég mæli alveg hiklaust með því að gerast leiðsögumaður flóttafólks, það er bæði skemmtilegt og gefandi,“ segir Inga Hildur.
Rauði krossinn á Íslandi gerði nýlega myndskeið (video) með sex tungumálum. Markmiðið með þeim var að koma nauðsynlegum upplýsingum vegna Covid19 til hælisleitenda.
Heimamenn, innflytjendur, flóttafólk og hælisleitendur tóku þátt í gerð myndbandanna. Bus4u, Bónus og Geimsteinn veittu aðstoð við hana.
Hér er linkur á þessi myndbönd. (https://virtualvolunteer.org/health_tip/covid-19-resources-in-different-languages/)