Vill Vesturbæjarís til Suðurnesja
-Olga Ýr Georgsdóttir svarar spurningum um lífið og tilveruna suður með sjó
Hvað ertu að bralla þessa dagana?
Ég er á síðasta ári í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein í HR, starfa sem flugfreyja hjá WOW air og æfi bootcamp.
Hvað finnst þér best við það að hafa alist upp á Suðurnesjunum?
Ég myndi segja nágrennið. Það var auðvelt að fara á milli staða þar sem allt var í göngufæri, hvort sem það var verið að fara á æfingu eða að leika við vini sína.
Ef þú ættir að mæla með einhverju einu af svæðinu fyrir ferðamenn, hvað væri það?
Ég myndi mæla með að skoða Gunnuhver og það svæði. Einnig að labba meðfram göngustígnum hjá Berginu í Reykjanesbæ og þá sérstaklega á sumrin.
Hvað ætlaru að gera í sumar?
Ég setti mér það markmið fyrr í sumar að nýta mér dagana sem ég er í fríi í útivist, bæði að fara í fjallgöngur og heimsækja náttúrulaugarnar um landið.
Hvað finnst þér betur mega fara í bænum?
Mér finnst að verslun og þjónusta mætti vera líflegri og fólk tæki meiri þátt. Svo væri algjör snilld ef Vesturbæjarís myndi opna.