Mannlíf

Vill varðveita söguheimildir af Suðurnesjum
Sunnudagur 10. maí 2015 kl. 09:00

Vill varðveita söguheimildir af Suðurnesjum

Átaksverkefninu 'Áður en fífan fýkur' hrundið af stað.

„Ég hef frá unga aldri lagt rækt við söfnun og varðveislu heimilda og skráningu þeirra, einkum á formi myndmiðils. Efnið hef ég lagt fram öðrum til skoðunar, fróðleiks og ánægju án endurgjalds. Þegar eru komnar minningar frá aðilum sem ekki eru lengur með okkur hér,“ segir Guðmundur Magnússon, kvikmyndagerðamaður og áhugamaður um sögu og varðveislu menningarminja á Suðurnesjum. Hann hefur hrundið af stað átaki í varðveislu á söguheimildum undir nafninu 'Áður en fífan fýkur'. 

Sérstaðan er nálægð við sjó 

Garðurinn og Suðurnes eiga sér sína sögu á sama hátt og aðrir landshlutar. Sérstaðan þar er nálægð við sjó og nytjar hans. Að sögn Guðmundar hefur þó lengst af verið hófsemi í söfnun og skráningu sögu og sagna af mannlífi. „Það felast mikil verðmæti í þeirri vinnu að grafa upp gamalt efni um Suðurnesin, halda því til haga og festa á filmu það sem gerist á líðandi stund.
 Slíkar upplýsingar eru og verða gulls ígildi þegar fram líða
stundir. En kvikmyndir og hljóðupptökur hafa ekki ávallt notið fullrar viðurkenningar sem hluti af menningararfi okkar. Það viðhorf er þó aðeins að breytast.“

Jafnframt segist Guðmundur þess fullviss að nauðsynlegt sé að festa sem mest á filmu og varðveita það sem til er, eins vel og hægt er. „Það er líka nær ómögulegt að fá fjármagn í heimildasöfnun af þessu tagi hérna á Suðurnesjum og ekki síður erfitt að fá fjármagn í vinnslu og skráningu á efninu. Hvað er þá til bragðs að taka? Þetta gengur hægt og það er mikil vinna eftir og nauðsynlegt að ná frásögnum þessa fólks.“

Guðmundur hefur sett sér þessi markmið fyrir næstu fjögur ár:

*Ná sem flestum frásögnum Suðurnesjamanna á aldrinum 70 ára og eldri, af atvinnu, félags- og menningarlífi á Suðurnesjum frá árunum 1930-1980.

*Leita uppi gamlar hljóð- og kvikmyndaupptökur frá Suðurnesjum, skrásetja og setja á aðgengilegt form.


*Halda stóra sýningu á safnahelgi Suðurnesja árið 2019 á því efni sem safnast hefur, á öllum söfnum á Suðurnesjum.


*Setja á laggirnar kvikmynda- og hljóðbókasafn Suðurnesja.

Þeir sem hafa áhuga á því að leggja þessu verkefni lið með einhverjum hætti, geta haft samband við Guðmund í netfangið [email protected]. Þið sem hafið áhuga á að styrkja þessa vinnu hafi vinsamlegast samband í síma 866-0448 eða í fyrrgreint netfang. Einnig er hægt er að leggja framlög til verkefnisins inn á reikning 0157-05-400730, kennitala: 700807-2580.