Vill setja upp skrautfiskasafn í Grindavík
Sagt hefur verið að kreppan sé móðir tækifæranna. Þá fæðast oft hugmyndir til nýsköpunar og aðrar sem fólk hefur gengið með lengi fá byr í seglinn. Fyrir skömmu greindum við frá hugmynd listamannsins Ottós Magnússonar um íslistasafn í Vogum og er verið að vinna henni brautargengi. Er talið að slíkt safn gæti haft mikið aðdráttarafl á ferðamenn.
Í Grindavík er komin fram önnur hugmynd að safni, ekki síður athyglisverð. Bæjarmálavefur Grindavíkur segir frá áhuga Guðmundar J. Sigurgeirssonar á uppsetningu ferksvatns-fiskasafns þar í bæ og hefur Guðmundir viðrað þessar hugmyndir formlega við bæjaráð sem tók vel í erindið. Það er núna til umfjöllunar í atvinnumálanefnd.
Guðmundur er engin nýgræðingur þegar kemur að ræktun skrautfiska því hann hefur stundað þetta sem áhugamál í rúmlega þrjá áratugi. Hann heldur úti vefsíðunni www.fiskabur.is. Þar hefur hann tekið saman ógrynni af fróðleik og ljósmyndum þessu tengdu.
Í samtali við www.grindavik.is segist Guðmundur leita eftir hentugu húsnæði í Grindavík og er hugmyndin að samhliða safninu verði rekin gæludýraverslun.
Miðað við fyrirætlanir Guðmundar er ljóst að skrautfiskasafnið er mjög metnaðarfullt verkefni sem myndi án nokkurs vafa vekja mikla athygli. Öll búr verða með sér útskorinn bakgrunn og því ekkert eins. Gert ráð fyrir að í þeim verði skrautfiskar úr öllum heimshornum eins og rafmagnsskattfiskar, piranafiskar, kuðungasíkliður, ferskvantsskötur, litlar tetrur o.fl, segir á vef Grindavíkurbæjar.
,,Atferli fiskana og saga þeirra verður skrifuð við hvert búr til að gestir fái innsýn í veröld vatnsins sem er flestum ekki sýnileg, ef þetta gengur nú allt saman upp. Ég vona svo sannarlega að svo verði en fyrst er að finna rétta húsnæðið," segir Guðmundur.