Vill nýja ríkisstjórn í jólagjöf
Andri Þór Ólafsson er 23 ára Sandgerðingur, varabæjarfulltrúi sem starfar í Fríhöfninni í FLE. Andri væri mikið til í nýja ríkisstjórn í jólagjöf en hann hefur þó meiri áhyggjur af því að finna gjafir fyrir sína nánustu.
Hver er besta jólamyndin?
Alltof erfið spurning. Die Hard myndirnar eru í miklu uppáhaldi og get ég hreinlega ekki gert upp á milli númer 1 og 2. Jólin koma ekki nema að ég horfi á þessar myndir.
Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Mér finnst Sagan af Jesúsi með Baggalúti æðislegt lag, reyndar finnst mér öll jólalögin með þeim mjög góð. Kemst alltaf í svakalegan jólafíling.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf? (Jólahefðir)
Reyndar ekki. Það eru þessi jólaboð sem eru á hverju ári en annars er ekkert fast í hendi.
Hvernig er dæmigerður aðfangadagur hjá þér?
Síðustu ár hef ég oftast verið að vinna á aðfangadag, sem mér finnst reyndar mjög gaman. Í ár verð ég hins vegar ekki að vinna og býst ég við því að sofa vel út. Á slaginu kl: 18 þá borðum við fjölskyldan saman og tökum upp pakka. Nokkuð hefðbundið hjá okkur.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Man alltaf eftir því þegar ég fékk lítinn traktor frá mömmu og pabba þegar ég hef verið svona fjögurra ára gamall. Þetta var svona traktor með skóflu að framan sem ég gat setið á og fylgdi honum kerra. Hann var æði.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Frá því að ég man eftir mér þá hefur verið hamborgarhryggur í matinn á aðfangadag. Mín ástkæra móðir kom þó með þá hugmynd um daginn (ekki í fyrsta skiptið) að hafa kalkúnabringur. Ég og pabbi unnum þá
atkvæðagreiðslu og verður hamborgarhryggurinn á boðstólum þessi jól. Guð minn góður hvað ég hlakka til!
Eftirminnilegustu jólin?
Það eru engin jól sem eru eftirminnilegust, þau eru öll eftirminnileg.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Mín heitasta ósk er sú að fá nýja ríkisstjórn, það væri mér mjög kært. Annars hef ég voða lítið pælt í því, er meira með hausverk yfir því hvað ég á að gefa í jólagjöf. Ætli ég reddi þessu ekki bara á Þorláksmessu
eins og síðustu ár.
Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér? (Borðar þú skötu?)
Það er ekki fræðilegur möguleiki á því að skata fari inn fyrir mínar varir. Það er ekkert að fara breytast, það er alveg öruggt.